Ferill 796. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 1217  —  796. mál.
Málsnúmer.




Beiðni um skýrslu


frá heilbrigðisráðherra um viðhorf heilbrigðisstarfsfólks, sjúklinga og almennings til dánaraðstoðar.

Frá Bryndísi Haraldsdóttur, Diljá Mist Einarsdóttur, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Hildi Sverrisdóttur, Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, Orra Páli Jóhannssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um viðhorf einstakra hópa til dánaraðstoðar.
    Í skýrslunni verði fjallað um:
          viðhorf lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til dánaraðstoðar,
          viðhorf sjúklingahópa til dánaraðstoðar,
          viðhorf almennings til dánaraðstoðar.
    Einnig verði skoðað hvort og hvernig dánaraðstoð rúmist innan gildandi löggjafar og hvaða lagabreytingar þyrfti að gera til að unnt væri að veita dánaraðstoð.

Greinargerð.

    Á síðustu árum hefur reglulega komið upp umræða í íslensku samfélagi um dánaraðstoð sem varðar álitaefni eins og siðferði, lífsskoðanir og réttindi fólks. Skýrslubeiðendur telja mikilvægt að auka umræðu, fræðslu og þekkingu á málinu. Þeir telja nauðsynlegt að kanna afstöðu heilbrigðisstarfsfólks, sjúklinga og almennings til málsins með viðhorfskönnun sem unnin verði á hlutlausan hátt til að niðurstöður varpi sem bestu ljósi á viðhorf til þessa viðkvæma máls.
    Umgjörð um dánaraðstoð er mismunandi eftir löndum. Þar sem dánaraðstoð er leyfð er stuðst við þrjár meginaðferðir: í fyrsta lagi aðferð þar sem læknir gefur sjúklingi lyf í æð, í öðru lagi aðferð þar sem sjúklingur innbyrðir sjálfur lyf sem læknir útvegar og í þriðju lagi aðferð þar sem læknir skrifar upp á lyf sem sjúklingurinn sækir í apótek og innbyrðir sjálfur. Við vinnslu skýrslunnar er nauðsynlegt að spyrja almennt um afstöðu þátttakenda til dánaraðstoðar en einnig að kanna hug þeirra til þessara þriggja aðferða.
    Í skýrslu heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð frá 2020 (þskj. 2038, 486. mál), sem gerð var að beiðni fyrsta flutningsmanns þessarar beiðni, kemur fram að viðhorfskannanir hafi verið gerðar hér á landi á afstöðu lækna og hjúkrunarfræðinga til siðfræðilegra álitamála um takmörkun meðferðar við lífslok. Niðurstöður einnar slíkrar könnunar var birt í Læknablaðinu árið 1997 og var ein af spurningunum um afstöðu til dánaraðstoðar og töldu þá aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga líknardráp, nú dánaraðstoð, réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk. Árið 2010 var sambærileg könnun gerð á meðal lækna og hjúkrunarfræðinga og var niðurstaðan þá sú að líknardráp, nú dánaraðstoð, þótti réttlætanlegt hjá 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk.
    Í viðhorfskönnun sem framkvæmd var árið 2021 af Brynhildi K. Ásgeirsdóttur og birt er í BS-ritgerð hennar kemur fram að grundvallarbreyting hafi orðið á afstöðu lækna og hjúkrunarfræðinga sem störfuðu á aðgerðar- og meðferðarsviðum Landspítalans til dánaraðstoðar þar sem 54% lækna og 71% hjúkrunarfræðinga höfðu jákvætt viðhorf. Flutningsmenn telja því ljóst, þó að um afmarkað úrtak sé að ræða, að grundvallarbreyting hafi orðið á afstöðu þessara starfshópa. Í könnuninni kemur fram að helstu rök þeirra fyrir auknum stuðningi við dánaraðstoð er virðing fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins.
    Sé litið til annarra Norðurlanda má greina af rannsóknum þar og fréttaflutningi að afstaða heilbrigðisstarfsfólks, lækna og hjúkrunarfræðinga, til dánaraðstoðar hafi færst sífellt meira í átt til frjálslyndis á síðustu 10 árum. Í Noregi var stuðningur lækna við dánaraðstoð 30% árið 2019 og hjúkrunarfræðinga 40%. Í Finnlandi var stuðningur lækna 46% árið 2013 og hjúkrunarfræðinga 74% árið 2016. Í könnun í Svíþjóð frá árinu 2021 var stuðningur lækna við dánaraðstoð 41%. Flutningsmenn telja því brýnt að fylgjast náið með þróun á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar hér á landi bæði viðhorf lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða en síðastnefndi hópurinn er gjarnan í nánara sambandi við sjúklinga en læknar og hjúkrunarfræðingar. Til að fá sem gleggsta mynd þyrfti að kanna viðhorf þessara hópa á Landspítala og heilbrigðisstofnunum um land allt, að meðtöldum elliheimilum og hjúkrunarheimilum.
    Með könnun á viðhorfi sjúklinga til dánaraðstoðar í skýrslubeiðninni er einkum átt við krabbameinssjúklinga, sjúklinga með taugasjúkdóma og hjarta- eða æðasjúkdóma. Skýrist það af því að á alþjóðavísu eru það þeir sjúklingahópar sem langoftast biðja um og þiggja dánaraðstoð.
    Skýrslubeiðendur telja að af framangreindu leiði augljós þörf á að framkvæma könnun á viðhorfi fyrrgreindra hópa til dánaraðstoðar í því skyni að endurskoða löggjöf í tengslum við málaflokkinn. Þá sé mikilvægt að kanna samhliða möguleika á því innleiða dánaraðstoð í gildandi löggjöf.