Ferill 1168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2275  —  1168. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um krabbameinsáætlun til ársins 2030.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður vinnu við eftirtalda þætti krabbameinsáætlunar til ársins 2030:
     a.      Að einstaklingum með krabbamein og aðstandendum þeirra skuli boðinn aðgangur að lokaðri gagnvirkri vefsíðu sem tengist sjúkraskrá sjúklings þar sem fram fari einstaklingsmiðuð upplýsingaveita, stuðningur og ráðgjöf? Liggur fyrir hvort og þá hvenær slík þjónusta verður tekin í gagnið?
     b.      Að einstaklingum með krabbamein og aðstandendum þeirra skuli boðin einstaklingsmiðuð heildstæð fræðsla um krabbamein, horfur, meðferð, stuðningsþjónustu, viðbótarmeðferð, aukaverkanir, einkenni, sjálfsumönnun, endurhæfingu, líknarmeðferð, réttindi og kostnað?
     c.      Að einstaklingum með krabbamein og aðstandendum þeirra skuli boðin virk þátttaka í allri ákvörðunartöku er snertir meðferð og þjónustu?


     Svar við a-lið:
    Krabbameinsgáttin, rafræn samskiptalausn fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferð, var tekin í notkun á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga í nóvember 2021 eftir margra ára þróun, ítarlegar prófanir og kynningar, og byggist á samstarfssamningi milli Landspítala, embættis landlæknis, Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins frá 2019. Krabbameinsgáttin er ætluð til stuðnings sjúklingum í heimahúsum og er hluti af rafrænni sjúkraskrá, bæði Sögu og Heilsuveru. Innan Sögu heitir hún Meðvera og innan nýrrar einingar í Heilsuveru heitir hún Meðferð. Þar undir er eining sem heitir „krabbamein“ sem tengist við Meðveru í Sögu. Í Meðveru er hægt að búa til hópa sem tengjast meðferðarteymi sjúklings og þar hafa heilbrigðisstarfsmenn yfirsýn yfir þau samskipti sem eiga sér stað um Krabbameinsgáttina. Öll samskipti um gáttina, miðlun fræðsluefnis og niðurstöður spurningalista birtast í sjúkraskrá sjúklings í Sögu þar sem starfsmaðurinn hefur yfirsýn yfir mál sjúklings en sjúklingurinn hefur yfirsýn yfir fræðsluefni, sjálfsmatslista og skilaboð í meðferðareiningu sinni í Heilsuveru. Aðgangur að gáttinni er háður rafrænum skilríkjum vegna innskráningar í Heilsuveru.
    Gáttin býður upp á þrenns konar virkni, þ.e. sjálfsmat sjúklinga, fræðslu og skilaboðavirkni:
     1.      Sjálfsmat sjúklinga í heimahúsum fer fram með stöðluðum spurningalistum sem meta líðan, einkenni og þörf sjúklingsins fyrir stuðning og þjónustu. Svörin tengjast skilgreindu viðvörunarkerfi sem er vaktað af meðferðarteymi sjúklingsins svo hægt er að bregðast fljótt við breytingum á líðan og þörfum.
     2.      Fræðsluefni er sent til sjúklinga í gegnum gáttina, annars vegar frá meðferðarteyminu og hins vegar sjálfvirkt, og beinist að þeim einkennum og vandamálum sem sjúklingur hefur merkt við á sjálfsmatslistum.
     3.      Í gegnum skilaboðavirknina geta sjúklingur og meðferðarteymi hans skipst á fyrirspurnum og upplýsingum.

     Svar við b-lið:
    Þjónusta við krabbameinssjúklinga er þverfagleg og hefur verklagið innan Landspítala verið skjalfest og sett í gæðaskjöl, en alls eru um 90 vinnulýsingar og verklagsreglur varðandi krabbameinsþjónustu í gæðahandbók og eru til starfslýsingar fyrir flestar starfsstéttir spítalans. Frá árinu 2014 hefur verið starfandi teymisstjóri hjúkrunar á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga sem er ætlað að halda utan um ferli ákveðinna sjúklingahópa innan starfseminnar og er hlutverk teymisstjórans m.a. að tryggja samfellda þjónustu við sjúklinga og gott flæði upplýsinga til sjúklings, aðstandenda, teymisaðila og samstarfsstétta ásamt því að stuðla að virkri þátttöku sjúklings í meðferð og að unnið sé í samræmi við gagnreynda þekkingu, klínískar leiðbeiningar og viðurkennda verkferla.
    Innan krabbameinsþjónustu spítalans stendur sjúklingum og aðstandendum ýmiss konar stuðningsþjónusta til boða sem og víðar, til að mynda hjá Krabbameinsfélaginu og Ljósinu.

     Svar við c-lið:
    Krabbameinsþjónusta byggist á gagnreyndum starfsháttum og klínískum leiðbeiningum. Þverfaglegir samráðsfundir eru haldnir fyrir flestar tegundir krabbameina og er niðurstaða fundanna lögð fram í formi ráðgjafar um viðeigandi meðferðaráform innan og utan spítalans. Áhersla er lögð á að bjóða sjúklingum og aðstandendum að taka þátt í meðferðinni í samræmi við stefnu spítalans. Það er m.a. gert með svokölluðum greiningarviðtölum og stöðugri eftirfylgd teymisstjóra hjúkrunar, allt frá greiningu og þar til eftirfylgd lýkur.