Ferill 952. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2097  —  952. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um tekjuskatt (eftirlitsheimildir, endurgreiðsla og séreignarsparnaður).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til þrjár aðgerðir. Sú fyrsta lýtur að því að bæta skil á virðisaukaskattsskýrslum og bæta eftirlit með þeim sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá. Önnur aðgerðin er lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Þriðja aðgerðin er framlenging á skattfrjálsri ráðstöfun viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar til að afla íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Eftirlitsheimildir ríkisskattstjóra.
    Fyrsti minni hluti styður fyrirhugaðar breytingar sem miða að því að efla eftirlit með greiðslu virðisaukaskatts. Það er viðvarandi verkefni löggjafans að tryggja stjórnvöldum þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að hafa eftirlit með skattskilum einstaklinga og fyrirtækja. Það er gömul saga og ný að óprúttnir aðilar nýta hverja einustu glufu til að svíkja undan skatti. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmið breytinganna sé að koma í veg fyrir að aðilar skili ekki innheimtum virðisaukaskatti í ríkissjóð og jafnframt tekið fram að dæmi eru um aðila sem stunda slíkt af ásetningi. Í þessu samhengi minnir 1. minni hluti á fléttu bandarískra glæpasamtaka á níunda áratug síðustu aldar. Michael Franzese skipulagði þar fléttu sem leiddi til þess að hann og aðrir fengu greiddar frá ríkinu umtalsverðar fjárhæðir, vegna endurgreiðslu skatts, en um var að ræða endurgreiðslu á söluskatti vegna sýndarviðskipta. Svo mikil voru umsvifin að sagt er að þessi eina flétta hafi kostað New York ríki 250 milljónir dollara. Mikið hefur verið rætt um vaxandi umfang skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi undanfarin ár og því fagnar 1. minni hluti að hér sé lögð til lagabreyting sem miðar að því að koma í veg fyrir skattsvik með skipulögðum hætti.

Lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts – illa ígrundað úrræði.
    Í frumvarpinu er lagt til að endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis verði lækkaðar. Hlutfallið lækki úr 60% í 35%. Umrædd aðgerð er ein þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin tilgreindi við framlagningu fjármálaáætlunar sem viðbragðsaðgerðir gegn verðbólgunni.
    Að mati 1. minni hluta er það alls kostar óvíst að lækkun endurgreiðsluhlutfallsins sé til þess fallin að vinna gegn verðbólgu. Þótt aukin skattheimta geti unnið gegn verðbólgu með því að draga úr ráðstöfunartekjum sem ella færu í neyslu þá verður að gæta þess að skattahækkanir leiði ekki til samsvarandi verðhækkana. Hér er ekki verið að hækka skatta á neyslu, heldur uppbyggingu íbúða. Það kemur ekkert í veg fyrir að byggingarfyrirtæki velti þessum skattahækkunum beint út í verðlagið með því að selja nýbyggðar íbúðir á hærra verði. Þá getur hækkunin einnig dregið úr uppbyggingu íbúða. Samdráttur í framleiðslu leiðir svo að sjálfsögðu til verðhækkana.
    Umsagnaraðilar hafa gagnrýnt aðgerðina og segja hana missa marks. Samtök iðnaðarins telja að lækkun endurgreiðsluhlutfallsins sé til þess fallin að draga úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Kostnaður við húsbyggingar mun einnig hækka. Þessi áhrif munu síðan leiða til hækkunar á fasteignaverði og þar af leiðandi aukinnar verðbólgu. Þá vinni aðgerðin bókstaflega gegn markmiðum stjórnvalda um uppbyggingu 35 þúsund íbúða næsta áratuginn. Í umsögn ASÍ um fjármálaáætlun segja samtökin að þessi áform séu varhugaverð við núverandi aðstæður. Svo segir: „Hætta er á að áformin geti haft neikvæð áhrif á framboð húsnæðis á næstu árum. Áhrifin eru sérstaklega neikvæð á uppbyggingu óhagnaðardrifinna íbúða. Bjarg Íbúðafélag metur að breytingar verði til þess að hækka byggingakostnað um 10–15 þúsund krónur á hvern fermeter. Áhrifin koma fram í hærra leiguverði.“
    Fyrsti minni hluti telur að ríkisstjórnin þurfi að axla meiri ábyrgð þegar kemur að baráttunni við verðbólguna, ekki síst til að vernda lágtekjufólk, leigjendur og lífeyrisþega. Það er með öllu óskiljanlegt að eina aðgerðin sem ríkisstjórnin leggur til að hefjist strax í sumar sé aðgerð sem mun að öllum líkindum leiða til hækkunar fasteignaverðs og draga úr uppbyggingu íbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda aðgerða sem eru betur til þess fallnar að slá á verðbólguna. Tillögur flokksins lúta að því að hækka bankaskattinn aftur í fyrra horf, hækka veiðigjöld, koma á leigubremsu, draga úr samþjöppun íbúða á fárra hendur, banna verðtryggð fasteignalán til neytenda og fjarlægja húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið vel í hugmyndir Flokks fólksins og lokar bæði augum og eyrum þegar vaxtahækkanir eru tilkynntar. Það er merki um óstjórn að þessi aðgerð sé sú eina sem ríkisstjórnarflokkarnir gátu komið sér saman um í baráttunni við verðbólguna, aðgerð sem beinlínis leiðir til verðhækkana. Þvert á móti ætti að hækka niðurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna uppbyggingar á húsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Því leggur 1. minni hluti til breytingu sem tryggir óbreytt endurgreiðsluhlutfall, en eykur endurgreiðslur vegna uppbyggingar almennra íbúða í 75%.

Ráðstöfun séreignar til íbúðarkaupa og niðurgreiðslu fasteignalána.
    Í frumvarpinu er lögð til framlenging á „tímabundnu úrræði“. Nú stendur til að framlengja heimild til nýtingar á séreignarsparnaði til öflunar íbúðarhúsnæðis í þriðja skiptið. Þetta „tímabundna úrræði“ var fyrst lögfest árið 2014 til þriggja ára. Síðan þá hefur úrræðið verið framlengt þrívegis, í hvert skipti um tvö ár. Verði frumvarpið samþykkt mun „tímabundna úrræðið“ eiga tíu ára afmæli hinn 16. maí 2024.
    Að mati 1. minni hluta hefði aldrei átt að grípa til þess að neyða landsmenn til að nýta eigin lífeyrissparnað á þessa vegu. Með því var vandanum í raun slegið á frest að ákveðnu leyti. Enda hefur það sýnt sig að úrræðið leysti ekki þann vanda sem fólst í gífurlegum vaxta- og verðbótakostnaði venjulegra heimila. Færa má rök fyrir því að það aukna fjármagn sem úrræðið veitti aðgang að hafi ekki skilað neinum raunverulegum ávinningi, heldur leitt til hækkana á íbúðaverði. Framboð á húsnæði hélt ekki í við eftirspurn og því þorðu stjórnvöld ekki annað en að viðhalda úrræðinu. Ella hefði þjóðin áttað sig á því hversu galin húsnæðisstefnan er í þessu landi og krafist raunverulegra breytinga.
    Þá er vert að minna á hvernig úrræðið hefur skilað sér til þjóðarinnar. Samkvæmt skýrslu starfshóps um húsnæðisstuðning tilheyrðu 80% þeirra sem nýttu séreignarsparnað til inngreiðslu á húsnæðislán efstu þremur tekjutíundum samfélagsins. Tekjulægri helmingur samfélagsins getur ekki nýtt sér þetta úrræði af margvíslegum ástæðum. Aðeins 7% þeirra sem hafa nýtt greiðslu séreignarsparnaðar inn á höfuðstól lána tilheyrðu fimm tekjulægstu tekjutíundum samfélagsins. Úrræðið auðveldar því aðeins þeim sem hafa góðar tekjur fyrir að greiða niður höfuðstól húsnæðislána en gerir lítið sem ekkert fyrir þá sem hafa minni tekjur.
Ef ríkisstjórnin vill fara í alvöruaðgerðir til að koma í veg fyrir að þúsundir fjölskyldna missi heimili sín til bankanna á næstu misserum þá þarf að ráðast að rót vandans. Þessi aðgerð er ekkert annað en gálgafrestur. Fjölskylda sem fullnýtir úrræðið nær kannski að minnka greiðslubyrði sína um 5–10 þúsund krónur á mánuði. Á sama tíma hafa vaxtahækkanir aukið greiðslubyrðina um mörg hundruð þúsund krónur. Úrræðið hefur því lítil sem engin áhrif á greiðsluvanda heimilanna.
    Fyrsti minni hluti leggur til eftirfarandi

BREYTINGU:


    5. gr. orðist svo:
    Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir 1. málsl. skal endurgreiða byggjendum almennra íbúða, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 52/2016, 75% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað.

Alþingi, 8. júní 2023.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.