Ferill 781. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2014  —  781. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um niðurstöður PISA-kannana.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverjar voru niðurstöður PISA-kannana árin 2009–2018 niðurgreindar á hvern grunnskóla:
     1.      í lesskilningi,
     2.      í læsi á stærðfræði,
     3.      í læsi á náttúruvísindi?


    Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar eru notaðar til að fylgjast með, meta og birta stöðu landa í heild til að greina styrkleika og veikleika menntakerfa þátttökulanda. Tilgangur PISA er að draga fram upplýsingar sem gefa heildarmynd af þekkingu og færni nemenda í lesskilningi, læsi í stærðfræði og læsi í náttúruvísindum í þátttökulöndum við lok skólaskyldu og bera saman við önnur lönd. Með því að sameina niðurstöður við svör nemenda og skólastjórnenda við spurningalistum sem lagðir eru fyrir samhliða prófverkefnunum fást upplýsingar um hvað hefur áhrif á nám barna og vellíðan og þá hvernig bæta megi nám og kennslu.
    Framkvæmdin fer þannig fram að nemendur leysa um tveggja klukkustunda verkefnasafn og svara um 40 mínútna spurningalista. Verkefnin fela í sér blöndu spurninga sem snúa að lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði. Spurningalistar fela í sér spurningar sem snúa m.a. að félags- og efnahagslegum bakgrunni nemenda, að námi á fyrra skólastigi, að heilsu, líðan, skólabrag, félags- og tilfinningafærni og viðhorfi nemenda til skólans, auk viðhorfa til stærðfræði. Þá er einnig er verið að kanna stöðu ólíkra hópa nemenda í samanburði við önnur lönd.
    Skipulag og tölfræðileg uppbygging rannsóknarinnar miðar fyrst og fremst að því að veita heildarmynd af stöðu þjóða. PISA-rannsóknin er ekki til þess fallin að veita upplýsingar um frammistöðu fámennra nemendahópa eins og þeirra sem tilheyra einstökum skólum. Þegar nemendur hafa lokið við þátttöku í rannsókninni eru svör allra nemenda dulkóðuð og allar niðurstöður meðhöndlaðar og varðveittar í samræmi við persónuverndarviðmið OECD, PISA-gæðastaðla og reglur. Niðurstöður eru því hvorki birtar eftir skólum né niður á einstaka nemendur. Samkvæmt upplýsingum mennta- og barnamálaráðuneytis geta ríki ekki fengið aðgang að gögnum niðurgreindum á skóla.
    Ástæðan felst í uppbyggingu rannsóknarinnar sem er með þeim hætti að dreift er stóru mengi verkefna á heildarúrtak nemenda í hverju landi til að ná sem best utan um sem flesta ólíka þætti í hæfni þeirra. Þannig geta verkefni einstakra nemenda í PISA komið af ólíkum sviðum, jafnvel innan sama skóla. Niðurstöður fyrir einstaka skóla geta þannig gefið ónákvæma mynd af hæfni og getu nemendahópsins og þróun þeirra yfir tíma. Til að fá slíka mynd verður að nota önnur matstæki en PISA-könnunina.
    Í mennta- og barnamálaráðuneyti er nú unnið að undirbúningi á nýju námsmati í grunnskólum sem hefur vinnuheitið matsferill. Í matsferli verða fjölbreytt verkfæri við námsmat, þ.m.t. skimunarpróf, en gert er ráð fyrir að allir grunnskólar meti námsárangur nemenda sinna í stærðfræði og íslensku, eða íslensku sem öðru tungumáli.