Ferill 802. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1231  —  802. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um sáttmála um laun kjörinna fulltrúa, starfsstétta grunninnviða og lágmarksframfærslu.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis og forsætisráðherra að gera samfélagslega sáttmála um laun kjörinna fulltrúa, starfsstétta grunninnviða samfélagsins og lágmarksframfærslu. Sáttmálarnir verði unnir af þjóðinni, fyrir kjörna fulltrúa og í samráði við starfsstéttir grunninnviða.
    Markmið sáttmála um lágmarksviðmið launa fyrir starfsstéttir grunninnviða verði að ná utan um verðmætamat samfélagsins á þeim mikilvægu störfum innan heilbrigðis-, mennta- og félagsþjónustukerfisins sem saman mynda samfélagslegt öryggisnet fyrir okkur öll.
    Sáttmáli um lágmarksframfærslu feli í sér lágmark þess sem fólk þarf til þess að geta haft ofan í sig og á. Sáttmáli um lágmarksframfærslu skal vera heildstætt samkomulag um viðmið sem lágmarksframfærsla skuli þróast samkvæmt. Til þess að tryggja sjálfstæði fólks sem býr við lágmarksframfærslu verði einnig gert ráð fyrir hæfilegri viðbót til að tryggja fólki sjálfstæði í eigin fjármálum.
    Sáttmáli um laun kjörinna fulltrúa kveði á um laun, skyldur og ábyrgð og miðist við álit þjóðarinnar á því hvaða kaup og kjör teljast sanngjörn fyrir þá almannaþjónustu sem kjörnir fulltrúar eru valdir til þess að sinna.
    Forseti Alþingis og forsætisráðherra leggi fram ítarlegar skýrslur um gerð og framkvæmd hvers sáttmála fyrir sig á hverju haustþingi. Í hverjum sáttmála fyrir sig verði fjallað um hvernig viðvarandi sátt er viðhaldið og hvernig kaup og kjör fólks á lágmarkslaunum, starfsstétta grunninnviða og kjörinna fulltrúa þróast ár frá ári.

Greinargerð.

    Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að gerðir verði þrír virkir sáttmálar um viðmið lágmarksframfærslu, lágmarksviðmið um kaup og kjör starfsstétta sem sinna grunninnviðum og laun kjörinna fulltrúa. Þessir sáttmálar eiga að vera virkir, í skilningi þess að þeir eiga að vera í stöðugri endurskoðun til þess að athuga hvort þau viðmið sem í gildi eru haldi gildi sínu á milli ára.
    Til þess að hægt sé að uppfylla lágmarksréttindi fólks þurfa að vera til viðmið um lágmarksframfærslu. Framfærsluviðmiðið getur verið mismunandi eftir aðstæðum fólks, t.d. aldri, staðsetningu og líkamlegri heilsu. Almennt séð þá á lágmarksframfærsla að ná til þess kostnaðar sem telst til nauðsynja ásamt svigrúmi til annarra útgjalda til þess að tryggja að fólk hafi sjálfstætt lágmarksval um eigið líf.
    Grunninnviðir heilbrigðiskerfis, menntakerfis og félagslegs kerfis eru akkeri velferðarsamfélags. Þær starfsstéttir sem sinna rekstri þessara velferðarkerfa mynda saman samfélagslegt öryggisnet okkar allra. Það skiptir öllu máli að verðleggja lágmarksviðmið þessara mikilvægu starfa. Það viðmið er einnig akkeri fyrir alla aðra launaþróun í landinu þar sem við þurfum að miða mikilvægi allra starfa við þau störf þeirra sem sinna grunninnviðum samfélagsins. Því er samfélagslega mjög mikilvægt að bæði þjóðin og starfsfólk þeirra starfsstétta sem reka grunninnviðina séu sátt við þau laun sem greidd eru fyrir þá þjónustu.
    Kaup og kjör kjörinna fulltrúa hafa mjög oft verið umfjöllunarefni og bitbein í samfélagsumræðunni. Laun kjörinna fulltrúa skipta þjóðina máli, þar sem það er þjóðin sem ræður fólk í þessi þjónustustörf. Rétt eins og það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn er það þjóðin sem ræður kjörna fulltrúa í vinnu og á að ákveða laun þeirra. Annað fyrirkomulag skapar jarðveg fyrir sjálftöku og ósætti. Því er nauðsynlegt að gerður verði sáttmáli um laun kjörinna fulltrúa og þann kostnað sem er tilfallandi vegna þeirra starfa, þ.e. launa og annarra greiðslna kjörinna fulltrúa úr ríkissjóði og fjármögnun stjórnmálasamtaka.

Þróun launa.
    Launavísitala hefur hækkað þónokkuð mikið á undanförnum árum umfram vísitölu neysluverðs. Í gögnum Hagstofunnar sést að launavísitalan er rúmlega sjöföld miðað við 1989 en vísitala neysluverðs hefur rétt tæplega sexfaldast á sama tíma.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Betur sundurliðaðar launaupplýsingar hjá Hagstofunni eru aðeins til frá árinu 2015 en þar kemur fram að launavísitala starfsmanna á almennum markaði hafi hækkað um 51% en launavísitala starfsmanna á opinberum markaði hafi hækkað um 59% og skýrist munurinn nær að öllu leyti af hækkunum starfsmanna hjá sveitarfélögum sem eru samt einnig á lægstu laununum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mynd úr skýrslu kjaratölfræðinefndar, júní 2022. 1

    Í skýrslu kjaratölfræðinefndar frá júní 2022 sést samanburður á launum og launadreifingu á milli almenna markaðarins, ríkis og sveitarfélaga. Þar kemur fram að meðaltal reglulegra launa er rétt rúmlega 700 þús. kr. Rétt tæplega 700 þús. kr. á almenna markaðnum. Vel rúmlega 700 þús. kr. hjá ríkinu og einungis rúmlega 600 þús. kr. hjá sveitarfélögum. Nánar er fjallað um sundurliðun innan almenna markaðarins, ríkisins og sveitarfélaga eftir stéttarfélögum í skýrslunni sem útskýrir muninn á milli þessara þriggja launagreiðenda betur.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     Mynd úr skýrslu kjaratölfræðinefndar, júní 2022. 2

Laun þingmanna og ráðherra.
    Í frétt 3 Kjarnans er vel farið yfir þróun launa þingmanna og ráðherra frá 2016: „Í byrjun sumars 2016 voru grunnlaun þingmanna á Íslandi 712 þúsund krónur á mánuði. Nú, sex árum síðar, eru þau 1.346 þúsund krónur á mánuði. Þau hafa því hækkað um 634 þúsund krónur á tímabilinu, eða um 89 prósent á tímabilinu.“
    89% hækkun samanborið við 51% hækkun á launavísitölu á almenna markaðnum á sama tímabili. Ráðherrar hafa á sama tíma hækkað um 77%. Laun kjörinna fulltrúa eiga samt einungis að hækka í takti við launaþróun hins opinbera. Munurinn þar á skýrist af mjög mikilli hækkun á launum kjörinna fulltrúa vegna ákvörðunar kjararáðs. En fram að því höfðu laun þingmanna og ráðherra lítið hækkað í þónokkur ár. Þar verður þó að benda á eilítið villandi framsetningu á launum þingmanna, sem hafa verið með bæði fastar kostnaðar- og akstursgreiðslur sem hafa ekki verið teknar með inn í launatöluna. Þær greiðslur voru lækkaðar þegar kjararáð hækkaði grunnlaun þingmanna.
    Með þessari þingsályktunartillögu er ætlast til þess að laun kjörinna fulltrúa verði endurskoðuð í heild sinni og eigi að ná til grunnlauna, kostnaðargreiðslna, búsetustyrkja, formannsstyrkja, álags vegna formennsku í nefndum og allra annarra hlunninda sem kjörnir fulltrúar búa við.

Lýðræðisleg sátt.
    Það er grundvallaratriði að þessir sáttmálar verði gerðir á vegum og forsendum samfélagsins. Þingsályktunartillögunni er beint að forseta Alþingis og forsætisráðherra sem skulu skapa vettvang þar sem hægt er að semja þessa sáttmála.
    Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu gera sér grein fyrir því að slíkir sáttmálar verða aldrei fullkomnir en markmið þeirra er að komast sem næst því. Endurskoðunarákvæðin eru til þess að geta fundið mögulega galla og gert betur.

1     www.ktn.is/_files/ugd/0497ac_8a399264e8d74979aa619fd0520bf3b4.pdf
2     Sama.
3     kjarninn.is/frettir/laun-radherra-hafa-haekkad-um-naestum-eina-milljon-a-manudi-fra-thvi-fyrir-sex-arum/