Ferill 948. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1481  —  948. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingar á lögum um handiðnað, nr. 42/1978
(útgáfa sveinsbréfa).


Frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 3. mgr. kemur: Sýslumaður.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Nú synjar sýslumaður um útgáfu sveinsbréfs, og er þá rétt að bera málið undir ráðherra. Enn fremur getur aðili leitað úrskurðar dómstóla.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „meistarabréf“ í 1. mgr. kemur: og sveinsbréf.
     b.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra er í reglugerð heimilt að ákveða að þau verkefni sem sýslumanni eru falin í lögum þessum verði á hendi eins sýslumanns. Ákvörðun skal tekin að höfðu samráði við þann ráðherra sem fer með málefni sýslumanna.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.
    Lög þessi eiga við um umsóknir um sveinsbréf sem ráðherra er með til meðferðar við gildistöku þessara laga og ekki er lokið á þeim tíma.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu í þeim tilgangi að gera minni háttar breytingar á lögum um handiðnað, nr. 42/1978. Þær breytingar felast í því að útgáfa sveinsbréfa verði flutt frá ráðherra (háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu) og til sýslumanna.
    Sveinspróf eru á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra og hafa stoð í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Framkvæmd sveinsprófa er með þeim hætti að mennta- og barnamálaráðherra skipar sveinsprófsnefndir í löggiltum iðngreinum sem bera ábyrgð á prófahaldi. Framkvæmdaaðilar skila svo niðurstöðum sveinsprófa til mennta- og barnamálaráðuneytis sem skráir þær í sveinsprófagrunn. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti hefur aðgang að grunninum og prentar sveinsbréfin. Sveinsbréf eru svo send sveinsprófsnefndum sem sjá um afhendingu bréfanna til nýsveina.
    Aðkoma háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis að útgáfu sveinsbréfa felst í umsýslu, prentun og undirritun sveinsbréfa, samskiptum við framkvæmdaraðila sveinsprófa og við staðfestingu sveinsréttinda eða endurútgáfu sveinsbréfa þegar aðilar hafa glatað áður útgefnum sveinsbréfum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Útgáfa meistarabréfa hefur verið á hendi sýslumanna frá árinu 2007 og er nú unnið að því hjá sýslumönnum að færa útgefin meistarabréf úr eldri gagnagrunni yfir í starfskerfi sýslumanna sem heldur utan um ýmis mál og þaðan sem hægt er að miðla ýmsum upplýsingum. Það fer vel á því að útgáfa sveinsbréfa fari jafnframt fram hjá sýslumönnum og útgefin bréf, sem og ný, verði færð í sama gagnagrunn. Sú uppfærsla á tæknilegu utanumhaldi með bréfunum veitir möguleika á því að birta lista yfir útgefin sveins- og meistarabréf opinberlega og jafnframt að gefa réttindin út á stafrænu formi. Við slíkar lausnir eru margir kostir, svo sem einfaldari umgjörð, aukið gagnsæi og neytendavernd.
    Svo framangreind framtíðarsýn megi raungerast er það mat ráðuneytisins, að höfðu samráði við dómsmálaráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti, að rétt sé að gera breytingar á lögum um handiðnað, nr. 42/1978. Þegar er að finna í lögunum heimild fyrir ráðherra til að fela öðrum útgáfu sveinsbréfa að fullnægðum skilyrðum laga en með vísan til skýrleika er talið rétt að lögfesta hlutverk sýslumanna við útgáfu bréfanna.
    Þá er enn fremur lagt til að við bætist ákvæði sem finna má í ýmsum lögum sem snúa að framkvæmd verkefna sýslumanna og mælir fyrir um að ráðherra sé heimilt í reglugerð að ákveða að þau verkefni sem sýslumanni eru falin með lögunum verði á hendi eins sýslumanns, til að mynda starfsstöð á landsbyggðinni.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er útgáfa sveinsbréfa færð frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti til sýslumanns.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er unnið í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Við undirbúning frumvarpsins var samráð haft við dómsmálaráðuneyti, sýslumannaráð, mennta- og barnamálaráðuneyti og Stafrænt Ísland.
    Þá var frumvarpið birt í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-53/2023) frá 3. til 13. mars sl. Helstu hagsmunaaðilum var jafnframt gert viðvart um frumvarpsdrögin. Þrjár umsagnir bárust um frumvarpið, frá Félagi iðn- og tæknigreina, sameiginlega frá Rafiðnaðarsambandi Íslands, Samiðn, Matvís og VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna sem og frá Samtökum iðnaðarins. Umsagnaraðilar höfðu almennt ekki athugasemdir við þann þátt frumvarpsins sem snýr að flutningi á útgáfu sveinsbréfanna en höfðu verulegar athugasemdir við fyrirætlan um brottfall tiltekins sektarákvæðis í lögunum. Í ljósi athugasemdanna var fallist á að hverfa frá brottfalli sektarákvæðisins í 5. tölul. 1. mgr. 15. gr. laganna að sinni og taka það álitamál upp við heildarendurskoðun á lögum um handiðnað sem fyrirhuguð er.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpinu er ætlað að einfalda umsýslu og útgáfu sveinsbréfa með það að markmiði að útgáfa bréfanna geti orðið að fullu rafræn þannig að þeim sem hafa fengið útgefið sveinsbréf verði gert auðveldara að sýna fram á réttindi sín og um leið neytendum gert auðveldara að staðreyna umrædd réttindi og skyldur. Slík rafræn umbreyting fellur betur að hlutverki sýslumanna heldur en að hlutverki ráðuneytisins sem nú gefur út sveinsbréfin.
    Verði frumvarpið að lögum verða áhrif þess á stjórnsýslu ríkisins þau að útgáfa sveinsbréfa færist frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti til sýslumanna. Kostnaður hins opinbera við yfirfærsluna er talinn óverulegur. Ekki er gert ráð fyrir nýjum fjárveitingum vegna frumvarpsins og hefur það því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er útgáfa sveinsbréfa færð frá háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneyti til sýslumanna. Ekki er um að ræða breytingu á efnislegu inntaki sveinsbréfa eða þeim réttindum sem veitt eru handhöfum en um skilyrði til útgáfu sveinsbréfa er fjallað í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, þar sem segir að námi í löggiltum iðngreinum ljúki með sveinsprófi eins og nánar er útfært í reglugerð nr. 698/2009.
    Fyrirhugaðar breytingar snúa aðeins að því að nýr ríkisaðili standi að útgáfu sveinsbréfa og eftir samtal og viðeigandi samráð er talið rétt að sá framkvæmdaraðili sé sýslumaður.
    Stefnt er að því að útgáfa sveinsbréfa hjá sýslumönnum verði eingöngu rafræn sem auðveldar samskipti handhafa og útgefanda, gerir póstsendingar óþarfar sem og þörf fyrir endurútgáfu bréfanna þar sem þau verður að finna á Mínum síðum á Ísland.is.
    Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir að komi til þess að sýslumaður synji útgáfu sveinsbréfs geti aðili skotið slíkri stjórnvaldsákvörðun til ráðherra iðnaðarmála til endurskoðunar innan hefðbundins frests á grundvelli stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Sama fyrirkomulag hefur tíðkast varðandi útgáfu eða synjun á útgáfu meistarabréfa.

Um 2. gr.

    Með ákvæðinu er tilgreint að sýslumönnum beri að halda skrá yfir sveinsbréf sem veitt eru samkvæmt lögunum. Þá er einnig lögfest heimild fyrir ráðherra til þess að ákveða í reglugerð að útgáfa meistarabréfa geti farið fram hjá einum sýslumanni, að höfðu samráði við ráðherra er fer með málefni sýslumanna. Ákvæðið er sambærilegt öðrum ákvæðum sem snúa að framkvæmd verkefna sýslumanna og er að finna í öðrum lögum.

Um 3. gr.

    Lagt er til að gildistaka laga verði 1. janúar 2024 svo ráðrúm gefist til að ljúka undirbúningi fyrir flutning verkefnisins.
    Stefnt er að því að sveinsbréfagrunnurinn verði færður yfir í starfskerfi sýslumanna, Sýsluna, þannig að hægt verði að miðla umræddum upplýsingum rafrænt. Þannig verður ekki lengur um að ræða prentuð eintök af sveinsbréfum heldur rafræna útgáfu sem verður aðgengileg handhöfum á Mínum síðum á Ísland.is. Þegar þetta kemst í framkvæmd verður þannig ekki lengur um endurútgáfu sveinsbréfa að ræða. Rétt er að tilgreina að reiknað er með að bæði eldri sveinsbréf og ný slík bréf verði færð inn í hinn nýja grunn.
    Ráðgert er að frá og með 1. janúar 2024 verði ný sveinsbréf gefin út af sýslumanni en jafnframt að þau sveinsbréf sem þegar hafa verið skráð í sveinsprófagrunninn en ekki verið útgefin á áðurnefndum tímapunkti flytjist með verkefinu og verði þar af leiðandi gefin út af sýslumanni.