Ferill 1186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2216  —  1186. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um samband rannsóknastofnana og ráðuneyta.


     1.      Hvaða rannsóknastofnanir innan veggja háskóla eru styrktar með reglulegum fjárframlögum frá ráðuneytum? Óskað er upplýsinga um ráðuneyti, stofnanir, upphæðir og hvaða skilyrðum fjárframlög eru bundin. Enn fremur er þess óskað að fram komi hvort viðkomandi samningar komi fram á yfirliti í fylgiriti með fjárlögum.
    Fyrirspurnin var send til umsagnar opinberra háskóla. Í svari frá Háskóla Íslands kemur eftirfarandi fram um stofnanir Háskóla Íslands:
Ráðuneyti Upphæð Stofnun Lýsing Verkefni Viðfang
Dómsmálaráðuneyti 11.900.000 Rannsóknamiðstöð í jarðskjálftafræði Framlag 2022 Aflfræðistofa, alm. útgjöld 09-10 Löggæsla sérmerkt
Forsætisráðuneyti 10.000.000 Vigdísarstofnun Varanlegt framlag, Vigdísarsýning Vigdísarsýning
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti 88.500.000 Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands Árlegur styrkur Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands 02-299
Mennta- og barnamálaráðuneyti 14.550.000 Menntavísindastofnun Framlag 2022 til æskulýðsrannsókna MVST – Íslenskar æskulýðsrannsóknir 02-999 Ýmislegt
Menningar- og viðskiptaráðuneyti 30.000.000 Málvísindastofnun Styrkur vegna máltækni Máltækni – Styrkir Sérstakt átak stjórnvalda
Menningar- og viðskiptaráðuneyti 18.200.000 Vigdísarstofnun Varanlegt rekstrarframlag Framlag ríkisstjórnar til stöðugilda og Vigdísarsýningar (2022–)
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti 2.700.000 Hafréttarstofnun Íslands Styrkur Hafréttarstofnun Íslands 14-982 Ýmis framlög
Utanríkisráðuneyti 6.000.000 Alþjóðamálastofnun Vegna samstarfssamnings milli utanríkisráðuneytis og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands fyrir árið 2022 Alþjóðamálastofnun
Utanríkisráðuneyti 8.900.000 Hafréttarstofnun Íslands Styrkur, Hafréttarstofnun Íslands Hafréttarstofnun Íslands 03-190 Ýmis verkefni

     2.      Hvaða rannsóknastofnunum innan veggja háskóla eru ráðuneyti aðilar að, t.d. með aðild að stjórn viðkomandi stofnunar? Óskað er upplýsinga um ráðuneyti, stofnanir og hvers eðlis samband ráðuneytis og stofnunar er.
    Þórunn Sigurðardóttir er tilnefndur fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytis í stjórn Vigdísarstofnunar.
    Að Hafréttarstofnun Íslands standa auk Háskóla Íslands utanríkisráðuneytið og matvælaráðuneytið. Anna Jóhannsdóttir og Birgir Hrafn Búason sitja í stjórninni af hálfu utanríkisráðuneytisins. Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir og Agnar Bragi Bragason sitja í stjórninni af hálfu matvælaráðuneytisins.
    Í stjórn Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands situr Sveinn H. Guðmarsson af hálfu utanríkisráðuneytisins.

     3.      Ef upplýsingar sem spurt er um í 1. og 2. tölul. liggja ekki fyrir, hver er afstaða ráðherra til þess að safna slíkum upplýsingum miðlægt innan Stjórnarráðsins?
    Afstaða ráðherra er að best fari á því að háskólar geri sjálfir grein fyrir slíkum upplýsingum á vefjum viðkomandi háskóladeilda og stofnana. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við lögbundið sjálfstæði háskóla og þörf fyrir tíðar uppfærslur slíkra upplýsinga.

     4.      Hvaða reglur gilda um fjárhagslega styrki eða beina aðild ráðuneyta að rannsóknastofnunum innan háskóla? Ef slíkar reglur eru ekki til, telur ráðherra ástæðu til að setja þær?
    Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, er heimilt að starfrækja sérstakar háskólastofnanir við skóla og deildir innan opinberra háskóla en skipulagseiningar opinberra háskóla eru skólar og deildir, háskólastofnanir sem heyra undir háskólaráð samkvæmt ákvörðun þess, háskólastofnanir sem heyra undir skóla eða deildir samkvæmt ákvörðun skólaráðs, og háskólastofnanir sem starfa á grundvelli sérlaga.
    Jafnframt er heimilt að setja á stofn rannsóknastofur samkvæmt ákvörðun skólaráðs og samkvæmt nánari reglum sem háskólaráð opinbers háskóla setur.
    Í bókhaldi opinberra háskóla eins og t.d. Háskóla Íslands er ekki gerður greinarmunur á fjárreiðum háskóla- og rannsóknastofnana sem heyra undir háskólann og fjárreiðum Háskóla Íslands. Eftir nýlegar breytingar á fjármögnun Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands eru fjárveitingar til stofnunarinnar á sama fjárlaganúmeri og sömu kennitölu og Háskóli Íslands. Sama á við um aðrar stofnanir háskólans eins og t.d. Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands sem er rekin á sömu kennitölu og Háskóli Íslands. Að þessu leyti lúta fjárframlög til háskóla- og rannsóknastofnana opinberra háskóla sömu lögmálum og fjárveitingar til opinberra háskóla á grundvelli laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og reglum fjármála- og efnahagsráðherra settum samkvæmt þeim.
    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur beitt sér fyrir auknu gagnsæi í fjárveitingum til háskóla og þess mun sjá stað í nýju reiknilíkani háskóla sem verður kynnt á haustmánuðum 2023. Þá hefur ráðherra beitt sér fyrir auknu gagnsæi við úthlutun styrkja til háskóla- og rannsóknastarfsemi með verkefninu Samstarf háskóla þar sem stefnt er að árlegri úthlutun 1 milljarðs kr. til sameiginlegra verkefna háskóla.