Ferill 1155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2010  —  1155. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hildi Sverrisdóttur Röed og Jóhönnu Lind Elíasdóttur frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Hólmfríði Bjarnadóttur og Lísu Margréti Sigurðardóttir frá innviðaráðuneyti, Björn Þór Hermannsson og Mörtu Guðrúnu Skúladóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Dreng Óla Þorsteinsson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Þóri Ólason, Halldóru Jóhannesdóttur og Öglu Smith frá Tryggingastofnun ríkisins, Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Grím Atlason frá Geðhjálp, Helga Pétursson frá Landssambandi eldri borgara og Kjartan Þór Ingason frá ÖBÍ – réttindasamtökum.
    Nefndinni barst umsögn frá ÖBÍ – réttindasamtökum.
    Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Frumvarpinu er ætlað að milda áhrif aukinnar verðbólgu á lífskjör elli- og örorkulífeyrisþega. Lagðar eru til mótvægisaðgerðir sem fela í sér hækkun á bótum almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar um 2,5% frá 1. júlí nk. Er það viðbót við 7,4% hækkun almannatrygginga sem tók gildi 1. janúar 2023. Samhliða hækkun bóta almannatrygginga er lögð til hækkun á frítekjumörkum húsnæðisbóta. Lagt er til að hækkun frítekjumarkanna verði afturvirk frá 1. janúar sl. svo unnt verði að framkvæma lokauppgjör í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016, um húsnæðisbætur.
    Meiri hlutinn telur frumvarpið fela í sér jákvæð og mikilvæg skref til þess að bregðast við þeirri efnahagsstöðu sem uppi er og telur efni þess til bóta. Að mati meiri hlutans er brýnt að milda áhrif aukinnar verðbólgu á lífskjör elli- og örorkulífeyrisþega.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 7. júní 2023.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Óli Björn Kárason. Guðrún Hafsteinsdóttir.
Jódís Skúladóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.