Ferill 1048. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1949  —  1048. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um samskipti sýslumanns og barnaverndar.

     1.      Hafa starfsmenn barnaverndar, þ.e. stjórnvöld sem fara með barnavernd samkvæmt barnaverndarlögum, lagaheimild til afskipta af afgreiðslu sýslumanns á beiðnum um breytingu á forsjá barns sem hefur verið undir eftirliti barnaverndar og grípa inn í eða stöðva fyrirætlanir foreldris um að færa forsjá barns síns t.d. til náins ættingja? Telur ráðherra að slík framkvæmd sé í samræmi við niðurstöðu Landsréttar í dómi nr. 260/2021?
    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum og umsögn frá Sýslumannaráði vegna fyrirspurnarinnar. Svör við fyrirspurninni byggja á upplýsingum sem Sýslumannaráð aflaði frá fagráði sýslumanna um fjölskyldumál.
    Upplýsingamiðlun milli barnaverndar og sýslumanns kann að vera nauðsynleg og mikilvæg vegna hagsmuna barns. Mikilvægt er að unnið sé í samfellu að hagsmunum barna, sem m.a. birtist í nýlegri lagasetningu um samþættingu þjónustu í þágu barna. Varðandi lagaheimildir barnaverndar samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og framkvæmd barnaverndaryfirvalda með hliðsjón af dómi Landsréttar í máli nr. 260/2021 er bent á að barnaverndarlög og framkvæmd á grundvelli laganna heyra undir mennta- og barnamálaráðherra og því rétt að beina þeim hluta fyrirspurnarinnar til mennta- og barnamálaráðherra.

     2.      Hefur sýslumaður fengið erindi og jafnvel fyrirmæli frá barnavernd um að annaðhvort afgreiða ekki eða tefja afgreiðslu slíkra beiðna á þeim grundvelli að breyting á forsjá sé t.d. ekki í samræmi við áætlun barnaverndar?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumannaráði er ekki vitað til þess að sýslumaður hafi fengið erindi eða fyrirmæli frá barnavernd um að „afgreiða ekki“ eða „tefja afgreiðslu“ í þeim tilvikum sem spurt er um. Barnaverndarþjónusta sé ekki æðra sett stjórnvald gagnvart sýslumanni. Í þessu samhengi er rétt að upplýsa að Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafa borist bréf barnaverndar þar sem óskað var eftir því að sýslumaður leitaði eftir afstöðu barnaverndar áður en afstaða yrði tekin af hálfu sýslumanns til forsjár- eða lögheimilisbreytingar hjá tilteknu barni. Hafi barnavernd gert slíkt með vísan til 20. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, þar sem kemur fram í 1. mgr. að öllum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hafa afskipti af málefnum barna sé skylt að hafa samstarf við barnaverndaryfirvöld.

     3.      Er sýslumanni heimilt samkvæmt lögum að verða við slíkum fyrirmælum barnaverndar?
    Sem fyrr greinir er ekki kunnugt um að barnaverndarþjónusta hafi beint slíkum fyrirmælum til sýslumanns og er vísað til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Þá má geta þess að samningar um forsjá öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns, sbr. 32. gr. a barnalaga, nr. 76/2003. Ber sýslumanni að synja um staðfestingu samnings með úrskurði ef samningurinn er andstæður hag og þörfum barns eða ef hann er andstæður lögum. Eins og fjallað er um í handbók um barnalög varðandi staðfestingu og synjun sýslumanns um staðfestingu samnings er nauðsynlegt að sýslumaður eigi þess kost að rannsaka mál og njóta aðstoðar sérfræðings í málefnum barna eftir atvikum. Hér getur reynt á ákvæði 72. gr. barnalaga um gagnaöflun og rétt sýslumanns til að fá gögn frá öðrum. Þá er gert ráð fyrir að sýslumaður geti beitt ákvæði 74. gr. barnalaga og leitað liðsinnis eða óskað umsagnar sérfræðings áður en samningur er staðfestur. Ætla má að oftast reyni á þetta í þeim tilvikum þegar foreldri felur öðrum en hinu foreldrinu forsjá barns en ákvæðið er þó alls ekki bundið við slíka samninga.
    Sýslumanni er skylt að tryggja að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Ef upplýsingar koma fram um að barnavernd sé með mál barns til umfjöllunar, eða hafi verið með mál þess til umfjöllunar, er tilefni til að kanna það nánar áður en tekin er afstaða til þess hvort samningurinn verði staðfestur eða hvort staðfestingu er synjað með úrskurði. Eins og kemur fram í barnalögum getur sýslumaður synjað um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barns og ber að gera það ef hann er andstæður lögum.

     4.      Er munur á afgreiðslutíma breytinga á forsjá, í málum þar sem forsjá er færð yfir til annars en hins foreldrisins, annars vegar í málum þar sem barnavernd hefur afskipti af umræddu barni og hins vegar í málum þar sem engin slík vinnsla hefur verið hjá barnavernd?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumannaráði er ekki unnt að nálgast upplýsingar í málaskrá sýslumanna um mögulegan mun á afgreiðslutíma í þeim tilvikum sem spurt er um. Hins vegar megi leiða að því getum að þegar forsjá barns er með samningi falin öðrum en foreldri, svo sem heimilað er í 5. mgr. 32. gr. barnalaga, sé algengara að mál barnsins hafi verið til meðferðar hjá barnavernd en að svo hafi ekki verið.
    Þegar upp kemur álitamál um það hvort sýslumaður staðfesti eða synji um staðfestingu á samningi um breytta forsjá, hverjar sem kunna að vera ástæður þess, er samkvæmt upplýsingum frá Sýslumannaráði líklegt að meðferð málsins taki lengri tíma en ella. Þá má einnig taka fram að þegar foreldri sem fer eitt með forsjá gerir samning við annan en foreldri um að taka við forsjá barns ber sýslumanni að leita umsagnar hjá hinu foreldri barnsins. Þegar óskað er staðfestingar sýslumanns á samningi um að annar en foreldri fái forsjá barns er almennt leitað eftir umsögn sérfræðings í málefnum barna á grundvelli 74. gr. barnalaga, þ.e. umsögn um hvort sú forsjárbreyting sem óskað er eftir að hljóti staðfestingu sýslumanns sé ekki í andstöðu við hagsmuni og þarfir barns.