Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1585  —  538. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (aflvísir).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Auði Önnu Magnúsdóttur og Ágústu Jónsdóttur frá Landvernd, Heiðmar Guðmundsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Áslaugu Eir Hólmgeirsdóttur, Agnar Braga Bragason, Jón Þránd Stefánsson og Skúla Kristin Skúlason frá matvælaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Landvernd og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá barst nefndinni minnisblað frá matvælaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, þess efnis aflvísisviðmið verði fjarlægð úr lögunum og heimiluð verði notkun á stærri skrúfum í skipum samfara hæggengari vél, en með því megi ná fram umtalsverðum olíusparnaði. Aflvísir skips reiknast út frá margfeldi af afli aðalvélar og stærð skrúfu. Með því að heimila notkun á stærri skrúfu við veiðar má notast við hæggengari vél og ná fram talsverðum orkusparnaði. Samkvæmt frumvarpshöfundum kann samdrátturinn á olíunotkun að vera allt að 50%.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með því að fjarlægja aflvísisviðmið úr lögum yrði stærri bátum og skipum heimiluð veiði innan 12 mílna. Þá komu einnig fram sjónarmið um að stærri skrúfa gæti haft áhrif á losun kolefnis úr sjávarbotni.
    Meiri hlutinn bendir á að með frumvarpinu er ekki stefnt að því að breyta þeim veiðarfærum sem heimilt er að nota innan 12 sjómílna. Þá kemur fram í minnisblaði matvælaráðuneytis að stærð skrúfu hafi ekki áhrif á losun kolefnis frá hafsbotni. Það kann að vera að í einhverjum tilvikum kunni skip og bátar að geta veitt með tveimur veiðarfærum í sama kasti, en slík veiði er þó ekki til þess fallin að auka losun á gróðurhúsalofttegundum, heldur má þvert á móti draga úr losun með því.
    Hvað varðar veiðar stærri skipa innan 12 sjómílna frá viðmiðunarlínu vísast til allítarlegrar umfjöllunar matvælaráðuneytis í minnisblaði sem nefndin óskaði eftir. Vissulega er það rétt að í einhverjum tilvikum kunni breytingarnar að leiða til þess að stærri skip veiði innan 12 sjómílna, en líkt og bent er á í greinargerð með frumvarpinu fer nú fram yfirgripsmikil vinna við að skilgreina viðkvæm hafsvæði og botnvistkerfi sem njóta eiga verndar gagnvart veiðarfærum sem snerta botninn. Eftir sem áður þurfa togskip yfir 42 metra, sem stunda togveiðar, að veiða fyrir utan 12 sjómílur frá viðmiðunarlínu, þá mega togskip undir 42 metrum en lengri en 29 metrar stunda veiðar á vissum svæðum upp að 4 sjómílum frá viðmiðunarlínu. Með frumvarpinu er ekki verið að breyta þeim viðmiðum.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að málið verði afgreitt, en það er eitt þeirra mála sem nefndin hefur fjallað um á yfirstandandi löggjafarþingi og varðar orkuskipti í sjávarútvegi og þau grænu skref sem ákveðið hefur verið að stíga til að ná fram markmiðum stjórnvalda þar að lútandi.
    Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 18. apríl 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Friðjón R. Friðjónsson. Hanna Katrín Friðriksson. Haraldur Benediktsson.
Tómas A. Tómasson. Þórarinn Ingi Pétursson.