Ferill 864. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1942  —  864. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um kolefnisgjald.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að kolefnisgjald verði hækkað svo að það verði fjórum til sjö sinnum hærra árið 2030 en reyndin er í dag, líkt og starfshópur ráðherra mælir með í nýrri skýrslu um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála? Ef ekki, hvers vegna ekki?
    Álagning kolefnisgjalds, sem tekið var upp 1. janúar 2010, var liður í áætlun stjórnvalda á þeim tíma um samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum.
    Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024–2028 er fjallað um orkuskiptin og jákvæða þróun þeirra, sem og þær áskoranir sem orkuskiptin hafa í för með sér þegar kemur að tekjum af ökutækjum og eldsneyti. Fyrir liggur að tekjur af ökutækjum og eldsneyti hafa farið dvínandi vegna fjölgunar vistvænna og sparneytinna bíla með tilheyrandi áhrifum á afkomu ríkissjóðs. Vegna þessa stendur til að gera veigamiklar breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Hefur einkum verið horft til þess að nýr grunnur undir tekjuöflun á þessu sviði gæti falist í gjaldtöku eftir notkun ökutækja samkvæmt aflestri á kílómetrastöðu, þ.e. fyrir afnot af vegakerfinu, sem myndi þá að hluta til leysa af hólmi núverandi fyrirkomulag gjaldtöku. Til að tryggja eins góða yfirsýn og hægt er vegna breytinganna hafa fjármála- og efnahagsráðuneytið og innviðaráðuneytið sett á fót sameiginlega verkefnastofu um samgöngugjöld sem hefur verið falið að vinna með ráðuneytunum að mótun tillagna um nýtt tekjuöflunarkerfi í samgöngum til framtíðar. Við skoðunina sem nú stendur yfir er álagning og gjaldstofn kolefnisgjalds til skoðunar samhliða skoðun á öðrum sköttum og gjöldum sem ná til ökutækja og eldsneytis. Við vinnuna er meðal annars horft til þeirra tillagna sem fram koma í skýrslu starfshóps um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála, auk annarra gagna víða að. Í kjölfarið mun liggja fyrir hvort eða að hve miklu leyti þörf er á að hækka kolefnisgjald út frá heildstæðu mati og samspili kolefnisgjalds og annarra gjalda sem lögð eru á ökutæki og eldsneyti.

     2.      Hvert verður kolefnisgjaldið á hverju ári frá 2023 til 2030 samkvæmt núverandi áætlunum stjórnvalda?
    Í fjárlögum ársins 2023 er áætlað að kolefnisgjald verði 7.600 millj. kr. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 er gert ráð fyrir áframhaldandi tekjum af kolefnisgjaldi miðað við núverandi lög nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Jafnframt er gert ráð fyrir viðbótartekjum vegna heildarendurskoðunar skattlagningar á ökutæki og eldsneyti, þar sem m.a. kolefnisgjald verður tekið til skoðunar eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hver samsetning tekjuöflunar verður út frá einstökum tegundum gjalda.
    Að öðru leyti vísast til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.