Ferill 1139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2229  —  1139. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kristrúnu Frostadóttur um hjúkrunarrými.


     1.      Er fjölgun hjúkrunarrýma og rekstur þeirra fjármagnaður í fjármálaáætlun 2024–2028, sbr. framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma þar sem kveðið er á um að byggð verði 394 ný hjúkrunarrými til ársins 2028?
    Þegar fjármálaáætlun 2024–2028 var lögð fram voru framkvæmdir á framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarheimila fullfjármagnaðar ásamt rekstri þeirra. Síðan var ákveðið að stækka hjúkrunarheimilin á Akureyri og í Reykjanesbæ um 20 rými hvort, þar sem mikil þörf er á nýjum hjúkrunarrýmum. Þá hefur komið upp mygla á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri og er áætlað að viðhald vegna þess verði greitt af framkvæmdafénu. Töluverðar verðhækkanir hafa einnig hækkað framkvæmdakostnað. Sækja þarf um nýtt fjármagn í fjármálaáætlun 2025–2029 til að fullfjármagna framkvæmdaáætlunina á ný ásamt því að sækja um fjármagn í rekstur 40 nýrra rýma á Akureyri og í Reykjanesbæ.

     2.      Hver er áætlaður kostnaður við uppbyggingu og rekstur þessara 394 hjúkrunarrýma?
    Samkvæmt nýjustu tölum frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum frá því í lok maí sl. er áætlaður kostnaður hjúkrunarheimila, sem verða tilbúin á árunum 2024–2028, og eru á framkvæmdaáætlun 29,3 milljarðar kr. þar sem heildarfjöldi rýma er 541 rými (ný og endurbætt rými). Miðað við meðalverð vegna reksturs hjúkrunarrýma í upphafi ársins má gera ráð fyrir að rekstur 394 hjúkrunarrýma nemi 6,8 milljörðum kr. á ári.

     3.      Hvenær er gert ráð fyrir að rýmin verði komin í fullan rekstur? Hvað er ráðgert að mörg hjúkrunarrými verði tilbúin og tekin í notkun á hverju ári næstu fimm árin?
    Gert er ráð fyrir að öll rýmin á framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarheimila verði komin í rekstur á árinu 2028. Í eftirfarandi töflu má sjá hve mörg rými er áætlað að verði tekin í notkun á hverju ári næstu fimm árin.

Ár Fjöldi rýma (ný og endurbætt)
2024 94
2025 183
2026 124
2027 0
2028 140

     4.      Telur ráðherra að byggja þurfi fleiri hjúkrunarrými en gert er ráð fyrir í framkvæmdaáætlun, en eins og fram kemur í fjármálaáætlun 2024–2028 er talin þörf á 602 rýmum? Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma í samræmi við metna þörf og hvernig áætlar ráðherra að mæta þjónustuþörfinni sem skapast utan hjúkrunarheimila?
    Í fjármálaáætlun 2024–2028 kemur fram að ef hjúkrunarrými verða nýtt á sambærilegan hátt og nú, þarf að fjölga þeim um 602 rými til ársins 2028. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima með viðeigandi stuðningi og þjónustu, t.d. með aukinni heimaþjónustu, dagþjálfun og endurhæfingu. Með fleiri úrræðum til að styðja við búsetu á heimili fólks má draga úr þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma með hækkandi aldri þjóðarinnar. Á árinu 2022 opnuðu 20 ný endurhæfingarrými á Eir og 39 skammtímaendurhæfingarrými hjá Sólvangi í Hafnarfirði sem styðja við sjálfstæða búsetu. Áfram verður þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma en fjöldinn fer eftir annarri þjónustu sem í boði er. Stefna stjórnvalda er að 85% einstaklinga 80 ára og eldri geti búið á eigin heimili. Á landsvísu er sú tala nú 84%. Starfshópur heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra er að skoða fyrirkomulag varðandi uppbyggingu hjúkrunarheimila og kanna mögulegar leiðir til að hraða uppbyggingu þeirra. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu á haustmánuðum.

     5.      Hver er áætlaður kostnaður við uppbyggingu og rekstur 208 hjúkrunarrýma til viðbótar?
    Óljóst er hver kostnaður við uppbyggingu 208 hjúkrunarrýma yrði, það fer eftir markaðsaðstæðum, landfræðilegum aðstæðum o.fl. Meðalheildarkostnaður á hjúkrunarrými í núgildandi framkvæmdaáætlun er rúmar 60 millj. kr. á hvert rými. Kostnaður við rekstur rýmanna yrði 3,6 milljarðar kr. ef miðað er við meðalverð hjúkrunarrýma og einingarverð í upphafi ársins.

     6.      Eru skilgreind hjúkrunarrými fyrir einstaklinga með fíknivanda og/eða fjölþættan vanda?
    Ekki eru skilgreind hjúkrunarrými fyrir einstaklinga með fíknivanda og/eða fjölþættan vanda sérstaklega, en unnið er að því að koma slíkum rýmum á fót.