Ferill 686. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1216  —  686. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Hildi Sverrisdóttur um almenningssamgöngur til Keflavíkurflugvallar.


     1.      Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja góðar almenningssamgöngur frá höfuðborginni til Keflavíkurflugvallar?
    Starfshópur ráðherra um bættar og umhverfisvænar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins er að hefja störf. Verkefni hans er að greina leiðir til að bæta almenningssamgöngur á þessari leið með umhverfisvænum hætti og leggja fram tillögur til úrbóta. Horft verður m.a. til leiðakerfis, þjónustustigs, verðskrár, staðsetningar og umgjörðar biðstöðva og kolefnisfótspors. Hópurinn mun setja fram tillögu að aðgerðaáætlun um úrbætur á næstu þremur árum en jafnframt verður horft til þess að ná umbótum á þjónustunni næsta sumar.
    Í hópnum eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Isavia, Strætó bs., Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum og Kadeco. Niðurstöður og tillögur að úrbótum fyrir næsta sumar eiga að liggja fyrir í apríl 2023. Tillögur til lengri tíma munu liggja fyrir í september 2023.

     2.      Er eitthvað í lögum, samningum við Isavia eða útboðsgögnum Isavia til verkkaupa sem stendur í vegi fyrir því að Strætó geti haft biðstöð nærri aðalinn- og útgöngum flugstöðvarinnar og auglýst þjónustu sína innan flugstöðvarinnar?
    Hvorki eru í lögum né samningum ríkisins við Isavia ákvæði sem standa í vegi fyrir að gerðar séu úrbætur á þjónustu almenningssamgangna. Þá verður ekki séð að samningar Isavia við rekstraraðila hópbifreiða geti staðið í vegi fyrir slíkum úrbótum.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að bæta aðgengi strætisvagna að Keflavíkurflugvelli svo að almenningssamgöngur verði raunhæfari ferðamáti fyrir þá sem eiga erindi á flugvöllinn?
    Það er mikilvægt að almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins verði bættar sem fyrst. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er hafin vinna að frumkvæði ráðuneytisins við að kortleggja leiðir að því marki sem skila eiga árangri strax næsta sumar.

     4.      Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að Vegagerðin eigi viðræður við Isavia um að koma upp strætisvagnastoppistöð almenningssamgangna nær flugstöðvarbyggingunni og ef svo er:
                  a.      hverju hafa þær viðræður skilað,
                  b.      hefur komið til greina að kaupa/leigja stæði nær flugstöðvarbyggingunni?

    Eins og fram kemur hér að framan er hafin vinna við að kortleggja hvernig almenningssamgöngur verði bættar milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Færsla biðstöðvar almenningsvagna nær flugstöðvarbyggingunni er tvímælalaust eitt þeirra atriða sem þar verða skoðuð.