Ferill 891. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2015  —  891. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Viðari Eggertssyni um stöðu grunnnáms í listdansi og rekstrarumhverfi listdansskóla hér á landi.


     1.      Hefur ráðherra haft málefni listdansnáms til skoðunar?
     3.      Stendur til að gera breytingar á reglum um framkvæmd og greiðslufyrirkomulag listdansnáms, þ.m.t. kostnaðarskiptingu grunnnáms í listdansi milli ríkis og sveitarfélaga?
     4.      Hvernig ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að tryggja fjárframlög til listdansnáms á Íslandi?

    Ráðuneytið fer með mál sem varða listaskóla, þar á meðal listdansskóla. Ráðuneytið hefur samið við einstaka listdansskóla um framhaldsnám í listdansi. Þá hefur ráðuneytið veitt rekstrarstyrki vegna grunnnáms listdansskóla sem ætlað er að efla framboð grunnnáms í listdansi sem kennt er samkvæmt aðalnámskrá.
    Með undirritun nýs samnings við Listdansskóla Íslands 21. apríl sl. og með endurnýjun sambærilegra samninga um listdanskennslu á framhaldsskólastigi telur ráðuneytið að nægt fjármagn sé til staðar til að standa undir kostnaði við framhaldsnám í listdansi. Ráðuneytið telur ljóst að sá vandi sem skólar hafa staðið frammi fyrir varðandi rekstur listdansskóla stafi ekki af kostnaði við framhaldsnám í listdansi heldur af kostnaði við grunnnám. Til umræðu er að hefja samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar og kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga, ekki eingöngu hvað varðar listdansnám heldur einnig listnám í almennum skilningi.
    Í því sambandi er rétt að fram komi að ráðherra hefur haft til skoðunar sviðsmyndir sem varða listnám með almennari hætti. Meðal þeirra sviðsmynda er að samþætta framhaldsnám í listum betur við framhaldsskólana, ekki síst ef koma á til móts við þarfir nemenda, m.a. um samfelldan skóladag, og lágmarka ferðir nemenda milli staða þannig að þeir geti stundað listnám sitt á einum stað. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er eitt verkefnanna að auka vægi starfsnáms og er það í takti við þá vinnu ráðherra að skoða stöðu listnáms hér á landi í framhaldsskólakerfinu sem og annarra starfsnámstengdra listgreina.

     2.      Mun ráðherra grípa til aðgerða í ljósi fregna af uppsögnum starfsfólks Listdansskóla Íslands og stöðu listdansnáms í skólakerfinu?
    Undirritaður var samningur við Listdansskóla Íslands 21. apríl sl. sem tryggir rekstur framhaldsnáms við skólann út árið 2023. Stjórn skólans hefur gefið út yfirlýsingu um að þar með sé skólastarf tryggt.