Ferill 851. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1596  —  851. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um fjárveitingu vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni.


     1.      Hvaða tilteknu fjölmiðlar fengu 100 millj. kr. fjárveitingu samkvæmt tillögu meiri hluta fjárlaganefndar „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð“ eins og tilgreint er í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar á þskj. 699 á yfirstandandi þingi?
    Þeim 100 millj. kr. „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð“ hefur ekki verið úthlutað þar sem ákveðinn forsendubrestur er fyrir því að unnt verði að framfylgja þeim tilmælum sem fram komu í áliti meiri hluta fjárlaganefndar frá 14. desember sl. Af þeim sökum leggur ráðuneytið til leið sem fellur vel að því markmiði að styrkja frekar staðbundna fjölmiðla og lýðræðislega umræðu á landsbyggðinni. Útfærslan er einnig í samræmi við þróun sem á sér stað annars staðar á Norðurlöndunum, þá helst í Noregi og Danmörku. Í framangreindum löndum er aukin áhersla á að styrkja staðbundna fjölmiðla og að hærra hlutfall renni til þeirra en til almennra miðla. Í framkvæmd yrði það þannig að 100 millj. kr. rynnu í almenna styrki til einkarekinna fjölmiðla og inn kæmi nýtt ákvæði sem mælir fyrir um að staðbundnir miðlar hljóti tiltekið landsbyggðarálag. Ráðuneytið vinnur að útfærslu þeirrar leiðar sem að framan greinir í samráði við fjárlaganefnd og eftir atvikum aðrar þingnefndir.

     2.      Hvernig skiptist fjárveitingin á milli fjölmiðla?
    Sjá svar við lið 1.