Ferill 778. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1181  —  778. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi.


Flm.: Þórarinn Ingi Pétursson, Stefán Vagn Stefánsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen.


    Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samráði við matvælaráðherra og innviðaráðherra, að vinna skýrslu með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi.
    Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum skýrslunnar eigi síðar en 1. nóvember 2023.

Greinargerð.

    Síðustu ár hefur skortur á dýralæknum hér á landi verið mikið til umræðu. Tengist það sérstaklega þeirri miklu umræðu sem hefur átt sér stað um fæðuöryggi þjóðarinnar. Skortur á dýralæknum getur m.a. haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir aðgengi bænda og almennings að dýralæknaþjónustu sem gætu haft alvarleg og óafturkræf áhrif á heilsu og velferð dýra, auk fjárhagslegs tjóns fyrir bændur.
    Í 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, er að finna heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er ætluð til þess að gefa ráðherra tækifæri til þess að bregðast við ástandi þar sem skortur er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur á fólki með tiltekna menntun með því að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til þess að sækja sér téða menntun, eða til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Til þess að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þurfa að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi skort í ákveðinni starfsstétt eða að hann sé fyrirsjáanlegur. Þar með er gert ráð fyrir að unnin verði skýrsla af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda sem byggi m.a. á fyrrgreindum upplýsingum. Tilgangur skýrslunnar væri að varpa ljósi á aðstæður og greina þörf á viðbrögðum við skorti eða fyrirsjáanlegum skorti á dýralæknum.
    Þá er í 28. gr. sömu laga að finna heimild til ráðherra að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsettir eru á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Tilgangur heimildarinnar er af sama meiði og áður hefur verið rakinn, þ.e. að gefa ráðherra tækifæri til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á sérmenntuðu fólki á ákveðnum svæðum. Rekja má fyrirmyndina til Noregs þar sem kennarar sem starfa í hinum dreifðari byggðum, Finnmörk eða Norður-Tromsfylki, eiga möguleika á að fá afskrifaðan hluta af námslánum sínum ef þeir starfa sem kennarar í 50% starfi samfellt í a.m.k. tólf mánuði. Til þess að ráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum um þörf á menntuðu fólki í viðkomandi byggð. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að skýrsla verði unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Markmið og efni tillögunnar snýr að því að gerð verði skýrsla um þau áhrif sem skortur á dýralæknum mun hafa á íslenskan landbúnað og atvinnuhætti í íslenskum landbúnaði á komandi árum. Þá er markmiðið jafnframt að varpa ljósi á aðstæður í hinum dreifðari byggðum þar sem skortur er á dýralæknum og stór eftirlitssvæði eru á höndum fárra. Full þörf er á að löggjafinn gæti þess að ívilnandi aðgerðir stjórnvalda nýtist öllum á grundvelli sjónarmiða um jafnræði og að þær taki mið af byggða- og atvinnustefnu úti um allt land.