Ferill 1138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2182  —  1138. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni um framkvæmdir í Gufudalssveit.


     1.      Hvenær er áætlað að útboð vegna vegaframkvæmda í Gufudalssveit, nánar tiltekið þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar, fari fram?
    Framkvæmdir við Vestfjarðaveg um Gufudalssveit hófust haustið 2020 með endurbótum á Vestfjarðavegi frá Gufudalsá að Skálanesi og lauk þeim árið 2021. Árið 2021 voru boðnir út tveir verkáfangar, annars vegar þverun Þorskafjarðar frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum, og hins vegar Djúpadalsvegur. Verklok við þverun Þorskafjarðar eru áætluð í júní 2024 samkvæmt verksamningi.
    Í upphafi árs 2022 var boðinn út 10,4 km kafli frá Þórisstöðum að Hallsteinsnesi og eru áætluð verklok í október 2023.
    Áætlað er að framkvæmdir við þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar verði boðnar út í tveimur til þremur útboðsáföngum. Útboð fyrsta áfanga fer fram haustið 2023 og útboð síðari áfanga til að ljúka verkefninu haustið 2024.

     2.      Hvenær er áætlað að framkvæmdir vegna þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar hefjist?
    Ef áætlanir varðandi útboð á þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar ganga eftir gætu framkvæmdir hafist síðari hluta árs 2023.