Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 963  —  382. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).

Frá 4. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga er nú til umfjöllunar á Alþingi í fimmta sinn. Málið hefur tekið talsverðum breytingum frá því að þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði það fyrst fram. Breytingarnar hafa margar veikt frumvarpið og fyrir vikið er það ekki líklegt til að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með nema að takmörkuðu leyti. Frá því að málið var lagt fram síðast hefur til að mynda mikilvægasti hluti frumvarpsins verið fjarlægður, sá er varðar afgreiðslu hælisumsókna frá umsækjendum sem þegar hafa fengið hæli annars staðar.
    Framlagning málsins nú kemur í beinu framhaldi af lagasetningu við lok 152. löggjafarþings sem jók enn álag á hælisleitendakerfið á Íslandi. Þau lög sneru að samræmdri móttöku flóttafólks og ganga þau þannig gegn tilgangi frumvarpsins sem hér um ræðir.
    Útlendingalöggjöfin er ekki til þess fallin að taka á ófremdarástandi í málaflokknum, ástandi sem dómsmálaráðherra kallar réttilega „stjórnlaust“. Til þess þarf mun veigameiri endurskoðun laganna en birtist í því afmarkaða frumvarpi sem hér um ræðir. Frumvarpið er orðið mun áhrifaminna en að var stefnt. Aukinheldur hafa mál verið samþykkt og teknar ákvarðanir sem auka enn á vandann.
    Ríkislögreglustjóri sá nýverið ástæðu til að vara við því að innviðir réðu illa við þróun mála en ásókn í hæli á Íslandi er þegar orðin margfalt meiri en í nágrannalöndum sem þó eiga erfitt með að ráða við ásóknina. Að öllum líkindum er ásókn í hæli á Íslandi nú orðin hlutfallslega hin mesta í Evrópu. Það er afleiðing þeirrar stefnu sem rekin hefur verið hér á landi og fylgifiskur vaxandi erfiðleika stjórnkerfisins við að ná tökum á þróuninni. Jafnvel þegar umsækjendur hafa farið í gegnum hið þunglamalega kerfi og ítrekað fengið þá niðurstöðu að þeir eigi ekki rétt á hæli á Íslandi reynist erfitt að vísa fólki úr landi fari það ekki sjálfviljugt. Í mörgum tilvikum finnst fólkið ekki og þeir sem fluttir eru úr landi með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn snúa margir jafnharðan aftur og hefja ferlið upp á nýtt. Allt bendir því til þess að án umfangsmikilla breytinga muni vandinn aðeins aukast. Það mun gera íslenskum stjórnvöldum erfiðara fyrir að aðstoða sem flesta þeirra sem eru í mestri neyð og takast á við hinn alþjóðlega flóttamannavanda á skilvirkan og mannúðlegan hátt.
    Þótt ástandið kalli á heildarendurskoðun laga og skipulags til að halda utan um málaflokk sem nú er orðinn stjórnlaus mætti gera breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi til að auka áhrif þess. Þær breytingar sem þingið ætti að huga að eru eftirfarandi:
     *      Tryggja að hælisleitendum sem þegar hafa fengið hæli í öðru landi sé umsvifalaust vísað til þess lands.
     *      Tryggja að Dyflinnarreglugerðinni sé fylgt þannig að fólk byrji á að sækja um hæli í fyrsta örugga landinu sem það kemur til.
     *      Flýta málsmeðferð.
     *      Koma í veg fyrir að kærunefnd útlendingamála fari með hálfgert löggjafarvald með úrskurðum sem geta gjörbreytt afgreiðslu mála.
     *      Koma í veg fyrir að þeir sem fengið hafa synjun öðlist rétt á að hefja ferlið upp á nýtt eftir að hafa verið vísað úr landi.
    Fjórði minni hluti ítrekar að eftir að þetta frumvarp hefur verið samþykkt þurfa stjórnvöld að hafa hraðar hendur við heildarendurskoðun löggjafar um útlendingamál. Innviðir landsins, húsnæðismarkaður, þjónustukerfi hælisleitenda, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, löggæsla og margir fleiri grunnþættir ráða ekki við álagið eins og það er, hvað þá þegar það eykst enn í ljósi fyrrnefndra atriða. Það eykur á þörfina fyrir skjótvirka heildarendurskoðun að önnur norræn ríki hafa tekið upp eða eru að innleiða stefnu sem gengur þvert á stefnu íslenskra stjórnvalda. Á Norðurlöndum er nú leitast við að hindra að fólk mæti sjálft til landsins til að sækja þar um hæli. Hvatt er til þess að þeir sem hyggjast sækja um hæli í löndunum geri það utan lands.
    Verði stjórnleysi áfram ríkjandi á Íslandi meðan önnur norræn ríki gera ráðstafanir til að ná betri tökum á málaflokknum mun hlutfallsleg ásókn í hæli á Íslandi aukast en minnka annars staðar á Norðurlöndum. Því lengur sem stjórnleysi ríkir verður þeim mun erfiðara að takast á við það.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur 4. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 23. janúar 2023.

Bergþór Ólason.