Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 647  —  490. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018 (framkvæmd fyrninga).

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Annar minni hluti harmar tilefni þessa frumvarps. Óumdeilt er að markmiðið með frumvarpi, sem samþykkt var 20. apríl 2021 um breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, til að hvetja til fjárfestinga einkaaðila í atvinnurekstrareignum í kórónuveirufaraldrinum, hafi ekki verið að lækka veiðigjöld. Vegna víxlverkunar ákvæðisins sem var samþykkt og 5. gr. laga um veiðigjald, nr. 145/2018, leiðir framangreind breyting til þess að veiðigjöld vegna ársins 2022 lækka um 2,5 milljarða kr. Matvælaráðherra hefur því lagt fram frumvarp sem dreifir þessari lækkun yfir fimm ára tímabil.
    Annar minni hluti leggst ekki gegn þessu frumvarpi en telur það vera til marks um alvarlegan ágalla í lögum um veiðigjald. Sú staðreynd ein að ráðuneyti sjávarútvegsmála hafi ekki séð fyrir áhrif fyrrgreindrar breytingar sýnir vel hversu ógagnsæjar og flóknar reiknireglur veiðigjalda eru í raun.
    Markmiðið með kvótakerfinu var þríþætt: Að koma í veg fyrir ofveiði, auka hagkvæmni sjávarútvegarins og að koma á sanngjarnri skiptingu auðlindarentunnar milli eiganda auðlindarinnar, þ.e. íslensku þjóðarinnar, og þeirra sem hafa nýtingarrétt á henni. Að mati 2. minni hluta hefur síðasta markmiðinu ekki verið náð.
    Annar minni hluti telur ástæðu til að nefna að fjárfesting í skipum á sér ekki stað án aðdraganda. Fjárfestingar í sjávarútveginum eru dýrar og undirbúnar á löngum tíma. Sá afsláttur opinberra gjalda, sem frumvarpi þessu er ætlað að dreifa yfir lengra tímabil, er því auk annars til þess fallinn að skiptast ójafnt niður á útgerðir. Hann gagnast þeim sem voru þegar búnar að taka ákvörðun um stórar fjárfestingar í stað þess að dreifast jafnt yfir greinina. Því er ekki úr vegi að líkja honum öðru fremur við lottóvinning.
    Til viðbótar við þennan ágalla byggist útreikningur veiðigjalda á opinberri verðlagningu sem er langt frá því að endurspegla markaðsverð nytjastofna. 2. minni hluti leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að veiðigjöld séu reiknuð á grundvelli markaðsverðs.
    Annar minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Aflaverðmæti botnfisks reiknast sem margfeldi meðalverðs á fiskmörkuðum og aflamagns hvers nytjastofns á yfirstandandi ári. Aflaverðmæti uppsjávarfisks reiknast sem margfeldi meðalverðs fyrir hvern nytjastofn til vinnslu í Noregi og aflamagns á yfirstandandi ári.
     b.      Í stað 4. málsl. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar. Séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skal ríkisskattstjóri dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár. Áætluð vaxtagjöld skulu nema sömu fjárhæð og þær fyrningar sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á veiðigjaldi á ári hverju.

Alþingi, 29. nóvember 2022.

Hanna Katrín Friðriksson.