Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
2. uppprentun.

Þingskjal 1482  —  539. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (rafvæðing smábáta).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Másson frá Bláma, Kolbein Óttarsson Proppé frá Grænafli ehf., Alfreð Túliníus, Bárð Hafsteinsson og Kára Logason frá Nautic ehf., Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Heiðmar Guðmundsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Örvar Marteinsson og Þorstein Bárðarson frá Samtökum smærri útgerða, Finn Ricart Andrason frá Ungum umhverfissinnum, Högna Bergþórsson frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum skipaiðnaðarins, Auði Önnu Magnúsdóttur og Ágústu Jónsdóttur frá Landvernd, Aron Frey Jóhannsson, Geir Þór Geirsson og Guðna Jónsson frá Samgöngustofu og Áslaugu Eir Hólmgeirsdóttur, Agnar Braga Bragason, Jón Þránd Stefánsson og Skúla Kristin Skúlason frá matvælaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Bláma, Grænafli ehf., Landssambandi smábátaeigenda, Landvernd, Samgöngustofu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Ungum umhverfissinnum. Þá barst nefndinni minnisblað frá matvælaráðuneyti og frá Samgöngustofu.
    Með frumvarpinu er lögð til breytinga á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, þess efnis að fiskiskipi verði heimilt að draga allt að 750 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, ef skipið er skráð sem rafknúið skip á skipaskrá.
    Fram kom fyrir nefndinni að frumvarpið væri liður í lengri vegferð sem nú væri rétt að hefjast, þ.e. orkuskiptum, en stefnt er að því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í haftengdri starfsemi verði komið í 10% árið 2030. Með frumvarpinu er lögð til 100 kg aukning á hámarksheimild landaðs afla, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð á strandveiðum og verði að frumvarpinu samþykktu 750 kg í stað 650 kg.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að 100 kg aukning á hámarksheimild landaðs afla væri ekki nægjanleg og hvatinn til skipta yfir í rafknúna báta þar með ekki mikill. Meiri hlutinn tekur að vissu leyti undir þessar áhyggjur en bendir jafnframt á að frumvarpið er ekki eini þátturinn sem leggur lóð á vogarskálar orkuskipta á hafi. Hvatar til grænna fjárfestinga og orkuskipta á hafi eru fjölþættir og er það skilningur meiri hlutans að áætlanir stjórnvalda gangi fremur út á að bæta í en hitt. Um fjölþættar aðgerðir er að ræða sem allar hafa það að marki að hvetja til orkuskipta á arðbæran hátt fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hvatinn er því fjölþættur og frumvarpi því sem nefndin hefur til umfjöllunar er ætlað að bæta enn frekar úr og skapa frekari hvata. Auk þeirrar 100 kg aukningar sem um ræðir í þessu frumvarpi má nefna að sparnaður við orkukaup mun verða allnokkur enda verðmunur mikill á olíu og raforku. Þá hafa styrkir til orkuskipta verið í boði vegna tækjabúnaðar sem nýtir endurnýjanlega orku, svo sem rafmagn, í stað olíu. Einnig eru í boði svokölluð græn lán sem almennt bera lægri vexti en önnur og eru ætluð einstaklingum og fyrirtækjum sem fjárfesta í umhverfisvænum búnaði. Ekki er allt upp talið hér, en ljóst að samlegðaráhrif þessara smærri þátta eru þónokkur og má ætla að einstaklingar og fyrirtæki sjái hag sinn í því að ryðja brautina þegar kemur að rafvæðingu smábáta.
    Nefndin fjallaði um rafvæðingu hafna umhverfis landið, enda ljóst að orkuskipti á hafi munu ekki eiga sér stað án rafvæðingar þeirra hafna sem skip og bátar landa við. Þá fjallaði nefndin um þá staðreynd að ekki verður unnt að rafvæða allar hafnir landsins á sama tíma og þar með mun samkeppnishæfni hafna hvað varðar þjónustu við rafknúna báta og skip skekkjast. Rekstur og þar með rafvæðing hafna er verkefni sem heyrir undir hafnir og hafnasamlög sem rekin eru af sveitarfélögum. Meiri hlutinn telur ljóst að ef vel á að takast til við uppbyggingu innviða sem tengjast orkuskiptum á sjó verði að koma til styrkir úr opinberum sjóðum. Beinir meiri hlutinn því til ráðherra að huga vel að framangreindum þáttum.
    Eva Sjöfn Helgadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Hanna Katrín Friðriksson ritar undir álit þetta með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 30. mars 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Harpa Svavarsdóttir.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Haraldur Benediktsson.
Tómas A. Tómasson. Þórarinn Ingi Pétursson.