Ferill 902. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2163  —  902. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um fjölda starfandi sjúkraliða og starfsmannaveltu.


     1.      Hefur verið gerð greining á orsökum þess að starfsmannavelta hjá starfandi sjúkraliðum innan Landspítala er umtalsvert meiri en hjá starfandi hjúkrunarfræðingum? Ef ekki, telur ráðherra ástæðu til að hefja slíka vinnu?
    Heilbrigðisráðuneytið óskaði svara frá Landspítala er varðar fyrri hluta 1. tölul. fyrirspurnarinnar og í svari Landspítalans kom m.a. fram að þar eru gerðar umfangsmiklar greiningar á starfsmannaveltu og starfslokum sem og á þróun stöðugilda og samsetningu allra stétta og starfshópa á hverjum tíma. Í svari spítalans kom fram að til þess að svara endanlega um ástæðu breytileika á starfsmannaveltu á milli hópa þyrfti hins vegar að framkvæma ítarlegri starfslokaviðtöl en hafa verið gerð hingað til á Landspítala.
    Þá dró Landspítalinn fram nokkrar niðurstöður og athuganir um starfsmannaveltu og breytileika á milli sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Þar kemur fram að starfsmannavelta sjúkraliða var 15,5% árið 2022 á meðan starfsmannavelta hjúkrunarfræðinga var 11,6% sama ár. Munurinn á milli þessara tveggja starfsstétta hefur farið vaxandi frá 2018 en þá var hann um 1,5 prósentustig. Sjá nánar á eftirfarandi mynd:
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fyrir þessum mun segir Landspítalinn engar augljósar ástæður en sjá megi í gögnum spítalans að hlutfall starfsmanna í elstu hópunum er hærra hjá sjúkraliðum en hjá hjúkrunarfræðingum og það hafi vissulega áhrif.
    Hlutfall starfsmanna á Landspítala sem eru 50 ára eða eldri er 54% hjá sjúkraliðum en 40% hjá hjúkrunarfræðingum. Ef horft er til 60 ára eða eldri er hlutfallið 42% hjá sjúkraliðum en 29% hjá hjúkrunarfræðingum. Spítalinn telur þetta skýra starfsmannaveltuna að hluta til þar sem t.d. meðalaldur þessara tveggja hópa er ekki svo frábrugðinn, eða um 45 ár hjá hjúkrunarfræðingum en 48 ár hjá sjúkraliðum. Þá bendir spítalinn á að hlutfall sjúkraliða í vaktavinnu er um fjórðungi hærra en hjá hjúkrunarfræðingum og meðalstarfshlutfall lægra en hjá hjúkrunarfræðingum, 70% á móti 79% í upphafi árs 2023, og að fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða starfandi á Landspítala hefur þróast með mismunandi hætti. Á sl. fimm árum hefur hjúkrunarfræðingum fjölgað en sjúkraliðum fækkað. Frá árinu 2015 til 2022 fjölgaði starfandi hjúkrunarfræðingum (fjöldi einstaklinga) að meðaltali um 2,0% á ári á meðan sjúkraliðum fækkaði um 0,2% að meðaltali á ári. Sjá eftirfarandi mynd:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eftirfarandi kemur m.a. fram í svörum Landspítalans: Meðalaldur við starfslok hefur farið lækkandi hjá sjúkraliðum undanfarin ár. Hann var 47 ár árið 2018 en er 43 ár árið 2022. Á sama tíma hefur meðalaldur við starfslok hækkað hjá hjúkrunarfræðingum, farið úr 44 árum í 46 á sama tímabili. Lækkandi meðalaldur við starfslok leiðir til styttri starfstíma yfirleitt og hærri starfsmannaveltu. Stétt sjúkraliða á Landspítala er almennt eldri en stétt hjúkrunarfræðinga, þetta er líklegast skýring hærra hlutfalls starfsloka og meiri starfsmannaveltu ásamt því að þeir eru líklegri til að vinna í lægra starfshlutfalli og vera í vaktavinnu á legudeildum. Munur á aldurssamsetningu sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga er að tæpur helmingur hjúkrunarfræðinga er á aldrinum 30–49 ára á meðan 32% sjúkraliða eru á því aldursbili (55% sjúkraliða eru á aldrinum 50–69 ára). Landspítalinn telur að svo virðist sem nýútskrifaðir sjúkraliðar noti í auknum mæli sjúkraliðanám sem grunn að frekara námi í öðrum starfsgreinum og geri starf sjúkraliða ekki að sínu ævistarfi.
    Þá segist Framkvæmdastjórn Landspítala hafa áhyggjur af skorti á sjúkraliðum. Til þess að efla sjúkraliða í starfi er t.d. boðið upp á sérstök starfsþróunarnámskeið fyrir sjúkraliða innan spítalans sem koma til viðbótar við námskeið sem boðið er upp á hjá Framvegis. Framkvæmdastjórn Landspítala samþykkti árið 2019 tilraunaverkefni þar sem ófaglærðu starfsfólki í umönnun bjóðast námsleyfisdagar til að ljúka sjúkraliðanámi í sjúkraliðabrú. Einn hópur hefur nú útskrifast og er annar í námi. Verkefnið var skipulagt af framkvæmdastjóra hjúkrunar, Sjúkraliðafélagi Íslands og Fjölbrautaskólanum við Ármúla.
    Ráðherra telur að sú greiningarvinna sem gerð er hjá Landspítalanum fullnægi þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru varðandi þróun starfsmannaveltu innan spítalans.
    Ráðuneytið fylgist vel með þessari þróun og hyggst gera sérstaka úttekt á störfum sjúkraliða innan spítalans með ítarlegum starfslokaviðtölum ef tilefni er til. Eins og kemur fram hér að framan bendir Landspítalinn á að slíkt þyrfti að gera ef ætti að svara endanlega um ástæðu breytileika á starfsmannaveltu milli hópa. Slík könnun þyrfti að skýra frekar ástæður þess að sjúkraliðar hætta og þá sérstaklega þeir sem hætta vegna annarra þátta en aldurs. En benda má á að þróunin milli áranna 2021–2022 er sú að starfsmannavelta hefur minnkað hjá sjúkraliðum á Landspítala eins og fram kemur á myndinni Starfsmannavelta hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða við LSH 2018–2022.

     2.      Telur ráðherra að kjör sjúkraliða, álag eða vinnuaðstæður séu skýring þess hversu illa hinu opinbera gengur að halda í sjúkraliða?
    Þó að starfsmannavelta sjúkraliða á Landspítala sé meiri en hjá hjúkrunarfræðingum þá er hún hins vegar á pari við starfsmannaveltu á Landspítala í heild sinni. Starfsmannavelta á Landspítala var 15,5% á árinu 2022 og lækkaði um 1,9% frá árinu 2021. Starfsmannavelta Landspítala er lág í alþjóðlegum samanburði.
    Ýmsir þættir, eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, geta skýrt hvers vegna starfsmannavelta hjúkrunarfræðinga er minni en hjá sjúkraliðum.
    Starfsumhverfi, álag, kjör, möguleikar til starfsþróunar og fleira eru hluti af þeim ýmsu áhrifaþáttum sem þar geta haft áhrif.
    Innan heilbrigðisráðuneytisins er horft til og unnið að þeim þáttum sem undir ráðuneytið heyra og geta haft áhrif á mönnun sjúkraliða og annarra heilbrigðisstétta um allt land, eins og starfsumhverfi, endurnýjun tækja, nýsköpun, tæknivæðingu og eflingu fjarheilbrigðisþjónustu, auk ýmissa þátta sem snúa að menntun heilbrigðisstarfsmanna.
    Landsráð um menntun og mönnun var stofnað í maí 2021. Hlutverk þess er að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana ráðherra á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur á þessu sviði þvert á menntastofnanir, fagfélög, sjúklingasamtök og aðra hagsmunaaðila. Stofnun landsráðs um mönnun og menntun er mikilvægur liður í því að tryggja að nægur fjöldi hæfs starfsfólks verði starfandi innan heilbrigðisþjónustunnar til framtíðar og menntun fullnægi þörfum hverju sinni. Frá stofnun landsráðs um mönnun og menntun heilbrigðisstétta hefur ráðið bæði skoðað mönnun einstakra heilbrigðisstétta um land allt og auk þess unnið að stærri tillögum til lengri tíma sem snerta mönnun um allt land til framtíðar.
    Skipulag og starfsemi hverrar stofnunar eða einingar hefur einnig áhrif á mönnunarþarfir en það er ekki eitt algilt hlutfall sem á að vera á mönnun milli heilbrigðisstétta og mönnun hverrar heilbrigðisstéttar fyrir sig hefur áhrif á þann fjölda sem er nauðsynlegur í hinni stéttinni. Þó er rétt að benda á að samkvæmt McKinsey-skýrslunni frá 2021 um framtíðarþróun þjónustu Landspítala kemur fram að hlutfall hjúkrunarfræðinga á hvern sjúkraliða er mun hærra á Íslandi en í samanburðarlöndunum og þar er bent á tækifæri Landspítala til að létta álagi á m.a. hjúkrunarfræðingum með því að fjölga stöðugildum sjúkraliða.
    Það er hlutverk hverrar stofnunar fyrir sig að tryggja að hæfni, menntun og reynsla hverrar starfsstéttar nýtist sem best og stuðla að teymisvinnu allra fagstétta. Starfsaðstæður, menntun og mönnun allra heilbrigðisstétta skiptir því miklu máli í heildarsamhenginu.
    Sú uppbygging sem nú er í gangi við nýjan Landspítala er mikilvægur þáttur í því að uppfylla nútímakröfur til heilbrigðisþjónustu og gera það eftirsóknarvert að starfa við spítalann með tilliti til starfsaðstæðna.
    Veruleg uppbygging hefur líka verið í gangi innan heilsugæslunnar til að bæta starfsaðstæður og möguleika til að veita sem besta þjónustu. Má þar m.a. nefna að heilsugæsla í Mosfellsbæ og heilsugæslan á Kirkjusandi fluttu í nýtt húsnæði ekki alls fyrir löngu, verið er að opna tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri og eina á Suðurnesjum og heilsugæslan í Hlíðum flytur í nýtt húsnæði bráðlega.
    Í ráðuneytinu er auk þess til skoðunar verkaskipting heilbrigðisstétta með það að markmiði að hver heilbrigðisstarfsmaður vinni sem mest störf þar sem hæfni, menntun og reynsla nýtast sem best.

     3.      Hversu hátt hlutfall sjúkraliða á Íslandi starfar nú utan heilbrigðiskerfisins? Hefur þetta hlutfall haldist óbreytt, hækkað eða lækkað á liðnum árum?
    Upplýsingar um það hversu hátt hlutfall sjúkraliða starfar nú utan heilbrigðiskerfisins liggja ekki fyrir, hvorki hjá ráðuneytinu né Sjúkraliðafélagi Íslands. Í gegnum tíðina hefur verið töluvert um það að sjúkraliðar bæti við sig námi og þá oft öðru heilbrigðistengdu námi og vinni því áfram innan heilbrigðiskerfisins. Ráðuneytið sendi fyrirspurn bæði til Sjúkraliðafélags Íslands og embættis landlæknis og fékk eftirfarandi upplýsingar:

Fjöldi félagsmanna Sjúkraliðafélags Íslands síðustu 5 ár.

Karlar Konur Samtals
2018 57 2.020 2.077
2019 61 2.049 2.110
2020 66 2.104 2.170
2021 71 2.135 2.206
2022 72 2.200 2.272

Fjöldi sjúkraliða með gilt starfsleyfi og fjöldi sjúkraliða með fleiri en eitt starfsleyfi í árslok viðkomandi ára. Búsettir á Íslandi og aldur 70 og yngri, upplýsingar fengnar frá embætti landlæknis.

Ár 2018 2019 2020 2021 2022
Fjöldi sjúkraliða með gilt starfsleyfi í árslok 4005 4009 4033 4042 4081
Fjöldi sjúkraliða með fleiri en eitt starfsleyfi í árslok 799 825 848 875 900
Hlutfall sjúkraliða með fleiri en eitt starfsleyfi í árslok 20,0% 20,6% 21,0% 21,6% 22,1%

    Þessar upplýsingar styðja það að sjúkraliðar bæta gjarnan við sig öðru heilbrigðistengdu námi og síðustu fimm ár hefur það verið þannig að 20–22% þeirra eru með fleiri en eitt starfsleyfi samkvæmt tölum embættis landlæknis. Það er jákvætt að sjá að nám sjúkraliða nýtist vel og að hluti þeirra sem ekki eru starfandi sem sjúkraliðar eru að líkindum starfandi við annað innan heilbrigðiskerfisins.

     4.      Hyggst ráðherra bregðast við fyrirséðri þörf fyrir starfandi sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins í ljósi þess að meðalaldur starfandi sjúkraliða er um 48 ár sem stendur og um 40% sjúkraliða eru að nálgast starfslokaaldur? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar er nú unnið að ýmsum þáttum í heilbrigðisráðuneytinu vegna núverandi og fyrirséðs skorts á sjúkraliðum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.
    Að frumkvæði ráðherra er unnið að umfangsmikilli mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið sem hjálpar ráðuneytinu við að kortleggja mönnunina núna og þörfina til framtíðar. Nálgunin miðast við að móta framtíðarsýn yfir gögn og greiningar sem heilbrigðisráðuneytið og undirstofnanir þess þurfa að búa yfir til að ná yfirsýn yfir mönnun heilbrigðisstétta og nýta upplýsingarnar til markvissra aðgerða.
    Mikilvægt er að starfsvettvangur sjúkraliða sé kynntur sem eftirsóknarverður og að tryggja framgang sjúkraliða í starfi. Einn þáttur í því er að nægt framboð sé á sí- og endurmenntun. Sjúkraliðanám er 206 eininga nám á 3. hæfniþrepi og er kennt í framhaldsskólum. Haustið 2022 var námið í boði í tíu framhaldsskólum um allt land og alls voru þá 594 skráðir nemendur. Það má því segja að aðgengi að náminu sé gott og auk þess er boðið upp á sjúkraliðabrú til starfsréttinda sjúkraliða. Hún er ætluð fólki sem óskar eftir að fá metna starfsreynslu og óformlegt nám á hjúkrunar- og umönnunarsviði til styttingar á námi á sjúkraliðabraut.
    Í 1. tölul. fyrirspurnarinnar nefnir Landspítalinn þær aðgerðir sem spítalinn hefur farið í til að efla sjúkraliða í starfi, t.d. starfsþróunarnámskeið og tilraunaverkefni sem spítalinn fór í með því að bjóða ófaglærðu starfsfólki í umönnun námsleyfisdaga til að ljúka sjúkraliðanámi í sjúkraliðabrú.
    Fagháskólanám til diplómaprófs fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri hófst 2021 og er klárlega ein leið til að efla framgang sjúkraliða í starfi, gera þeim kleift að takast á við ábyrgðarmeiri störf og gera starfið eftirsóknarverðara. Enda sóttu mun fleiri um en komust að vegna fjöldatakmarkana þegar námið hófst. Tvö kjörsvið standa nú til boða í þessu framhaldsnámi fyrir sjúkraliða, þ.e. í öldrunar- og heimahjúkrun annars vegar og samfélagsgeðhjúkrun hins vegar en á þeim vettvangi hefur verið skortur á faglærðu heilbrigðisstarfsfólki til langs tíma. Fyrstu 20 nemendurnir brautskrást úr öldrunar- og heimahjúkrun í júní næstkomandi. Áður var framhaldsnám fyrir sjúkraliða við Fjölbrautaskólann í Ármúla en síðast var útskrifað úr framhaldsnámi þaðan í desember 2017 og því má ætla að það hafi verið orðin nokkuð uppsöfnuð þörf. Frá og með næsta hausti verður fjöldi þeirra sem komast að í námið á hverjum vetri við Háskólann á Akureyri aukinn um 20 nemendur sem skiptist þannig að það verða 20 nemendur á hvoru kjörsviði, eða 40 nemendur samtals.

     5.      Liggur fyrir sjálfstætt, tölulegt mat af hálfu ráðuneytisins á því hversu marga starfandi sjúkraliða þörf er fyrir hér á landi nú, á næstu árum og áratugum?
    Tölulegt mat á mönnunarþörf sjúkraliða til framtíðar er háð mörgum óvissuþáttum, m.a. þarf að taka tillit til breyttrar aldurssamsetningar samfélagsins, mannfjöldaþróunar, fjármagns, verkefnis hverrar stofnunar og skipulags vinnunnar. Það er ljóst að örar samfélagsbreytingar krefjast skjótra viðbragða en menntun og fjölgun sjúkraliða krefst tíma og er sú greiningarvinna sem fer fram í heilbrigðisráðuneytinu sem sagt er frá í 4. tölul. til þess fallin að flýta því að brugðist verði við breytingum og þörfum samfélagsins á heilbrigðisstarfsfólki.

     6.      Telur ráðherra að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið til að taka móti þeim sjúkraliðum sem lokið hafa námi á fagháskólastigi?
    Já, ráðherra telur heilbrigðiskerfið sé vel í stakk búið til að taka á móti þeim sjúkraliðum sem lokið hafa fagháskólanámi.
    Unnið er að því innan ráðuneytisins að það verði tryggt að starfskraftar þessara faglærðu sjúkraliða nýtist sem skyldi og má þar benda á drög að reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 241/2004 um val, geymslu og meðferð lyfja á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum sem birt var til umsagnar í Samráðsgátt 3.2.2023 – 7.3.2023, en breytingartillögurnar fela í sér að heilbrigðisstarfsmenn, til viðbótar við hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, sem koma að lyfjameðferð sjúklings á heilbrigðisstofnun og uppfylla náms- og þjálfunarkröfur sem embætti landlæknis setur, megi taka til lyf úr lyfjageymslu, sinna lyfjatiltekt og skammta sjúklingi lyf. Auk þess er nú til skoðunar í ráðuneytinu beiðni Sjúkraliðafélags Íslands um að veita sérfræðileyfi fyrir sjúkraliða sem hafa lokið fagnámi til diplómaprófs á háskólastigi.