Ferill 1113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2212  —  1113. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um afeitrun vegna áfengismeðferðar.


     1.      Styðja gagnreyndar rannsóknir tíu daga afeitrunarmeðferð fólks með fíknisjúkdóma sem innritast inn á Sjúkrahúsið Vogi?
     2.      Er tíu daga afeitrunarmeðferðin stöðluð með þeim hætti að öll sem leita slíkrar heilbrigðisþjónustu hljóti sömu meðferð?
     3.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að afeitrunarmeðferð vegna fíknisjúkdóma verði einstaklingsmiðaðri svo að stuðla megi að bættri nýtingu sjúkrarýma á sjúkrahúsinu Vogi?

    Ef einstaklingur leggst inn á sjúkrahús í því skyni að stöðva neyslu vímugjafa þarfnast sá hinn sami oft fráhvarfsmeðferðar sem er læknisfræðilegt inngrip er byggist á gagnreyndri þekkingu og klínískum leiðbeiningum. Slíkt inngrip er einstaklingsmiðað og er markmið fráhvarfsmeðferðar að hjálpa viðkomandi að ná líkamlegu jafnvægi. Tímalengd fráhvarfsmeðferðar tekur mið af þörfum hvers og eins.

     4.      Hver er kostnaður Sjúkratrygginga Íslands á hvern sjúkling af 8., 9. og 10. degi afeitrunarmeðferðar?
    Ef miðað er við fjölda legudaga árið 2022 var meðalgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands vegna innlagnar á Sjúkrahúsið Vog 55.474 kr. á legudag og meðalgreiðslur fyrir einstakling um 622.592 kr. á árinu 2022.

     5.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að vinna markvisst að því að fækka innlögnum og auka göngudeildar- og lágþröskuldaþjónustu fyrir fólk með fíknivanda?
    Heilbrigðisráðherra telur mikilvægt að heilbrigðisþjónusta fyrir fólk með fíknivanda sé stigskipt eins og önnur heilbrigðisþjónusta. Mikilvægt er að þróa heildstætt þjónustuframboð á fyrsta, öðru og þriðja stigi heilbrigðisþjónustu þar sem byggt er á gagnreyndri þekkingu og áhersla er lögð á samvinnu og samfellu í heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum notenda á hverjum tíma. Aukið aðgengi að göngudeildarþjónustu og þróun lágþröskuldaþjónustu eru mikilvægir þættir slíks heildstæðs þjónustuframboðs við meðferð og endurhæfingu vegna neyslu- og fíknivanda.