Ferill 907. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1662  —  907. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um kínverska rannsóknamiðstöð.


     1.      Hvernig hefur starfsemi rannsóknamiðstöðvar sem Heimskautastofnun Kína (PRIC) rekur á Kárhóli verið metin út frá mögulegum áhrifum á þjóðaröryggi? Telur ráðherra ástæðu til að hafa áhyggjur af starfseminni?
     2.      Hvaða samráð átti sér stað við samstarfsaðila Íslands í þjóðaröryggismálum, þar á meðal á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, áður en rekstur miðstöðvarinnar var heimilaður? Lýstu þeir aðilar áhyggjum af starfseminni?
     3.      Hvaða skilyrði settu stjórnvöld fyrir starfsemi miðstöðvarinnar út frá þjóðaröryggissjónarmiðum? Hvernig er því fylgt eftir að starfsemin uppfylli þau skilyrði?
     4.      Hvaða eftirlit hafa stjórnvöld með starfsemi miðstöðvarinnar út frá þjóðaröryggi?


    Fyrirspurnin lýtur m.a. að forsendum og tilurð samstarfs milli Rannís og Heimskautastofnunar Kína (PRIC) um stofnun sameiginlegrar miðstöðvar til norðurljósarannsókna á Íslandi á árinu 2013 undir nafninu China-Iceland Joint Aurora Observatory (CIAO) sem er staðsett að Kárhóli í Reykjadal.
    Í samstarfssamningi Rannís og Heimskautastofnunar Kína (PRIC) sem undirritaður var í október 2013 er vísað til rammasamkomulags fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og Kína frá árinu 2012 um samstarf Íslands og Kína í málefnum norðurslóða með áherslu á rannsóknir á norðurslóðum. Það skal tekið fram að stuttu áður, eða hinn 15. apríl sama ár, undirrituðu fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og fyrrverandi viðskiptaráðherra Kína fríverslunarsamning milli Íslands og Kína þar sem m.a. er kveðið á um samvinnu á sviði rannsókna, vísinda og tækni og er þar einnig að finna ákvæði um grunnöryggi. Frá árinu 2011 hafði að auki verið í gildi stefna samþykkt á Alþingi um málefni norðurslóða sem m.a. kvað á um að efla skyldi og styrkja miðstöðvar, rannsóknasetur og menntastofnanir um norðurslóðir á Íslandi í samstarfi við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Stefnan var endurnýjuð árið 2021 og tiltók þá að styðja skyldi við alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum. Rannsóknastöðin var formlega tekin í notkun 22. október 2018 að viðstöddum þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra sem þá fór með málefni Rannís.
    Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland var samþykkt fyrri hluta árs 2016 þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að framfylgja stefnu í þjóðaröryggismálum sem tryggi sjálfstæði, fullveldi, og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Síðar sama ár voru samþykkt lög um þjóðaröryggisráð og tók ráðið til starfa á árinu 2017. Þjóðaröryggisráð er samráðs- og samhæfingarvettvangur um þau málefni er varða þjóðaröryggi en ábyrgð á stjórnarframkvæmd einstakra stjórnarmálefna er hjá hlutaðeigandi ráðherra samkvæmt forsetaúrskurði hverju sinni. Þjóðaröryggisráð hefur því ekki lögum samkvæmt eftirlit með starfsemi stofnana eða samstarfsverkefna sem fellur undir ábyrgðarsvið einstakra ráðherra.
    Starfsemi sameiginlegrar miðstöðvar til norðurljósarannsókna á Íslandi á vegum Rannís og Heimskautastofnunar Kína (PRIC) var ekki rædd á vettvangi þjóðaröryggisráðs í aðdraganda hennar sem á rætur að rekja til ársins 2013 og hefur ekki komið á borð ráðsins frá stofnun hennar. Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, er hlutverk þjóðaröryggisráðs m.a. að hafa eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er það jafnframt samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál. Þá er það hlutverk þjóðaröryggisráðs að leggja mat á ástand og horfur í þjóðaröryggismálum. Er það hlutverk að nokkru marki samofið skyldu forsætisráðherra til að boða til funda þjóðaröryggisráðs, þ.e. þegar atburðir hafa orðið eða eru yfirvofandi sem geta haft áhrif á þjóðaröryggi. Lagaskyldur samkvæmt framangreindu styðjast við sjálfstæða greiningargetu þjóðaröryggisráðs og forsætisráðherra sem formanns ráðsins. Í því skyni að styrkja greiningargetu í þágu þjóðaröryggisráðs og formanns þess hefur forsætisráðuneytið fyrir hönd þjóðaröryggisráðs gert samkomulag við ríkislögreglustjóra um virkt og gagnkvæmt samráð um greiningu upplýsinga um helstu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir og varða framgang þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti.
    Stjórnarmálefni er varða vísindi og rannsóknir, þ.m.t. Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, heyra nú stjórnarfarslega undir málefnasvið háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sbr. m-lið 2. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sbr. 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu starfa ráðherra, nr. 7/2022.
    Óski fyrirspyrjandi eftir nánari upplýsingum um málefnið ber að beina fyrirspurn þar að lútandi til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.