Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 835  —  350. mál.
Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um gagnkvæma gildingu ökuskírteina.


     1.      Við hvaða lönd hefur Ísland gert samning um gagnkvæma gildingu ökuskírteina skv. 62. gr. umferðarlaga?
    Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. umferðarlaga setur ráðherra reglur um þau skilyrði sem þeir sem dveljast hér á landi og hafa íslenskt ökuskírteini þurfa að fullnægja til að mega stjórna vélknúnu ökutæki, þar með talið hvaða skilyrði handhafi erlends ökuskírteinis þarf að uppfylla til að fá íslenskt ökuskírteini. Í 2. mgr. sömu greinar er ráðherra veitt heimild til að ákveða að ökuskírteini gefið út í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gildi einnig eftir að handhafi þess hefur sest að hér á landi, samkvæmt nánari reglum. Með sama hætti getur ráðherra ákveðið að ökuskírteini sem gefið er út í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gildi hér á landi, enda séu íslensk ökuskírteini jafnframt tekin gild í því ríki.
    Nánari reglur um erlend ökuskírteini er að finna í reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar veitir ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða í Færeyjum handhafanum almennt rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi og það heimilar að stjórna í útgáfulandinu á gildistíma þess, þó ekki lengur en til 70 ára aldurs. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar veitir ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, svo og ökuskírteini sem gefið er út á grundvelli slíks ökuskírteinis, handhafanum rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi og það heimilar að stjórna í útgáfulandinu í allt að einn mánuð eftir að skilyrðum um fasta búsetu er fullnægt, þó ekki til vöruflutninga eða farþegaflutninga í atvinnuskyni auk þess sem krafa er gerð um að viðkomandi uppfylli aldursskilyrði reglugerðar nr. 830/2011.
    Víðtækasti samningur um gagnkvæma viðurkenninga ökuskírteina sem Ísland er aðili að er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningurinn. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/126/EB, um ökuskírteini, er hluti EES-samningsins. Á grundvelli tilskipunarinnar viðurkenna öll ríki á evrópska efnahagssvæðinu ökuskírteini sem gefin eru út í öðrum ríkjum þess. Auk þess er heimild til að skipta út ökuskírteinum sem gefin eru út í einu aðildarríki fyrir nýtt skírteini sem gefið er út í öðru aðildarríki, hafi handhafi þess tekið sér fasta búsetu í því ríki. Á Íslandi hafa ökuskírteini sem gefin eru út í ríkjum Evrópusambandsins og í EFTA-ríkjunum því sama gildi og væru þau gefin út hér á landi. Þá gilda íslensk ökuskírteini með sama hætti í framangreindum ríkjum.
    Hoyvíkursamningnum er ætlað að mynda eitt efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Mismunun á grundvelli ríkisfangs, staðfestustaðar eða upprunastaðar vöru er bönnuð innan efnislegs gildissviðs samningsins. Með samningnum er m.a. kveðið á um að samningsaðilar skuli viðurkenna sambærileg prófskírteini og annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem fenginn er á yfirráðasvæði hins eins og þau hefðu verið gefin út á hans eigin yfirráðasvæði. Í samningnum er ekki minnst berum orðum á ökuréttindi eða ökuskírteini en á grundvelli hans viðurkenna ríkin ökuskírteini sem gefin eru út af stjórnvöldum hvort annars.
    Ísland hefur gert samning við Sameinuðu arabísku furstadæmin um gagnkvæma viðurkenningu ökuskírteina og að hvort ríki afhendi gilt skírteini í skiptum fyrir gilt skírteini hins án þess að krafa sé gerð um próftöku. Unnið er að breytingum á reglugerð til að tryggja það.
    Loks hafa handhafar ökuskírteina sem gefin eru út í Japan og búsettir eru hér á landi ekki þurft að standast ökupróf til að fá japönsku ökuskírteini skipt út fyrir íslenskt skírteini frá árinu 2008.

     2.      Á að semja um gagnkvæma gildingu ökuskírteina við fleiri lönd? Ef svo er, hvaða lönd?
    Þessa dagana er unnið að gerð samkomulags við Bretland um gagnkvæma viðurkenningu og útskipti ökuskírteina. Þá var nýlega hafin vinna við gerð samkomulags við Indland um gagnkvæma viðurkenningu og útskipti ökuskírteina.