Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 681  —  539. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (rafvæðing smábáta).

Frá matvælaráðherra.



1. gr.

    Við 5. tölul. 6. mgr. 6. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er á fiskiskipi heimilt að draga allt að 750 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, ef skipið er skráð sem rafknúið skip á skipaskrá, sbr. 5. gr.

2. gr.

    Lögin þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem unnið er í matvælaráðuneytinu, kveður á um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem stuðla á að því að eigendur smábáta eða minni fiskiskipa á strandveiðum sjái hvata til þess að fjárfesta í nýjum bátum eða skipum eða gera breytingar á bátum og skipum sínum þannig að þau gangi fyrir rafmagni með drifrafhlöðum í stað jarðefnaeldsneytis.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er því lýst yfir að loftslagsmál verði sett í forgang. Lögð verði áhersla á markvissar og metnaðarfullar aðgerðir til að draga úr losun og hraða orkuskiptum. Er frumvarpið hluti af þeim verkefnum sem ýta undir orkuskipti í sjávarútvegi og verður áframhaldandi vinna í þeim efnum enn fremur byggð á tillögum úr nýlega útgefinni skýrslu um græn skref í sjávarútvegi. Markmiðið verði að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 er frumvarpið á málefnasviði 13 – Sjávarútvegur og fiskeldi og fellur undir málaflokk 13.1. Frumvarpið fellur vel að meginmarkmiðum málefnasviðsins, þ.e. að tryggja að íslenskur sjávarútvegur verði áfram í fremstu röð á alþjóðavísu með sjálfbærri auðlindanýtingu, verðmætasköpun og kolefnishlutleysi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða er fjallað um strandveiðar; um leyfi, tímabil, svæðaskiptingu, aflamagn og önnur skilyrði strandveiða, meðal annars um að á hverju fiskiskipi sé heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð. Í frumvarpinu er lagt til nýtt ákvæði um að á þeim smábátum eða fiskiskipum sem knúin eru eingöngu rafmagni verði heimilt að landa 750 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð á strandveiðum í stað 650 kg.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið var ekki talið gefa tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar, en rétt er þó að taka fram að það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við fiskveiðar er í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst þá aðila sem hafa hug á að rafvæða skip eða kaupa rafvædd skip sem falla undir ákvæði 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða. Aðrir helstu aðilar eru Landssamband smábátaeigenda, Strandveiðifélag Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Hafnarsamband Íslands og Samorka. Þá kemur efni frumvarpsins inn á svið Fiskistofu, innviðaráðuneytis og Samgöngustofu.
    Áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda dagana 17. ágúst til og með 1. september 2022 (mál nr. S-147/2022). Var skilgreindum hagsmunaaðilum tilkynnt sérstaklega um áformin og birtingu þeirra í samráðsgáttinni. Bárust 13 umsagnir á umsagnartíma, frá Bláma, Grænafli ehf., Landssambandi smábátaeigenda, félagi smábátaeigenda á Austurlandi, ungum umhverfissinnum, Hafnarsambandi Íslands, Samorku og einstaklingum.
    Í áformunum var gert ráð fyrir tímabundnu ákvæði um hagræna hvata að því er varðar rafvæðingu báta á strandveiðum. Í umsögnum var fagnað áformuðum breytingum sem miðuðu að því að flýta orkuskiptum í sjávartengdri starfsemi með hagrænum hvötum. Þá komu fram sjónarmið um að breytingar ættu einnig að ná til báta sem nýta rafeldsneyti og aðra græna orkugjafa. Jafnframt komu fram sjónarmið um að gildistími ákvæða um ívilnun væri of stuttur með tilliti til hagkvæmni og fyrirvari skammur fyrir fjárfestingar. Þá komu fram athugasemdir um uppbyggingu innviða, bæði hafna og dreifikerfis raforku. Umsagnir höfðu áhrif á efni frumvarpsins og í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að ákvæðið verði varanlegt. Einnig er unnið að hagrænum hvötum fyrir aðra græna orkugjafa. Ekki er gert ráð fyrir að rafvæddir bátar verði það margir fyrst um sinn að gera þurfi sérstakar breytingar á innviðum raforkudreifingar. Hafnir eru misvel búnar til að bátar geti tengst rafmagni og eðlilegt að slíkir bátar séu því gerðir út frá höfnum sem geta veitt slíka þjónustu.
    Drög að frumvarpi voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda dagana 24. október 2022 til og með 7. nóvember 2022 í máli nr. S-203/2022. Var helstu hagsmunaaðilum gert viðvart um málið í samráðsgáttinni. Bárust þrjár umsagnir, frá Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og frá einstaklingi. Í umsögnum kom m.a. fram að ívilnun ætti einnig að ná til tvíorkubáta og að kostnaður við rafvæðingu gæti verið mikill. Þá var bent á þörf á uppbyggingu á innviðum í höfnum og að horfa einnig til annarra leiða og hvata.
    Ráðuneytið bendir á að frumvarpinu er ætlað að ná eingöngu til rafvæðingar smábáta á strandveiðum. Frumvarpið er eitt af nokkrum sem eru í vinnslu á sviði orkuskipta. Ekki er gert ráð fyrir mörgum slíkum rafvæddum bátum fyrst um sinn og því er ekki þörf á uppbyggingu í höfnum sérstaklega út af efni frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er talið að ákvæði frumvarpsins muni hafa fjárhagsáhrif á ríkissjóð verði það að lögum. Það hvetur til orkuskipta í fiskveiðum og styður þar með markmið stjórnvalda um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040.
    Ekki er talið að ákvæði frumvarpsins hafi nein áhrif á stjórnsýslu ríkisins. Þær breytingar sem lagðar eru til munu falla undir stjórnsýslu Fiskistofu og rúmast innan fjárheimilda hennar. Framkvæmd skráningar á skipaskrá og eftirlit Samgöngustofu ætti að rúmast innan fjárheimilda stofnunarinnar en hún þarf að geta skráð rafvædda smábáta á skipaskrá og tryggt eftirlit með þeim.
    Fyrirhuguð lagasetning er ætluð til að jafna samkeppnisskilyrði þeirra fyrirtækja sem hún nær til, þ.e. vega á móti kostnaði sem hlýst af rafvæðingu smábáta.
    Ekki liggja fyrir kyngreind gögn um þá aðila sem stunda framangreindar veiðar en þó er vitað að karlmenn eru þar í miklum meiri hluta.
    Verði frumvarpið að lögum mun það hvetja enn frekar til nýsköpunar og rannsókna í rafvæðingu fiskiskipaflotans.
    Ekki er talið að ákvæði frumvarpsins hafi áhrif á stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að við 5. tölul. 6. mgr. 6. gr. a laganna bætist nýr málsliður um að á fiskiskipi verði heimilt að draga allt að 750 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, ef skipið er skráð sem rafknúið skip á skipaskrá, sbr. 5. gr. laganna, í stað 650 kg eins og mun gilda áfram fyrir hefðbundin fiskiskip á strandveiðum.