Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 879  —  2. mál.
3. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið á milli 2. og 3. umræðu. Við umfjöllun málsins bárust nefndinni minnisblöð frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Í minnisblöðum ráðuneytisins eru raktar tillögur stjórnvalda til nefndarinnar að breytingum til að styðja við markmið kjarasamninga á almennum vinnumarkaði um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun verðbólgu og vaxta auk þess sem rakið er samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk. Lagðar eru til breytingar á vaxta- og barnabótakerfinu sem markvisst miða að því að styðja við lífskjör lág- og millitekjufólks. Þá eru lagðar til breytingar til hækkunar á hámarksútsvari sveitarfélaga auk samsvarandi lækkunar á tekjuskatti svo að sveitarfélög geti betur staðið undir kostnaðarþróun málaflokks fatlaðs fólks.

Barnabætur.
    Barnabætur eru tekjutengdar bætur sem greiddar eru með börnum yngri en 18 ára. Fjárhæð þeirra ræðst af fjölda og aldri barna á heimili, hjúskaparstöðu foreldra og tekna þeirra. Meginmarkmið barnabóta er að vinna gegn fátækt barna. Með breytingartillögunni er lagt til að fleiri fjölskyldur njóti stuðnings og að dregið verði úr skerðingum barnabóta. Lögð er til einföldun á barnabótakerfinu sem ætlað er að auka gagnsæi þess og mæta breytingum á stöðu foreldra og ábyrgð á umönnun og uppeldi barna. Lagt er til að ein fjárhæð tekjutengdra barnabóta verði greidd með hverju barni en í núgildandi kerfi eru bætur með fyrsta barni lægri en með hverju barni umfram eitt. Þannig mun sama fjárhæð fylgja öllum börnum, að gefinni fjölskyldustöðu foreldra, en sé ekki mismunandi milli frumburðar og annarra barna líkt og nú er. Lagt er til að barnabætur einstæðra foreldra verði 440.000 kr. með hverju barni. Þá er lagt til að barnabætur foreldra í sambúð verði 295.000 kr. með hverju barni. Barnabætur sem greiddar eru með börnum yngri en sjö ára óháð hjúskaparstöðu fara úr 148.000 kr. í 138.000 kr.
    Þá eru lögð til ein skerðingarmörk tekna vegna barnabóta eftir hjúskaparstöðu. Fyrir einstæða foreldra verða skerðingarmörkin 4.750.000 kr. á ársgrundvelli. Fyrir foreldra í sambúð verða skerðingarmörkin 9.500.000 kr. á ársgrundvelli.
    Barnabætur skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn og er lagt til að á árinu 2023 verði skerðingarhlutföllin 4% með einu barni, 6% með tveimur börnum og 8% með þremur börnum eða fleiri og eru það óbreytt skerðingarhlutföll frá því sem telst til neðra skerðingarhlutfalls í gildandi ákvæði. Er því lagt til að efri skerðingarhlutföll falli brott. Núgildandi skerðingarhlutfall með börnum yngri en sjö ára helst óbreytt.
    Gert er ráð fyrir frekari breytingum á barnabótakerfinu árið 2024 og vísast að því leyti til minnisblaðs fjármála- og efnahagsráðuneytis, dags. 13. desember.

Vaxtabætur.
    Í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði XLI í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, um eitt ár. Ákvæðið fjallar um vaxtabætur og er gert ráð fyrir því að framlenging þess komi til framkvæmda við ákvörðun á greiðslu vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2023. Fulltrúar minni hlutans lögðu til breytingartillögu við 2. umræðu málsins á þingskjali 801, 8. tölul. Með breytingartillögu fulltrúa minni hlutans, sem er í samræmi við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað, er lagt til að eignaskerðingarmörk áðurnefnds bráðabirgðaákvæðis verði hækkuð um 50%. Sú breytingartillaga var samþykkt við 2. umræðu um málið. Meiri hlutinn fagnar því að þær breytingar hafi þegar náð fram að ganga.

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 15. desember 2022, er fjallað um þróun á útgjöldum sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk og þess vanda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir vegna fjármögnunar þjónustunnar. Útgjaldavöxtur málaflokks fatlaðs fólks sé af þeirri stærðargráðu að hann kynni að raska meginmarkmiðum um þróun afkomu og skulda sem gert var samkomulag um í aðdraganda gildandi fjármálaáætlunar fyrir árin 2023–2027. Fram kemur að stjórnvöld hafi fallist á það með sveitarfélögum að gera breytingu á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk og flytja 5 ma. kr. frá ríki til sveitarfélaga til að bæta rekstrarafkomu sveitarfélaga og gera þeim betur kleift að standa við markmið sín um afkomu- og skuldaþróun og rekstur málaflokksins. Lagt er til að hámarksútsvar sveitarfélaga, sem nú er 14,52%, verði hækkað um 0,22% samhliða lækkun tekjuskatts um samsvarandi hlutfall í öllum skattþrepum einstaklinga. Gert er ráð fyrir að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvari aukist til jafns við hækkun hámarksútsvars. Með vísan til framangreinds og nánari umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins leggur meiri hlutinn til viðeigandi breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Gildistaka.
    Í a-lið 28. gr. frumvarpsins er lögð til álagning úrvinnslugjalda á gler-, málm- og viðarumbúðir, sbr. 31. gr. laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald, nr. 103/2021. Í nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, (þskj. 856) er lagt til að fresta gildistöku 1. og 19. gr. þess frumvarps til að gefa innflutningsaðilum svigrúm til að aðlaga sig að þeim breytingum sem þar er kveðið á um. Þar sem 19. gr. þess frumvarps leiðir af þeirri gjaldskyldu sem kveðið er á um í a-lið 28. gr. þessa frumvarps er nauðsynlegt að fresta einnig gildistöku ákvæðisins til 1. mars 2023. Með breytingunni er tryggt að álagning á nýja umbúðaflokka taki gildi samhliða nýju umbúðalíkani.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og lagðar eru fram á sérstöku þingskjali.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jóhann Páll Jóhannsson ritar undir álitið með fyrirvara um vandaða lagasetningu. Alþingi er að gera umfangsmiklar breytingar á barnabótakerfinu á innan við þremur sólarhringum án formlegs umsagnarferlis. Um er að ræða mikilvægt skref í rétta átt en sá tími sem nefndin hefur haft til að fjalla um breytingarnar er of knappur til að unnt hafi verið að greina fyllilega hver áhrifin verða.
    Ásthildur Lóa Þórsdóttir ritar undir álitið með fyrirvara vegna þess hve seint fram komin breytingartillagan er. Breytingartillagan hefur hlotið litla sem enga umfjöllun í nefndinni og engar forsendur eru til að meta afleiddar breytingar hennar til lengri tíma. Auk þess er alls ekki nógu langt gengið sérstaklega hvað varðar þjónustusamninga við fatlaða. Þó ber að fagna þeim skrefum sem stigin eru.

Alþingi, 16. desember 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Ásthildur Lóa Þórsdóttir,
með fyrirvara.
Diljá Mist Einarsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jóhann Páll Jóhannsson,
með fyrirvara.
Orri Páll Jóhannsson.