Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 819  —  429. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp um breytingu á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012 (aldursfriðun húsa og mannvirkja).

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á svokallaðri 100 ára reglu er varðar aldursfriðun húsa og mannvirkja. Breytingin felur í sér að í stað þess að hús og mannvirki sem eru 100 ára og eldri verði friðuð eigi friðun við um hús sem byggð voru árið 1923 eða fyrr. Mikil aukning varð í uppbyggingu á árunum sem á eftir komu. Því liggur ljóst fyrir að álag myndi aukast töluvert á stjórnsýsluna á næstu árum vegna mikils fjölda bygginga sem við myndu bætast, sem margar hverjar hafa ekki ríkt varðveislugildi að mati Minjastofnunar. Að þessu leyti fagnar 1. minni hluti breytingunni og tekur þar undir umsögn Minjastofnunar. Hins vegar verður að gera athugasemdir við seinagang ríkisstjórnarinnar við að bregðast við stöðunni með því að leggja fram frumvarp þegar svo skammur tími er til stefnu, þegar legið hefur fyrir frá því lögin tóku gildi 1. janúar 2013 að ótal hús yrðu að óbreyttu sjálfkrafa friðlýst árið 2023.
    Þá tekur 1. minni hluti undir umsögn Minjastofnunar um að við framlagðar breytingar skapist ósamræmi milli viðmiðunarfriðunartíma fornminja annars vegar og húsa hins vegar. Þetta getur skapað ýmis vandkvæði, svo sem að hús uppfylli ekki skilyrði friðunar á meðan fylgifé þess gerir það. Lagabreytingin skapar því meira flækjustig en hún leysir.
    Hefðu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar ekki verið mörkuð af þessum seinagangi hefði mátt vanda betur til verka og ráðast í heildarendurskoðun á lögum um menningarminjar í tæka tíð. 1. minni hluti leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til heildarendurskoðunar.

Alþingi, 14. desember 2022.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.