Ferill 813. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2045  —  813. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um Sjómannaskólann við Háteigsveg.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Stendur til að selja bygginguna sem kennd er við Sjómannaskólann og stendur við Háteigsveg?
     2.      Stendur til að ráðstafa byggingunni á annan hátt, svo sem með leigu, eða mun hún áfram verða nýtt til að hýsa kennslustofur Skipstjórnarskólans?
     3.      Mun ráðherra tryggja að Hollvinasamtök Sjómannaskóla Íslands, samtök sjómanna, skipstjórnarmanna og vélstjóra verði höfð með í ráðum um framtíð byggingarinnar?


    Ekki hefur verið tekið ákvörðun um ráðstöfun eða nýtingu fasteignarinnar við Háteigsveg 55 sem kennd er við Sjómannaskólann. Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að nýtt húsnæði fyrir Tækniskólann verði byggt í Hafnarfirði. Tækniskólinn starfar í nokkrum byggingum víða um höfuðborgarsvæðið og er talin brýn þörf á nýju húsnæði fyrir skólann þar sem hægt verði að sameina starfsemina á einum stað í nútímalegu húsnæði sem uppfyllir þarfir skólans og nemenda hans. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir að flytja núverandi starfsemi sem fer fram í húsnæðinu við Háteigsveg í Hafnarfjörð þegar nýtt húsnæði hefur risið. Húsnæði Sjómannaskólans við Háteigsveg er sögufræg bygging með mikið menningar- og sögulegt gildi. Æskilegt er að byggingunni verði fundið verðugt hlutverk í íslensku samfélagi þegar Tækniskólinn hættir þar starfsemi. Miðað er við að samráð verði haft við Minjastofnun og aðra viðeigandi aðila þegar kemur að endanlegri ákvörðun um nýtingu eða ráðstöfun byggingarinnar.