Ferill 472. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 802  —  472. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um endurheimt votlendis á ríkisjörðum.


     1.      Á hversu mörgum ríkisjörðum er framræst votlendi?
    Upplýsingar um umfang framræslu og stærð og afmörkun jarða í eigu ríkisins voru teknar úr mismunandi landupplýsingaþekjum. Afmörkun jarða í eigu ríkisins er fengin frá nýjustu þekju ríkisjarða frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en ekki er gerður greinarmunur á jörðum í mismunandi notkun eða í umsjón mismunandi ríkisaðila. Framræst votlendi er metið út frá skurðakortlagningu Landbúnaðarháskólans og Landgræðslunnar frá árinu 2020.
    Af 429 ríkisjörðum er framræst votlendi innan 310 þeirra. Stærð svæðanna er frá því að vera 100 fermetrar í að vera 380 hektarar.

     2.      Hversu mikil er áætluð losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim ríkisjörðum?
    Til að meta losun gróðurhúsaloftegunda frá framræstu landi var notast við stuðla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) eins og gert er í losunarbókhaldi Íslands. Þetta er mikil einföldun á losun frá landi þar sem losunin er mjög breytileg eftir ástandi landsins á hverjum tíma.
    Samtals er þekja framræsts votlendis á jörðum í eigu ríkisins 18.030 hektarar (tún, annað ræktarland og úthagi). Miðað við þær forsendur sem gefnar eru er áætluð losun gróðurhúsalofttegunda frá þessu landi 351.585 tonn koldíoxíðsígilda á ári.

     3.      Hversu mikið votlendi (fjöldi hektara) væri hægt að endurheimta á þeim jörðum án þess að raska t.d. matvælaframleiðslu?
    Framræst votlendi er metið út frá skurðakortlagningu Landbúnaðarháskólans og Landgræðslunnar frá árinu 2020 en þar er áætlaður 200 metra jaðar framræsts svæðis út frá hverjum skurði og frádregið land sem hægt er að útiloka út frá gögnum þekjunnar, svo sem vegna halla, yfirborðs og vistgerðar. Til að meta land sem nýtt er til matvælaframleiðslu var dregin frá þekja túna í notkun (2017-2021) og annað ræktarland.
    Af 18.030 hekturum, sem er þekja framræsts votlendis á jörðum í eigu ríkisins, eru 12.750 hektarar sem eru hvorki skilgreindir sem tún (í notkun 2017-2021) né annað ræktarland.

     4.      Hversu mikið af framræstu votlendi í eigu ríkisins er búið að endurheimta og hvað stöðvaði það losun á mörgum tonnum af CO2-ígildum?
    Endurheimtir hafa verið 80 hektarar af framræstu votlendi á fimm jörðum í eigu ríkisins. Af þessum fimm jörðum voru þrjár jarðir í umsjón annarra aðila en Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna. Áætla má að við það hafi náðst að koma í veg fyrir losun á um 1560 tonnum koldíoxíðsígilda á ári. Áhugi og geta er til staðar til að fara í frekari endurheimt votlendis á jörðum í eigu ríkisins og á Landgræðslan í samtali við Framkvæmdasýsluna - Ríkiseignir um aðgang að fleiri jörðum í þessum tilgangi.

     5.      Hvað er búið að verja miklum upphæðum í að endurheimta votlendi á ríkisjörðum?
    Kostnaður við endurheimt votlendis er mjög breytilegur enda raskið (framræslan) á mjög misjöfnum skala. Til viðmiðunar hefur verið notast við meðalverð sem var í ár 264.000 kr. á hektara (kr./ha). Umsjón er innifalin í kostnaðartölunum en ekki kostnaður við úttektir, mælingar eða annar aukakostnaður.

     6.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að endurheimta votlendi á ríkisjörðum mun hraðar en nú er til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda?
    Hvað varðar lönd í eigu ríkisins þá fer fjármálaráðuneytið með umsjón þeirra. Fram kemur í eigendastefnu ríkisins vegna jarða, landa, lóða og auðlinda frá árinu 2019 að skoðaðir verði möguleikar á náttúruvernd og endurheimt vistkerfa, svo sem votlendis og náttúruskóga, í samstarfi við hlutaðeigandi stofnanir.
    Í nýútgefinni stefnu og aðgerðaáætlun matvælaráðherra um landgræðslu og skógrækt, Land og líf, er fjallað um endurheimt votlendis. Stefnt er á að endurheimtir verði minnst 5.300 hektarar af röskuðu votlendi fram til ársins 2026 og 15.600 hektarar til ársins 2031, eða í heildina um 6% af þegar röskuðu votlendi. 1 Þar kemur jafnframt fram að æskilegt er að fyrir liggi heildstæð áætlun um endurheimt votlendis á landi í eigu ríkisins í samræmi við eigendastefnu ríkisins vegna jarða, landa, lóða og auðlinda frá árinu 2019, m.a. með hliðsjón af aðgerð B.3 í áætlun stjórnvalda um verndun votlendis. Til stendur að vinna slíka áætlun í samstarfi við fjármálaráðuneytið og Ríkiseignir sem fara með umsjón ríkisjarða.

1     www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MAR/Fylgiskjol/Landoglif_Ad gerdaaaetlun2026%20-%20Copy%20(1).pdf