Ferill 857. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 19/153.

Þingskjal 1912  —  857. mál.


Þingsályktun

um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að vinna að framkvæmd eftirfarandi aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027, í samræmi við þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, nr. 26/152, og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs.

I. FRAMTÍÐARSÝN

    Geðheilsa Íslendinga verði bætt með því að tryggja aðgengi að skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu viðurkenndu þekkingu og nýsköpun.

II. MARKMIÐ

    Eftirfarandi aðgerðir í III. kafla leiði til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að náð verði markmiðum þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, nr. 26/152.


III. AÐGERÐAÁÆTLUN

    Náið samráð verði á milli heilbrigðisráðuneytis, annarra ráðuneyta, heilbrigðisstofnana og annarrar heilbrigðisþjónustu, jafnt opinberrar sem einkarekinnar og á vegum góðgerðarstofnana, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarrar velferðarþjónustu við framkvæmd geðheilbrigðisstefnu. Til að ná fram markmiðum stefnu í geðheilbrigðismálum verði aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum uppfærð árlega á ábyrgð heilbrigðisráðherra.
    Aðgerðirnar sem unnið verði að verði eftirfarandi:

1.A.1. Að efla sérhæfða þjónustu í barneignaferlinu við verðandi foreldra og foreldra með ung börn til að draga úr vanlíðan og auka foreldrahæfni þeirra.
    Tilgangur:    Að styrkja fjölskyldur í barneignaferli með fræðslu og snemmíhlutun. Að auka aðgengi foreldra/fjölskyldna að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu frá meðgöngu að fimm ára aldri barnsins.
     Ábyrgð:        Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (Geðheilsumiðstöð barna).
     Samstarf:     Heilbrigðisstofnanir, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og embætti landlæknis.
     Samfélagsáhrif:    Öruggari foreldrar og heilbrigðari börn.
1.A.2. Að þróa hlutverk og samstarf heilsugæslu við skóla og félagsþjónustu varðandi geðrækt og forvarnir barna á grunnskólaaldri.
    Tilgangur:    
Að efla virkt samstarf um geðrækt og forvarnir á fyrsta stigi velferðarþjónustu.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:    Mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Geðheilsumiðstöð barna, embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, sveitarfélög og skólaþjónusta sveitarfélaga.
     Samfélagsáhrif:     Bætt geðheilbrigði grunnskólabarna.

1.A.3. Að velja og innleiða gagnreynda nálgun í geðrækt og almennum forvörnum í grunnskóla
.
     Tilgangur:    Að efla verndandi þætti geðheilbrigðis, með því að þróa samtal um geðheilsu, sjálfsvígsforvarnir og leiðir til að takast á við vandamál og byggja upp þolgæði og/eða seiglu.
     Ábyrgð:        Embætti landlæknis.
     Samstarf:    Mennta- og barnamálaráðuneyti, sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Sjúkratryggingar Íslands.
     Samfélagsáhrif:    Betri líðan og betri námsárangur.

1.A.4. Að þróa skólaheilsugæslu í framhaldsskólum með sérstaka áherslu á geðrækt og forvarnir
.
    Tilgangur:    Að efla verndandi þætti geðheilbrigðis hjá ungmennum og auka aðgengi að notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu í nærumhverfi.
    Ábyrgð:         
Heilbrigðisstofnanir og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samstarf:     Heilbrigðisstofnanir, framhaldsskólar, Sjúkratryggingar Íslands og Samband íslenskra framhaldsskólanema.
    Samfélagsáhrif:
    Betri geðheilsa framhaldsskólanema og minna brottfall úr framhaldsskólum.

1.A.5. Að styðja við börn sem eru aðstandendur fólks með langvinnan alvarlegan geðheilbrigðisvanda
.
     Tilgangur:    Að bæta líðan barna fólks með langvinnan alvarlegan geðheilbrigðisvanda.
     Ábyrgð:         Embætti landlæknis og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samstarf:     Heilbrigðisstofnanir, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, sveitarfélög, notendasamtök og félagasamtök á þessu sviði.
     Samfélagsáhrif:    Betri geðheilsa barna sem aðstandenda.

1.A.6. Að þróa greitt aðgengi að ráðgjöf fyrir foreldra vegna geðheilsu barna þeirra.
    Tilgangur:
    Að bæta aðgengi foreldra sem upplifa að barn þeirra sé að þróa með sér geðrænan vanda að vegvísi og snemmtækri ráðgjöf fagaðila.
     Ábyrgð:         Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
     Samstarf:    Geðheilsumiðstöð barna, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, Barna- og unglingageðdeild Landspítala, aðrar heilbrigðisstofnanir og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samfélagsáhrif:    Öruggari foreldrar og heilbrigðari börn.

1.B.1. Að samræmt verklag verði innleitt á heilbrigðisstofnunum um mat á sjálfsvígshættu.
    Tilgangur:
    Að bæta mat og skráningu á sjálfsvígshættu á heilbrigðisstofnunum.
     Ábyrgð:        Embætti landlæknis og heilbrigðisstofnanir.
     Samstarf:    Viðkomandi heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, dómsmálaráðuneyti og lögregluembættin.
     Samfélagsáhrif:    Að sjálfsvígum fækki.

1.B.2. Að gagnreynt úrræði verði valið, innleitt og samræmt í meðferð fyrir notendur í mikilli sjálfsvígshættu og stuðningur við fjölskyldur þeirra tryggður.
    Tilgangur:
    Að tryggja viðeigandi meðferð fyrir þá sem eru í mikilli sjálfsvígshættu og í kjölfar sjálfsvígstilrauna þeirra sem leita á heilbrigðisstofnanir. Að tryggja stuðning við fjölskyldur viðkomandi.
     Ábyrgð:        Embætti landlæknis og heilbrigðisstofnanir.
     Samstarf:    Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, opinberar og einkareknar heilbrigðisstofnanir, Sjúkratryggingar Íslands, sveitarfélög, notenda- og aðstandendasamtök, frjáls félagasamtök á sviði sjálfsvígsforvarna og meðferðar, dómsmálaráðuneyti, lögregluembætti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og heilsugæsla að því er varðar þjónustu við hælisleitendur.
     Samfélagsáhrif:    Upplifun einstaklingsins verði að aðgengi að stuðningi sé öruggt fyrir alla og óháð búsetu og aldri.

1.B.3. Að skýrt samræmt verklag og leiðbeiningar um stuðning við eftirlifendur eftir sjálfsvíg liggi fyrir og því sé fylgt.
    Tilgangur:
    Að tryggja viðeigandi stuðning í kjölfar sjálfsvígs.
     Ábyrgð:        Embætti landlæknis.
     Samstarf:    Heilbrigðisráðuneyti, opinberar og einkarekar heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, sjúkraflutningar, mennta- og barnamálaráðuneyti (skólar), félags- og vinnumálaráðuneyti (félagsþjónusta, vinnustaðir), dómsmálaráðuneyti (prestar, fangelsi og lögregla og aðrar stofnanir dómsmálaráðuneytis sem þjónusta hælisleitendur), innviðaráðuneyti (sveitarfélög), notenda- og aðstandendasamtök, frjáls félagasamtök á sviði sjálfsvígsforvarna og meðferðar.
     Samfélagsáhrif:    Upplifun einstaklingsins verði að aðgengi að stuðningi sé öruggt fyrir alla og óháð búsetu, bakgrunni og aldri.

1.C.1. Að gagnabrunnur um geðheilsu, geðvanda og meðferðarúrræði verði settur upp í Heilsuveru.
    Tilgangur:
    Að almenningur leiti fyrr og á viðeigandi hátt upplýsinga og hjálpar varðandi geðheilbrigðismál og að heilsulæsi batni.
     Ábyrgð:         Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
     Samstarf:    Embætti landlæknis, Landspítali, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, VIRK og notendasamtök skipi ritstjórn.
     Samfélagsáhrif:    Minni þörf á tímum hjá fagfólki, meira þolgæði og/eða seigla hjá fólki til að takast á við algeng, vægari vandamál.

2.A.1. Að mönnunarhópur meti mönnun í geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við hlutverk og verkefni geðheilbrigðisþjónustunnar.
    Tilgangur:
    Að tryggja að mönnun sé í samræmi við hlutverk og verkefni geðheilbrigðisþjónustunnar.
     Ábyrgð:         Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:    Heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Sjúkratryggingar Íslands, sveitarfélög, fagfélög, notendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Betri geðheilbrigðisþjónusta á öllum stigum (rétt, tímanleg og örugg þjónusta).

2.A.2. Að greiningarhópur skilgreini hvaða hæfni starfsfólk geðheilbrigðisþjónustu þurfi að búa yfir á hverju þjónustustigi á hverjum stað.
    Tilgangur:
    Að tryggja að starfsfólk geðheilbrigðisþjónustu sé með viðeigandi menntun og hæfni til að veita gagnreynda geðheilbrigðisþjónustu.
     Ábyrgð:         Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:     Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, háskóla- og menntastofnanir, embætti landlæknis, sveitarfélög, notendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Betra geðheilbrigði.

2.B.1. Að sérnám heilbrigðisstétta í geðheilbrigðisfræðum verði fullfjármagnað.
    Tilgangur:
    Að tryggja uppbyggingu og þróun þekkingar í geðheilbrigðisfræðum.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samfélagsáhrif:    Aukið aðgengi að fagfólki sem veitir geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum.

2.C.1. Að verkefnishópur skilgreini hlutverk og verkefni veitenda geðheilbrigðisþjónustu, greini samvinnu, samfellu og skort þar á og komi með áætlun um aðgerðir til úrbóta.
    Tilgangur:
    Að hlutverk og verkefni veitenda geðheilbrigðisþjónustu séu skýr og að samvinna og samfella sé í þjónustunni.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:    Breiður hópur haghafa, fyrst og fremst stofnanir sem sinna þjónustu en einnig fulltrúar notenda þjónustunnar og aðstandenda þeirra. Sjúkratryggingar Íslands.
     Samfélagsáhrif:    Rétt þjónusta, á réttum stað, á réttum tíma. Jafnt aðgengi að þjónustu, óháð búsetu og bakgrunni.

3.A.1. Að stofna geðráð, breiðan samráðsvettvang helstu haghafa geðheilbrigðismála.
     Tilgangur:    Að stofna sjálfstæðan og breiðan samráðsvettvang á sviði geðheilbrigðismála sem hafi ráðgefandi hlutverk fyrir heilbrigðisráðherra í stefnumótun, skipulagi og samþættingu geðheilbrigðisþjónustu.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:    Notenda- og aðstandendasamtök, heilbrigðisstofnanir, embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, VIRK, Samband íslenskra sveitarfélaga, umboðsmaður barna.
     Samfélagsáhrif:    Breið, almenn samstaða um stefnu í geðheilbrigðismálum.

3.B.1. Að fólk með notendareynslu starfi sem víðast í geðheilbrigðisþjónustu.
    Tilgangur:
    Að fólk með notendareynslu starfi sem víðast og að jafningjastuðningur sé hluti af þeirri þjónustu sem veitt er og hafi áhrif á uppbyggingu og mótun þjónustunnar.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:    Heilbrigðisstofnanir og notendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Minni fordómar. Meiri skilningur á reynslu notenda og þörfum.

3.B.2. Að fólk með notendareynslu og aðstandendur komi að allri opinberri stefnumótun og skipuðum starfshópum í geðheilbrigðismálum og fái greitt fyrir þátttöku.
    Tilgangur:
    Að notendur hafi aukið vægi við stefnumótun í málaflokki geðheilbrigðis (einnig inni á heilbrigðisstofnunum).
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:    Embætti landlæknis, heilbrigðisstofnanir og notenda- og aðstandendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Valdefling notenda, minni fordómar.

3.B.3. Að notendastýrðar kannanir verði gerðar árlega í geðheilbrigðisþjónustu og niðurstöður nýttar til umbóta.
    Tilgangur:
    Að notendur hafi aukið vægi við mat á árangri þjónustu, kerfishindrunum og mismunun.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti, heilbrigðisstofnanir.
     Samstarf:    Heilbrigðisstofnanir, notenda- og aðstandendasamtök, háskólastofnanir.
     Samfélagsáhrif:    Betri og notendamiðuð geðheilbrigðisþjónusta.

3.B.4. Að gagnreynd starfsendurhæfingarúrræði verði efld.
    Tilgangur:
    Að auðvelda fólki með alvarlegan langvinnan geðheilbrigðisvanda aðgang að vinnumarkaði.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti og Landspítali.
     Samstarf:    Geðráð, endurhæfingarráð, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, VIRK, aðrar endurhæfingarstofnanir (Janus endurhæfing ehf., Reykjalundur, Heilsustofnun NLFÍ, Múlalundur, Hringsjá o.s.frv.), atvinnurekendur, Vinnumálastofnun, Samtök atvinnulífsins, geðheilsuteymi, notendasamtök, sveitarfélög og skólasamfélag.
     Samfélagsáhrif:    Fólk með langvinnan alvarlegan geðheilbrigðisvanda verði fullgilt á vinnumarkaði.

3.C.1. Að framtíðarsýn verði mótuð og þarfagreining gerð vegna húsnæðis geðþjónustu Landspítala.
    Tilgangur:
    Að nýtt húsnæði geðþjónustu Landspítala byggist á nútímahönnun og nútímaviðhorfum og mæti þörfum samfélagsins.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti og stýrihópur Hringbrautarverkefnis.
     Samstarf:    NLSH, Landspítali, starfshópur um umbætur á húsnæði geðþjónustu.
     Samfélagsáhrif:    Bætt geðþjónusta, minni fordómar.

3.C.2. Að skipa starfshóp til ráðgjafar heilbrigðisráðherra um brýnar og mikilvægar bataeflandi umbætur á húsnæði geðheilbrigðisþjónustu í landinu.
    Tilgangur:
    Að ná yfirsýn yfir annars vegar þróun bataeflandi húsnæðis geðþjónustu erlendis, hins vegar stöðu húsnæðismála geðþjónustu á Íslandi. Hópurinn ráðleggi um, forgangsraði og fylgi eftir umbótum á húsnæði geðþjónustu Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri, geðheilsuteyma og annarrar geðheilbrigðisþjónustu.
     Ábyrgð:        Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:    Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, Háskóli Íslands, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Geðráð, notenda- og aðstandendasamtök, NLSH, aðrar heilbrigðisstofnanir og hönnuðir.
     Samfélagsáhrif:    Bætt geðþjónusta, minni fordómar.

4.A.1. Að setja upp þróunarverkefni um átta sólarhringsrými með notendastýrðu aðgengi.
    Tilgangur:
    Að mæta þörf fyrir lágþröskuldaþjónustu með því að skilgreindur hópur einstaklinga með þekktan geðheilbrigðisvanda geti leitað skjóls og gistingar í gistirýmum í einn til þrjá sólarhringa í einu.
     Ábyrgð:        Landspítali, velferðarsvið Reykjavíkurborgar.
     Samstarf:    Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (geðheilsuteymi), samtök notenda og aðstandenda, Sjúkratryggingar Íslands, þjónustuaðilar í grasrót.
     Samfélagsáhrif:    Notendur hafi aukið val og greiðara aðgengi að valdeflandi þjónustu.

4.A.2. Að þróa stuðning við geðheilsuteymi heilsugæslunnar og finna leiðir til að auka og jafna aðgengi að sérhæfðri þriðja stigs þjónustu, m.a. með nýsköpun og fjarheilbrigðislausnum.
    Tilgangur:
    Að bæta aðgengi að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.
     Ábyrgð:        Landspítali.
     Samstarf:    Heilbrigðisráðuneyti, heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, embætti landlæknis, notenda- og aðstandendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Bætt og jafnt aðgengi að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.

4.A.3. Að efla nærþjónustu og fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu vegna vægs til miðlungsalvarlegs geðræns vanda jafnt barna sem fullorðinna.
    Tilgangur:
    Að notendum standi til boða þrepaskipt, viðeigandi, tímanleg, gagnreynd meðferð, t.d. samtalsmeðferð í fyrsta stigs þjónustu.
     Ábyrgð:        Heilsugæslur og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samstarf:    Heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, háskólar, Geðheilsumiðstöð barna.
     Samfélagsáhrif:    Bætt geðheilbrigði.

4.A.4. Að þróa ráðgefandi teymi með sérhæfingu á sviði geðheilbrigðis aldraðra.
    Tilgangur:
    Að bæta aðgengi þjónustuveitenda að sérhæfðum stuðningi, ráðgjöf og handleiðslu hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða á landsvísu.
     Ábyrgð:        Landspítali.
     Samstarf:    Heilbrigðisráðuneyti, heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, heilsugæslur, hjúkrunarheimili, embætti landlæknis, sveitarfélög og notenda- og aðstandendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Bætt og jafnt aðgengi aldraðra að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.

4.B.1. Að stofna rannsókna- og nýsköpunarsetur í geðheilbrigðisfræðum.
    Tilgangur:
    Að efla rannsóknir og nýsköpun í geðheilsufræðum.
     Ábyrgð:        Landspítali.
     Samstarf:    Heilbrigðisráðuneyti, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Sjúkrahúsið á Akureyri, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, aðrar heilbrigðisstofnanir og geðráð.
     Samfélagsáhrif:    Aukin þekking, sérstaklega á sviði notendamiðaðrar og þverfaglegrar þjónustu.

4.C.1. Að skilgreindir og innleiddir verði gæðavísar og árangursviðmið innan geðheilbrigðisþjónustu.
    Tilgangur:
    Að fylgjast með gæðum og öryggi geðheilbrigðisþjónustunnar og stuðla að því að þessir þættir séu sýnilegir og að viðmið séu til staðar.
     Ábyrgð:        Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands.
     Samstarf:    Heilbrigðisstofnanir og fagfélög sjálfstætt starfandi sérfræðinga, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, geðráð, notenda- og aðstandendasamtök og VIRK.
     Samfélagsáhrif:    Aukið gagnsæi sem eflir traust almennings.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2023.