Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 660  —  388. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um útgreiðslu séreignarsparnaðar til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.


    Við vinnslu svarsins óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Skattinum.

     1.      Hversu margir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hafa óskað eftir því hjá Skattinum að útgreiðsla séreignarsparnaðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sé skráð í reit 143 í skattframtali?
    Í svari Skattsins er vakin athygli á að Skatturinn hafi að fyrra bragði verið búinn að ljúka við leiðréttingu í nánast öllum tilvikum í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins.
    Í svarinu kemur fram að kærur vegna álagningar tekjuáranna 2020 og 2021, þar sem krafist var flutnings tekna úr reit 140 í reit 143, hafi alls verið 58. Fallist hafi verið á kröfu kæranda að fullu í 27 tilvikum en í 31 tilviki hafi kröfu verið hafnað.

     2.      Hversu margir hafa fengið slíka leiðréttingu og vegna hversu mikilla útgreiðslna? Svar óskast sundurliðað eftir útgreiðslum áranna 2020 og 2021.
    Í svari Skattsins kemur fram að ekki hafi verið haldið sérstaklega utan um fjárhæðir útgreiðslna að baki leiðréttingunum. Þá greinir að fjöldi leiðréttinga sem búið sé að framkvæma sé eftirfarandi:
Vegna tekjuársins 2020 10.780 einstaklingar
Vegna tekjuársins 2021 9.515 einstaklingar

     3.      Hversu mörgum hefur verið synjað um slíka leiðréttingu og vegna hversu mikilla útgreiðslna? Svar óskast sundurliðað eftir útgreiðslum áranna 2020 og 2021.
    Í svari Skattsins kemur fram að synjanir vegna tekjuársins 2020 hafi verið 31 tilvik og að í engu tilviki hafi verið synjað vegna tekjuársins 2021. Fram kemur að ekki hafi verið haldið sérstaklega utan um fjárhæðir útgreiðslna.