Ferill 741. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1842  —  741. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn Íslands og lögum um Náttúruminjasafn Íslands (samráð og skipunartími).

(Eftir 2. umræðu, 23. maí.)


I. KAFLI

Breyting á safnalögum, nr. 141/2011.

1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Safnaráð boðar til samráðsfundar a.m.k. árlega með ráðherra og fulltrúum höfuðsafna og þeirra fagfélaga sem koma að starfi safnanna. Safnaráð semur reglur um fyrirkomulag samráðsfundar, þátttakendur og dagskrá sem ráðherra staðfestir.

II. KAFLI

Breyting á lögum um Þjóðminjasafn Íslands, nr. 140/2011.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað 2. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Viðkomandi skal hafa háskólamenntun og góða þekkingu á starfssviði safnsins. Endurnýja má skipun forstöðumanns einu sinni til næstu fimm ára.
     b.      Í stað orðanna „starfsmenn þess“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: starfsfólk.

III. KAFLI

Breyting á lögum um Náttúruminjasafn Íslands, nr. 35/2007.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Endurnýja má skipun safnstjóra einu sinni til næstu fimm ára.
     b.      3. málsl. fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.