Ferill 953. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2078  —  953. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við breytingartillögu á þingskjali 1966 [Afvopnun o.fl.].

Frá Andrési Inga Jónssyni.


    Við 9. tölul.
     a.      Á undan a-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Orðin „nema með leyfi skv. 6. gr. a vopnalaga nr. 16/1998“ í b-lið 1. tölul. falli brott.
     b.      5. mgr. b-liðar orðist svo:
                      Óheimilt er að flytja hergögn og varnartengdar vörur eins og þær eru skilgreindar í reglugerð skv. 8. mgr. með íslenskum loftförum hvar sem þau eru stödd.

Greinargerð.

    Fyrir fimm árum kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik að undanþáguheimildir til vopnaflutnings með íslenskum flugvélum væru afgreiddar með þeim hætti að t.d. væri ekki gengið fyllilega úr skugga um að vopnin rötuðu ekki á átakasvæði, þvert á alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Í kjölfarið var ferli leyfisveitinga breytt og þær færðar til utanríkisráðuneytisins, sem hefur slegið um þær miklum leyndarhjúpi. Í svari við fyrirspurn á 152. löggjafarþingi (132. mál – þskj. 419) neitaði ráðuneytið að upplýsa um uppruna- og áfangastað þeirra vopna sem sótt var um undanþágu fyrir árin 2019–2021, sem og veita nánari upplýsingar um hvaða hergögn er um að ræða, framleiðanda og magn hergagna. Taldi ráðherra að fjárhags- eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja vegi þar meira en réttur almennings til upplýsinga um það hvort íslenska ríkið væri mögulega að gefa grænt ljós á mannréttindabrot.
    Að öðru leyti vísast til umfjöllunar í nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar á 152. löggjafarþingi (186. mál – þskj. 1290). Þar var lagt til hið sama og í þessari breytingartillögu: að heimild stjórnvalda til að veita undanþágu frá banni á flutningi hergagna með íslenskum loftförum verði numin úr gildi. Í ljósi þeirrar leyndar sem hvílir yfir framkvæmdinni, auk hinnar slæmu forsögu leyfisveitinga sem lýst er að framan, kalla varúðarsjónarmið á að þessi möguleiki verði ekki til staðar.