Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 715  —  1. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    Frumvarp þetta til fjárlaga ber merki þess að vera frumvarp hinnar íslensku yfirstéttar, frumvarp ríkasta hluta samfélagsins, ríkustu tekjutíundar samfélagsins. Halda á óbreyttri stefnu í þeirri vegferð sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með. Hin óskrifuðu meginmarkmið ríkisfjármála um að hrófla ekki við hagsmunum stórfyrirtækja og fjármagnseigenda, þrátt fyrir vaxandi ójöfnuð, fá áfram að ráða för.
    Áhrif heimsfaraldurs á ríkisfjármálin eru að mestu gengin yfir og dregið hefur stórlega úr atvinnuleysi auk þess sem ferðaþjónustan hefur tekið við sér. Við höfum átt því láni að fagna að hagvöxtur hefur verið umfram væntingar á þessu ári, en gert er ráð fyrir að dragi úr honum á því næsta, sem yrði þá 2–3%. Það segir sig sjálft að þegar stærsta einstaka atvinnugreinin liggur í lamasessi í tvö ár þá muni það að sjálfsögðu hafa töluverð áhrif á vöxt hagkerfisins þegar hún loks tekur við sé að nýju. Nú virðast þau áhrif vera komin fram að fullu og því má líta á það sem svo að hagvaxtartölur næsta árs gefi mun skýrari mynd af íslensku efnahagslífi. Að sama skapi gefur fjárlagafrumvarp næsta árs mun betur til kynna stöðu ríkisfjármála heldur en fjárlagafrumvörp síðustu þriggja ára.
    Staðan er sú að tekjur ríkissjóðs duga ekki til að reka heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, menntakerfið og ekki einu sinni vegakerfið. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki geta komið sér saman um hvaða stefnu skuli taka í mikilvægum málaflokkum og því er fjármálaráðherra falið óskorað vald til þess að viðhalda undirfjármögnun velferðarkerfisins um ókomna tíð.
    Þrátt fyrir lítið atvinnuleysi og ágætis hagvöxt finnst varla sá maður sem mundi lýsa efnahagsástandinu um þessar mundir sem góðæri. Húsnæðisverð hefur margfaldast undanfarin ár og verðbólga mælist í dag rúm 9,3%. Þá hefur stríðið í Úkraínu haft áhrif á framleiðslu og dreifingu ýmissa nauðsynjavara með tilheyrandi áhrifum á verðlag á nauðsynjum. Við megum þakka fyrir okkar grænu orku, en finnum engu að síður fyrir verðhækkunum á eldsneyti og matvöru. Þá bitnar verðbólgan ávallt verst á þeim efnaminni. Tekjur þeirra rýrna að verðgildi og ekkert svigrúm er til staðar til að minnka útgjöld, þar sem þau fara nánast eingöngu í nauðsynjar, þ.e. fæði, klæði og húsnæði.
    Ríkisstjórnin hefur ekki kynnt neinar markvissar aðgerðir til að vinna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar og virðist ætla að halda að sér höndum í þeim efnum þar til kjarasamningaviðræður eru lengra komnar.
    Eitt sinn voru einkennisorð Sjálfstæðisflokksins „Stétt með stétt“. Nú er öldin önnur. Undanfarinn áratug hefur Sjálfstæðisflokkurinn nær óslitið stjórnað fjármálaráðuneytinu. Á sama tíma hefur stéttaskipting á Íslandi aukist til muna. Stétt með stétt hefur vikið fyrir úreltum gjaldþrota amerískum kenningum um laissez-faire í efnahagsmálum þar sem hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Mikil kjaragliðnun hefur átt sér stað milli launafólks og fjármagnseigenda frá árinu 2011. Fjármagnstekjur hafa aukist um 120% að raunvirði á tíu árum en atvinnutekjur um 53%. Kaupmáttur meðaltals fjármagnstekna hefur aukist um 85% á sama tíma en um 31% í tilfelli meðaltals atvinnutekna. Kaupmáttur meðaltals fjármagnstekna hefur aukist um 85% frá 2011 en um 31% í tilfelli meðaltals atvinnutekna.
    Húsnæðisverð hefur hækkað svo mikið að heil kynslóð er að festast á leigumarkaði og mun að óbreyttu aldrei geta keypt eigið húsnæði. Einu sinni var stjórnmálaflokkur á Íslandi sem lagði áherslu á séreignarstefnuna og að fólk ætti að eiga kost á að eiga sitt eigið húsnæði. Nú er öldin önnur.
    Stéttaskipting er að aukast aftur. Það er að gerast hjá yngri kynslóðinni sem og gagnvart fátækasta hluta samfélagsins, öryrkjum og öldruðum sem treysta á almannatryggingar sér til lífsviðurværis. Börn sem fá aðstoð foreldra sinna við kaup á fasteign fá í kjölfarið að njóta þeirrar eignamyndunar sem fylgir þegar fasteignaverð hækkar. Jafnaldrar þeirra sem eiga ekki eins sterkt bakland festast á leigumarkaði og ná jafnvel aldrei að safna sér fyrir útborgun. Það getur munað tugum milljóna króna í eignamyndun milli jafnaldra eftir því hvor fær foreldralán fyrir útborgun. Réttur sérhvers foreldris er að styðja við börnin sín. Við viljum hins vegar ekki að ungt fólk sem ekki á foreldra með fjárhagslegt bakland til að styðja börn sín til íbúðarkaupa verði útilokað frá því að eignast eigin fasteign. Það eykur stéttaskiptingu og eignaskiptingu.
    Öryrkjar og eldri borgarar horfa upp á tugprósenta kjaragliðnun sem vex ár frá ári vegna þess að lífeyrir almannatrygginga heldur ekki í við launaþróun líkt og lög kveða á um. Hér er verið að tala um hina margumtöluðu 69. gr. almannatryggingalaga.
    Öryrkjar eru múraðir inn í rammgerða fátæktargildru sem þeim er gert ómögulegt að brjótast úr. Þeir eiga enga möguleika á að líta glaðan dag og tryggja sér og sínum fæði, klæði og húsnæði. Ef þeirra hagur vænkast þá tekur ríkið hann nær allan til baka í formi skerðinga og keðjuverkandi skerðinga.
    Öryrkjabandalagið þarf reglulega að standa að dómsmálum til að standa vörð um hagsmuni öryrkja. Það er í raun orðinn viðvarandi hluti af starfsemi samtakanna vegna þess hversu gjarnan ríkið fer á svig við eigin lög í framkomu sinni gagnvart öryrkjum.
    Ríkisstjórnin hefur svo sannarlega ekki tekið utan um fátækt fólk. Öðru máli gegnir um yfirstéttina. Ríkisstjórnin hefur gert það að forgangsverkefni að greiða götu þeirra sem nóg hafa á milli handanna. Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili var að lækka veiðigjöldin. Ríkisstjórnin réttlætti lækkun bankaskattsins með vísan til heimsfaraldurs kórónuveiru. Þjóðin var með því af tugum milljarða króna sem hefðu ella farið í ríkissjóð, sameiginlegan sjóð landsmanna.
    Fjármálaráðherra hefur tvívegis selt hluti ríkisins í Íslandsbanka hf. á undirverði, fyrst með almennu útboði og nú síðast með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi þar sem ákveðnir aðilar gátu skráð sig sem „hæfa fjárfesta“ með lítilli fyrirhöfn, keypt bréf á afslætti og selt þau um hæl með miklum hagnaði. Við söluna réð íslenska klíkufúsksamfélagið enn eina ferðina ríkjum og það í allri sinni dýrð. Fyrir 40 árum hélt Vilmundur Gylfason þingræðu um valdakerfið í landinu sem brást fólkinu í landinu. Eignatilfærsla þess tíma var vegna heimatilbúinnar kreppu hins ónýta stjórnkerfis. Nú er það vegna fúsksölunnar á Íslandsbanka. Salan á Íslandsbanka í vor bendir ekki til þess að orðið hafi breytingar. Sama má segja um mál ÍL-sjóðs og nú síðast mál lífeyrisaukasjóðs LSR. Þetta eru dæmi um mál sem bera vitni um grátlegt fúsk og vanhæfni stjórnkerfisins sem kostar ríkissjóð og almenning tugi og jafnvel hundruð milljarða króna.

Almannatryggingar.
    Í 69. gr. laga um almannatryggingar segir að greiðslur almannatrygginga skuli taka árlegum breytingum til samræmis við launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag. Undanfarinn áratug og lengur hafa stjórnvöld virt 69. gr. laganna að vettugi. Ef litið er til baka má sjá að munurinn á þróun launavísitölu og þróun fjárhæða almannatrygginga er tugir prósenta. Þetta er sú kjaragliðnun sem Flokkur fólksins hefur barist gegn allt frá stofnun.
    Í frumvarpinu var upphaflega lagt til að hækka fjárhæðir almannatrygginga milli ára um 6%. Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins er tekið mið af verðbólguspá upp á 7,5% í ár og 4,9% á næsta ári. Frá því að frumvarpið var lagt fram hefur ekki dregið úr verðbólgu og nú er spáð rúmlega 8% verðbólgu í ár og 6% verðbólgu á næsta ári. Útlit er því fyrir að verðlag hækki umtalsvert meira en samkvæmt upphaflegri spá. Af þessum sökum leggur ríkisstjórnin til 7,4% hækkun fjárhæða almannatrygginga í stað 6%.
    Öryrkjabandalagið hefur kallað eftir því að hækkunin verði 10% milli ára og bendir á að Örorkulífeyrir er nú langt undir lágmarkslaunum og lægri en atvinnuleysisbætur. Það er með öllu ólíðandi að nær helmingur örorkulífeyrisþega sé með lægri tekjur en sem nemi lágmarkslaunum. Í umsögn sinni við frumvarpið bendir Landssamband eldri borgara á að til þess að hafa sambærilegan kaupmátt og fyrir Covid þyrfti ellilífeyrir að hækka um 20–40 þús. kr. á mánuði. Samfélagið á ekki að dæma öryrkja og eldri borgara í fátækt. Það eiga allir rétt til mannsæmandi lífs í íslensku samfélagi.
    Frítekjumörkin eru fryst ár frá ári með framlengingu bráðabirgðaákvæða almannatryggingalaga og laga um félagslega aðstoð. Það hefur þær afleiðingar að tekjur öryrkja og eldri borgara skerðast alltaf meira og meira. Flokkur fólksins hefur lengi barist gegn vaxandi kjaragliðnun og fyrir því að dregið verði úr tekjuskerðingum í almannatryggingakerfinu.
    Um síðustu áramót samþykkti Alþingi að hækka frítekjumark ellilífeyris vegna atvinnutekna úr 100.000 kr. á mánuði í 200.000 kr. Við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga ársins í ár lagði Flokkur fólksins, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, til hækkun á frítekjumarki örorku vegna atvinnutekna í 200.000 kr. á mánuði, enda hníga sömu rök í átt að slíkri breytingu og leiddu til hækkun á frítekjumarki eldri borgara. Ríkisstjórnarflokkarnir höfnuðu því miður tillögunni. Nú, ári seinna, ætla ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir að leggja til sömu hækkun frítekjumarks örorku. Það sýnir alla framsýni og frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Fagna ber hækkun frítekjumarks sem hefur staðið í stað í fjórtán ár. Það vekur jafnframt furðu að ríkisstjórnin hafi fyrir ári síðan greitt atkvæði gegn samhljóða breytingartillögu stjórnarandstöðunnar.
    Eftir stendur sú staðreynd að atvinnutekjur öryrkja munu áfram skerðast frá fyrstu krónu. Það er vegna þess að frítekjumark atvinnutekna gildir ekki um framfærsluuppbótina, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Þeir öryrkjar sem hafa framfærsluuppbót og reyna fyrir sér á vinnumarkaði verða því áfram fyrir skerðingu sem nemur 65% af atvinnutekjum þeirra, þar til framfærsluuppbótin hefur verið skert að fullu. Öryrkjabandalagið kallar eftir því í umsögn sinni að komið verði í veg fyrir skerðingar frá fyrstu krónu. Flokkur fólksins tekur undir það, enda fráleitt að skerðingarnar bitni hvað mest á þeim sem reyna að komast inn á vinnumarkað. Þetta eru einmitt einstaklingarnir sem ríkið á að hvetja til frekari atvinnuþátttöku.

Mikilvæg málefni virt að vettugi.
    Oft er hægt að gera mikið fyrir lítið. Fjárlaganefnd hefur það viðfangsefni við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni að forgangsraða fjármunum þannig að þeir nýtist þegnunum og íslensku samfélagi sem best. Því miður er það svo að mikilvægir málaflokkar eru undirfjármagnaðir ár eftir ár.

SÁÁ.
    SÁÁ hefur í mörg ár kallað eftir auknum framlögum til að samtökin geti veitt þjónustu sem sannarlega er þörf á í baráttunni gegn fíknisjúkdómum. Hver einasti Íslendingur þekkir fjölmörg dæmi þess um hve skaðleg fíknin er og hve mikilvægt það er fyrir fíkla að geta leitað sér aðstoðar þegar þörfin er mest. Það er smánarblettur á íslensku samfélag að starfsemi SÁÁ sé undirfjármögnuð um hundruð milljóna króna.
    Í umsögn samtakanna kemur fram að inn í rekstrargrunninn vanti 450 millj. kr. á ári. Að óbreyttu muni fjárskorturinn leiða til skertrar þjónustu. Samtökin hafa sent frá sér neyðarkall. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert tillögu um tímabundið framlag að fjárhæð 120 millj. kr. til samtakanna. Með því er meiri hlutinn í raun að leggja til óbreyttan stuðning milli ára, þar sem í fyrra var einnig veitt tímabundið framlag að sömu fjárhæð, eða 120 millj. kr. Það er með öllu óboðlegt að halda framlögum sem þessum í gíslingu ár eftir ár og eyrnamerkja þau sem tímabundin framlög. Með réttu ætti að hækka rekstrarframlögin varanlega, og um miklu meira en 120 millj. kr. Baráttan gegn fíknisjúkdómum er barátta sem ríkið á að taka virkan þátt í, og fjármagna að fullu, enda er um að ræða sjálfsagða heilbrigðisþjónustu.

Leiðsöguhundar.
    Á síðasta kjörtímabili samþykkti Alþingi frumvarp Flokks fólksins um leiðsöguhunda. Ríkið ber því lagalega ábyrgð á að fjármagna innflutning og þjálfun leiðsöguhunda. Upphaflega var 10 millj. kr. ráðstafað til verkefnisins, en fjárhæðin rétt svo nægir til að greiða laun fyrir þjálfara leiðsöguhunda. Lögin tryggðu einnig rétt notenda til að ferðast á milli landa með leiðsöguhundi án þess að bera sérstakan kostnað vegna þess. Í framkvæmd hefur sá þáttur laganna verði virtur að vettugi og er það miður. Í umsögn Blindrafélagsins um frumvarpið kallar félagið eftir auknum fjármunum til að hægt sé að framfylgja nýju lögunum.
    Blindrafélagið bendir á í umsögn sinni að fjármagn vanti til að úthluta nýrri tegund hjálpartækja, svokölluðum stækkunartækjum. Hvert tæki kostar allt að 1 millj. kr. en tækin eru bylting í lífi sjónskertra. Talið er að tækin muni nýtast um 150 manns sem ekki gátu nýtt sér eldri tegundir hjálpartækja. Blindrafélagið bendir einnig á að Sjónstöðin, sem fer með málaflokkinn, sé verulega vanfjármögnuð og að uppsafnaður halli á rekstri stofnunarinnar sé orðinn 40 millj. kr. Það er nauðsynlegt að Alþingi taki utan um þennan mikilvæga málaflokk og fjármagni hann með viðhlítandi hætti.

Vannýttir tekjustofnar.
Veiðigjaldið.
    Ísland er land mikilla auðlinda. Sjávarauðlindin hefur tryggt okkur lífsviðurværi síðustu þúsund árin, og síðustu hundrað árin hefur hún fært okkur frá því að vera fátækasta ríki Evrópu í að vera eitt ríkasta samfélag heims. Í dag er staðan þannig að kvótakerfið hefur fært stórútgerðinni einkaafnot af sjávarauðlindinni. Að nafninu til á að greiða fyrir afnot sjávarauðlindarinnar, en tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldinu duga ekki einu sinni fyrir rekstri Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslunnar. Allt eru þetta mikilvægar stofnanir þegar kemur að nýtingu sjávarauðlindarinnar og öryggi úti á hafi. Það er með öllu óboðlegt að þjóðin fái ekki sanngjarnt endurgjald fyrir afnot af auðlindinni, þ.e. markaðsverð. Þjóðin hefur orðið af tugum milljarða króna á undanförnum árum vegna þess að gjaldið er allt of lágt.

Bankaskattur.
    Á síðasta kjörtímabili ákvað ríkisstjórnin að lækka bankaskattinn. Sú lækkun var rökstudd á þann veg að þannig mætti lækka vaxtakostnað heimilanna. Ekki verður séð að þau rök haldi. Fjármálafyrirtækin skila tuga milljarða króna hagnaði á ári hverju. Stóru viðskiptabankarnir þrír skiluðu hagnaði upp á 60 milljarða kr. á fyrstu níu mánuðum ársins. Ástæðan fyrir þessum ofurhagnaði bankanna er algjör skortur á samkeppni á bankamarkaði. Ríkið, eigandi Landsbanka og Íslandsbanka, virðist ekki hafa neina eigendastefnu þegar kemur að samkeppni á bankamarkaði. Að halda því fram að hærri bankaskattur leiði einungis til hærri vaxta er að halda því fram að samkeppni á íslenskum bankamarkaði sé engin og að íslenska ríkið, eigandi tveggja af þremur stærstu bönkum landsins, hafi engin áhrif á íslenskum bankamarkaði. Stefnuleysi eigandans er algert.

Nauðsynlegar breytingar.
    Þriðji minni hluti leggur til eftirfarandi breytingar við frumvarpið:
     1.      Felldar verði brott heimildir til sölu á eignarhlut ríkisins í Landsbanka, Íslandsbanka. og Sparisjóði Austurlands.
                 Lagt er til að fella brott frekari heimildir til sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka. Einnig er lagt til að fella brott heimild til að selja hlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands hf.
     2.      Bankaskattur.     Lagt er til að hækka bankaskattinn aftur í fyrra horf. Við það mundu tekjur ríkissjóðs hækka um 9 milljarða kr. á næsta ári.
     3.      Veiðigjald.
                 Lagt er til að hækka veiðigjaldið um 7 milljarða kr. til að tryggja þjóðinni sanngjarnt endurgjald fyrir afnot af sjávarauðlindinni.
     4.      Innlend kvikmyndagerð og RÚV.
                 Lagt er til að framlag til Ríkisútvarpsins (RÚV) lækki um 290 millj. kr. Þess í stað hækki framlög til kvikmyndasjóðs um sömu fjárhæð.
                 Vegna hækkunar útvarpsgjalds vegna verðlagsbreytinga um 7,7% milli ára mun framlag ríkisins til RÚV hækka um 290 millj. kr. milli ára.
                 Framlög til innlendrar kvikmyndagerðar eru á sama tíma lækkuð um rúmlega 400 millj. kr. Það er með öllu óboðlegt að Ríkisútvarpið skuli fá sjálfkrafa hækkun á ríkisframlögum þegar verðbólga er mikil.
                 Stuðningur við innlenda kvikmyndagerð er mikilvægur til eflingar á þessari mikilvægu listgrein og því er lagt til að sú hækkun sem ráðgert er að fari til RÚV renni í staðinn til kvikmyndasjóðs.
     5.      Almannatryggingar.
                 Lagt er til að fjárhæðir almannatrygginga hækki um 10% milli ára til að tryggja að kjör öryrkja og eldri borgara haldi í við launaþróun og verðlag. Kjaragliðnun almannatrygginga mælist í tugum prósenta og nú er kominn tími til að stíga skref í rétta átt. Einnig er lagt til framlag upp á 1 milljarð kr. til að draga úr skerðingu almannatrygginga frá fyrstu krónu.
     6.      SÁÁ.
                 Lögð er til 300 millj. kr. hækkun á framlögum til SÁÁ. Samtökin veita fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu en ríkið hefur ekki tryggt samtökunum viðhlítandi fjármagn.
     7.      Leiðsöguhundar og Sjónstöðin.
                 Lagt er til 80 millj. kr. framlag til Sjónstöðvarinnar (þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu) svo að fjármagna megi að fullu innflutning og þjálfun leiðsöguhunda og koma í veg fyrir að kostnaður falli á notendur vegna ferða ásamt leiðsöguhundi til og frá landi. Auk þess mun fjármagnið nýtast til að greiða fyrir nýja tegund hjálpartækja, svokallaðra stækkunartækja.
     8.      Góðgerðarfélög sem annast matarúthlutanir.
                 Lagt er til að styrkja góðgerðarfélög sem annast matarúthlutanir um 150 millj. kr. Á hverju einasta ári berast fregnir um fólk sem bíður í röðum eftir mat. Nú er staðan orðin sú að samtökin eiga ekki nóg fyrir alla sem þurfa á hjálp að halda. Ef við ætlum að teljast til siðmenntaðra þjóða hljótum við að geta styrkt þessa starfsemi svo enginn þurfi að líða hungur á Íslandi.

Alþingi, 6. desember 2022.

Eyjólfur Ármannsson.