Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1180  —  519. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá menningar- og viðskiptaráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.

    Við stofnun nýs ráðuneytis menningar og viðskipta skiptist starfsmannahópurinn á eftirfarandi hátt:
    Níu starfsmenn fluttust frá fyrrum mennta- og menningarmálaráðuneyti og 18 starfsmenn fluttust frá fyrrum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Auk þeirra starfsmanna sem fluttust með málaflokkum frá öðrum ráðuneytum fluttust 6,4 ómönnuð stöðugildi. Auk þess bættust fimm ný stöðugildi við hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna stofnunar nýs ráðuneytis. Á fyrsta starfsári ráðuneytisins hafa fimm starfsmenn ýmist hætt, flust til annarra ríkisaðila eða farið á eftirlaun. 17 starfsmenn hafa bæst við á síðastliðnu ári, til að manna ný stöðugildi og ómönnuð stöðugildi sem fluttust frá fyrri ráðuneytum.
    Af þeim 17 starfsmönnum sem hafa bæst við á síðastliðnu ári voru tveir skipaðir í embætti, annar með flutningi á milli embætta og hinn í kjölfar auglýsingar. Þrír starfsmenn fluttust yfir frá öðrum ríkisaðilum. Sex starfsmenn voru ráðnir inn á grundvelli auglýsingar. Sex starfsmenn hafa verið ráðnir inn tímabundið.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Níu stöður hafa verið auglýstar frá stofnun menningar- og viðskiptaráðuneytisins þann 1. febrúar 2022. Þar af hafa tvö embætti verið auglýst og sjö ráðningar sérfræðinga. Tvær af þessum auglýsingum eru enn í ráðningarferli.

     3.      Hver er fjöldi stöðugilda á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytis samanborið við fjölda stöðugilda sömu málefnasviða í viðeigandi ráðuneytum í nóvember 2017?
    Fjöldi stöðugilda á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins hefur haldist nokkuð óbreyttur frá því í fyrri ráðuneytum. Helsta aukningin á stöðugildum hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu felst í stöðugildum ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra nýrrar skrifstofu, upplýsingafulltrúa, skjalastjóra og ritara ráðuneytisstjóra.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá menningar- og viðskiptaráðuneyti á kjörtímabilinu?
    Í nýju ráðuneyti eru fimm ný störf, sem voru fjármögnuð með þeirri viðbótarfjárveitingu sem ráðuneytið fékk við uppskiptingu ráðuneytanna. Enn sem komið er er ekki áætlað að það verði frekari fjölgun starfsfólks hjá menningar- og viðskiptaráðuneyti.