Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 885  —  365. mál.
Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur um stöðu fatlaðs fólks við loftslagsbreytingar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið gerð úttekt á stöðu fatlaðs fólks á Íslandi vegna loftslagsbreytinga?

    Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu hefur ekki verið gerð sérstök úttekt á stöðu fatlaðs fólks vegna loftslagsbreytinga hér á landi.
    Sjá má af vísindaskýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC), en einnig íslenskum vísindaskýrslum um loftslagsbreytingar, sem gerðar voru árin 2000, 2008 og 2018, að þekking er á því að viðkvæmir hópar séu sérstaklega útsettir fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Nú er í bígerð fjórða vísindaskýrslan hérlendis um áhrif loftslagsbreytinga og gert er ráð fyrir að hún komi út árið 2023.
    Árið 2021 var fyrsta stefna stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum, Í ljósi loftslagsvár, samþykkt. Stefnan byggir m.a. á hvítbók stjórnvalda og umræðuskýrslu Loftslagsráðs um sama efni. Í stefnunni er gert ráð fyrir aðgerðum, m.a. mati á áhrifum á viðkvæma hópa, þ.m.t. fatlað fólk.
    Benda má þessu til stuðnings á tvö grunngildi stefnunnar sem eru: Aðlögunaraðgerðir og að önnur vinna er snertir loftslagsvá byggi á ólíkum sviðsmyndum þar sem m.a. er tekið mið af verstu þróun og félagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, sérstaklega fyrir hópa fólks sem eru viðkvæmir fyrir (4) og tengslum loftslagsvár við félagslegt réttlæti og lýðheilsu (7).
    Í grunnmarkmiði 8 kemur auk þess fram áhersla á réttláta aðlögun: Vinna við aðlögun að loftslagsbreytingum sé fjármögnuð og aðgerðir stuðli að réttlátri aðlögun.
    Í stefnunni eru einnig tiltekin markmið sem gefa til kynna að sérstök áhersla verði lögð á viðkvæma hópa. Má þar nefna:
          Markmið á sviði lýðheilsu (K2): Litið sé til þarfa viðkvæmra hópa til að sporna gegn ójöfnuði í heilsu vegna loftslagsbreytinga.
          Markmið á sviði þjóðarhags, vinnumarkaðar og félagslegra innviða (L4): Áhrif á hópa sem eru viðkvæmir efnahagslega eða félagslega og þá sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir ákveðnum áhrifaþáttum loftslagsbreytinga, svo sem vegna náttúruhamfara, séu þekkt og félagsleg stuðningskerfi séu nægilega sterk til að mæta þeim.
          Markmið um samhæfingu vinnu (N5): Við gerð aðlögunaráætlana sé litið til þess hvort ákveðnir hópar fólks séu sérstaklega viðkvæmir fjárhags- eða félagslega fyrir röskun vistkerfa og samfélags vegna loftslagsbreytinga eða aðgerða vegna þeirra.
    Af ofangreindu má draga þá ályktun að stjórnvöld muni gæta þess að tekið verði tillit til viðkvæmra hópa í vinnu við aðlögun að loftslagsbreytingum, auk þess sem gerð verði sérstök úttekt á stöðu þeirra við þá vinnu.