Ferill 1053. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1863  —  1053. mál.
Álit minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar


um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit.


    Minni hluti nefndarinnar tekur undir þá alvarlegu gagnrýni sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit, sem og þá gagnrýni sem fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar um skýrsluna. Þegar ríkisstjórnin hóf þá vegferð að heimila sjókvíaeldi í fjörðum landsins hringdu ótal viðvörunarbjöllur. Reynsla Norðmanna gaf til kynna að galli væri á gjöf Njarðar. Líkt og oft áður þegar stjórnvöld reyna að byggja upp atvinnuvegi á landsbyggðinni ráða skyndilausnir og skammsýni för. Ekki er ráðist í vandaða vinnu til að benda á möguleika sem svæðin hafa upp á að bjóða.

Villta vestrið.
    Þegar sjókvíaeldi í fjörðum landsins var leyft var því ekki fylgt eftir með viðeigandi styrkingu stjórnsýslu og með eftirliti stofnana. Þar að auki virðist allt regluverk hafa verið svo hroðvirknislega unnið að töluvert ósamræmi er milli reglusetningar um rekstrarleyfi og um starfsleyfi. Stofnanir og ráðuneyti höfðu lítið samráð. Þá skortir regluverk um burðarþolsmat fjarða, ekkert hefur verið ákveðið um hvernig því skuli háttað og ekkert skeytt um hvaða afleiðingar það hefur á leyfi til framtíðar. Af þessum sökum, og einnig vegna skorts á fjármagni, hafa stjórnsýslu- og eftirlitsstofnanir ekki haft burði til að sinna eftirliti með viðunandi hætti. Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom jafnframt í ljós að hagsmunaaðilar úr greininni veittu sjálfir stuðul sem Hafrannsóknastofnun átti að miða við varðandi áhættumat erfðablöndunar.
    Af skýrslu Ríkisendurskoðunar má ráða að hagsmunaaðilar í fiskeldi hafi í raun haft verulega frjálsar hendur um hvernig starfseminni væri hagað án þess að stjórnsýslu- og eftirlitsstofnanir hefðu verkfæri til að bregðast við eða setja þeim nokkurn ramma. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að nauðsynlegt sé að fyrirkomulag uppfærslu og endurskoðunar rekstrar- og starfsleyfa sé tekið til endurskoðunar til að tryggja skýrleika og til að ábyrgjast að auðlindum sé ekki úthlutað nema gjald komi fyrir.

Umhverfisáhrif.
    Skortur á eftirliti og veikburða stjórnsýsla er sérstakt áhyggjuefni. Enn alvarlegri eru hinar alvarlegu og jafnvel óafturkræfu afleiðingar sem sjókvíaeldi hefur haft fyrir lífríki og vistkerfi fjarðanna og fyrir laxastofna í ám og vötnum. Ríkisstjórnin getur ekki notað þá afsökun að hafa flotið sofandi að feigðarósi því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu árið 2018 að fella skyldi úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Í stað þess að kanna frekar hver grundvöllur úrskurðarins væri og í stað þess að athuga þau umhverfisáhrif sem eldið hefði haft brást meiri hluti Alþingis við með því að lögfesta heimild til rekstrarleyfis til bráðabirgða þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum hefði verið fellt úr gildi. Í kjölfarið beindi hópur náttúruverndarsamtaka kvörtun til ESA sem skilaði niðurstöðu í desember 2021. Í úrskurðinum segir að íslenska ríkið hafi brotið gegn EES-samningnum með því að leiða í lög undanþágu frá umhverfismati. Undanþágan taldist vera brot á ákvæði Evróputilskipunar um að gilt umhverfismat yrði að liggja fyrir þegar veitt væru rekstrar- og starfsleyfi fyrir leyfisskyldar framkvæmdir. Ráðherra hefur ekki enn bætt úr þessu eða afnumið umrædd ákvæði.
    Af þessu má leiða að í a.m.k. fimm ár hefur legið fyrir vitneskja um að starfsemin standist ekki umhverfismat og að óumdeilt er að fiskeldi í opnum sjókvíum geti valdið margvíslegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar er þekking á langtímaáhrifum sjókvíaeldis afar takmörkuð og löggjafinn hefur ekki haldið í við öran vöxt greinarinnar.
    Óverjandi er að eyðileggja náttúru, lífríki og vistkerfi landsins fyrir skammtímagróða. Að svo stöddu er eina rökrétta niðurstaðan sú að stöðva útgáfu nýrra leyfa og frekari vöxt sjókvíaeldis þar til endurskoðun laga er lokið og rannsóknir liggja fyrir um áhrif starfseminnar á lífríki og vistkerfi.

Sjálfbær uppbygging til framtíðar.
    Ljóst er að ef sjókvíaeldi verður lagt niður hefur það alvarlegar afleiðingar fyrir byggðarlög á landsbyggðinni, einkum og sér í lagi brothættar byggðir. Því væri nauðsynlegt að ráðast í vandaða og ítarlega greiningarvinnu svo að unnt verði að leggja til viðeigandi mótvægisaðgerðir. Ríkisstjórnin gæti til að mynda lagt fram fjármuni til að byggja upp aðra starfsemi sem gerði svæðin sjálfbærari. Einnig mætti tryggja að þau verðmæti sem til verða á svæðunum skiluðu sér til samfélagsins, svo sem með því að virðisaukaskattur væri eyrnamerktur uppbyggingu á viðkomandi svæði. Þá mætti margfalda nýsköpunarstyrki og uppbyggingu innviða til að efla nýjar atvinnugreinar og sprotafyrirtæki og gera samfélögin aðlaðandi fyrir nýja íbúa.
    Landsbyggðin skapar gríðarleg verðmæti fyrir þjóðarbúið og stendur undir stórum hluta útflutningstekna. Hún á skilið þá virðingu að ríkisstjórnin leggist í vandaða vinnu til að byggja hana upp en horfi ekki ávallt til skammtímalausna sem hafa langvarandi og neikvæðar afleiðingar.

Alþingi, 24. maí 2023.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.