Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1310  —  566. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
    Í ráðuneytinu stendur yfir vinna við að kortleggja stofnanir ráðuneytisins, meðal annars í þeim tilgangi að sjá hvort hægt sé að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi þeirra.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Síðan skýrslan um stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021 kom út hefur menningar- og viðskiptaráðuneyti orðið til og er hluti af stofnunum sem heyrðu undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti kominn saman undir menningar- og viðskiptaráðuneyti. Því er vinna í ráðuneytinu við að kortleggja stofnanir ráðuneytisins.
    Síðastliðið haust var skipaður starfshópur undir forystu Þorgeirs Örlygssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, sem hefur það hlutverk að skoða leiðir til að skapa eftirliti samkeppnis- og neytendamála nýja stjórnsýslulega stöðu innan stofnanakerfis ríkisins. Starfshópurinn hefur til athugunar að sameina 3–4 einingar og verkefni í eina einingu. Skýrsla með niðurstöðum starfshópsins er væntanleg um miðjan mars. Verkefni starfshópsins er m.a. eitt af áhersluatriðum úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
    Stofnanir menningar- og viðskiptaráðuneytis eru 21 talsins.

     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?
    Stofnanir ráðuneytisins sem hafa færri en 50 starfsmenn eru 16 talsins.

     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?
    Vinna er hafin innan ráðuneytisins við að skoða möguleika á að fella störf ýmissa smærri eininga að stærri einingum/stofnunum. En sú vinna er á frumstigi og ekki er tímabært að fjalla ítarlega um þá vinnu. Það verkefni sem er komið lengst er starfshópur sem er að skoða leiðir til að skapa eftirliti samkeppnis- og neytendamála nýja stjórnsýslulega stöðu innan stofnanakerfis ríkisins, eins og kemur fram í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar.