Ferill 900. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1412  —  900. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um yfirlit með greiðslum til lífeyristaka Tryggingastofnunar ríkisins.


Flm.: Viðar Eggertsson, Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að breyta fyrirkomulagi þannig að í stað þess að greiðsluseðlar fylgi greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins til lífeyristaka fylgi yfirlit eins og um launaseðil sé að ræða. Ráðherra útfæri nauðsynlegar breytingar fyrir 1. september 2023.

Greinargerð.

    Með tillögunni er lagt til að í stað þess að greiðsluseðlar fylgi greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) til lífeyristaka þá fylgi yfirlit sem hefur sömu eiginleika og launaseðlar. Markmið tillögunnar er að gera greiðslukerfi TR gagnsærra og hagkvæmara fyrir bæði lífeyristaka og Tryggingastofnun ríkisins.
    Hér er um að ræða einfalda og ódýra breytingu en upplýsingar þær sem fram kæmu á slíku yfirliti eru þegar fyrir hendi hjá TR. Breytingin fæli því einfaldlega í sér að setja þær upplýsingar upp með þeim hætti að yfirlit sýni skýra sundurliðun, þar sem fram kemur upphæð hámarksréttinda hvers lífeyristaka til lífeyrisgreiðslu miðað við þau réttindi sem hann hefur áunnið sér ásamt prósentutölu þeirra réttinda. Réttindi hvers lífeyristaka eru háð því hvenær hann hefur lífeyristöku. Þau sem hefja lífeyristöku t.d. við 65 ára aldur fá viðvarandi skerta greiðslu en þau sem hefja lífeyristöku síðar, allt til 80 ára aldurs, eiga rétt á viðvarandi hærri greiðslu. Mikilvægt er að upphæð komi fram í krónutölum sem og prósentum.
    Með því kerfi sem hér er lagt til að ráðherra útfæri er hámarkslífeyrir sýndur og síðan hvað kemur til skerðinga: lífeyrir frá tilteknum lífeyrissjóðum (hverjum um sig ef við á), fjármagnstekjur, atvinnutekjur o.s.frv.
    Með þessari breytingu telja flutningsmenn að kerfið verði aðgengilegra og gagnsærra. Þá gætu lífeyristakar sem dæmi brugðist hraðar og betur við ef tekjuáætlun er ekki rétt enda skilar lífeyristaki eins og áður tekjuáætlun sem TR vinnur með og getur lífeyristaki samkvæmt gildandi lögum breytt tekjuáætlun sinni einu sinni í mánuði ef hann sér á greiðsluseðli sínum að áætlun hans kalli á breytingar. Þannig verða minni líkur á því að greiðslur séu van- eða ofmetnar sem einfaldar óhjákvæmilega uppgjör stofnunarinnar sem sömuleiðis léttir álag á starfsmönnum TR og bætir þjónustustig stofnunarinnar. Það er enginn vafi á því að það mun koma lífeyristökum betur að endurgreiðslukröfur við uppgjör séu ekki hærri en þær þurfa að vera.
    Ljóst er að breytingin hefði í för með sér jákvæð áhrif fyrir bæði lífeyristaka og Tryggingastofnun ríkisins.