Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
2. uppprentun.

Þingskjal 834  —  581. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um hungursneyðina í Úkraínu (Holodomor).


Flm.: Diljá Mist Einarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Logi Einarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Hildur Sverrisdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Haraldur Benediktsson, Tómas A. Tómasson, Gísli Rafn Ólafsson, Birgir Þórarinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Jakob Frímann Magnússon, Arnar Þór Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kári Gautason, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland.


    Alþingi ályktar að lýsa yfir því að hungursneyðin í Úkraínu sem stóð yfir frá 1932 til 1933 hafi verið hópmorð.

Greinargerð.

    Hungursneyðin í Úkraínu (Holodomor), sem stóð yfir frá 1932 til 1933, var af völdum alræðisstjórnar Stalíns og dró milljónir Úkraínumanna til dauða. Rússar hafa þó alla tíð neitað því að um hópmorð (e. genocide) hafi verið að ræða.
    Árið 2013 skrifaði Ísland undir sameiginlega yfirlýsingu líkt þenkjandi ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að minnast þess að 80 ár væru liðin frá Holodomor. Yfirlýsingin var send aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ísland tók undir sams konar yfirlýsingu árið 2008 ásamt 31 öðru ríki, m.a. Norðurlöndunum, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Hópmorð var skilgreint sem sérstakur glæpur samkvæmt alþjóðalögum í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð frá 1949, en hann tók gildi árið 1951 og var fyrsti mannréttindasáttmálinn sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti. Ísland undirritaði hópmorðssáttmálann 14. maí 1949 og fullgilti hann 29. ágúst sama ár. Ísland hefur sömuleiðis lögfest refsiákvæði vegna alþjóðaglæpa með lögum um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði, nr. 144/2018. Hópmorð eru skilgreind sem verknaðir framdir í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki sem slíkum. Til slíkra verknaða teljast morð á einstaklingum úr viðkomandi hópi, veiting alvarlegra líkamlegra eða andlegra áverka, vísvitandi skerðing á lífsskilyrðum hópsins sem miðar að útrýmingu hans í heild eða að hluta, vísvitandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum eða flutningur barna með valdi úr hópnum til annars hóps.
    Fólk víðs vegar um Úkraínu varð fyrir miklum áhrifum af hungri og kúgun alræðisstjórnar Stalíns. Hungursneyðin var bein afleiðing þvingaðrar stefnu Sovétríkjanna um samyrkjubúskap, auk þess sem svelti var kerfisbundið beitt sem refsingu, m.a. ef bændur gátu ekki uppfyllt tilskilið afhendingarmagn. Svæðin sem urðu verst úti í þessum aðgerðum voru girt af til að koma í veg fyrir að hungraðir íbúar gætu flúið á milli svæða og til að koma í veg fyrir flutning matvæla til svæðanna. Markmið sovéskra stjórnvalda með sveltinu var enn fremur að bæla niður úkraínska þjóðarvitund. Úkraínumenn voru því vísvitandi sveltir í pólitískum tilgangi. Þessi þjóðarharmleikur Úkraínumanna varð milljónum manna að bana. Hungursneyðin uppfyllir því skilyrði til að vera skilgreind sem hópmorð.
    Með samþykkt þessarar tillögu til þingsályktunar myndu þingmenn bregðast við ákalli Úkraínu um að ríki heimsins lýsi því yfir að Holodomor hafi verið hópmorð, en fjölmörg ríki hafa brugðist við ákallinu. Þessi ríki eru nánar tiltekið Ástralía, Bandaríkin, Brasilía, Eistland, Ekvador, Georgía, Írland, Kanada, Kólumbía, Mexíkó, Moldóva, Lettland, Litáen, Paragvæ, Perú, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Tékkland, Ungverjaland, Vatíkanið og Þýskaland. Með þessu færi Holodomor á lista yfir þá ómannúðlegu alþjóðaglæpi alræðiskerfa sem útrýmdu milljónum mannslífa á fyrri hluta 20. aldar. Það er mat flutningsmanna að mikilvægt sé að senda skýr skilaboð um þessa hörmulegu atburði í mannkynssögunni og vekja á þeim athygli til að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig. Slík skilaboð um voðaverk fyrri tíma geta styrkt viðleitni alþjóðasamfélagsins til að tryggja framgang og vernd grundvallarmannréttinda og frelsis um allan heim.