Ferill 1146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2284  —  1146. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kristrúnu Frostadóttur um fjármögnun og eflingu heimahjúkrunar.


     1.      Hvernig hafa fjárveitingar til heimahjúkrunar þróast frá árinu 2008 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Hversu miklu fjármagni stendur til að verja í heimahjúkrun sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu á tímabili fjármálaáætlunar 2024–2028? Óskað er eftir sundurliðun eftir sveitarfélögum.
    Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um miðlæga þjónustu heimahjúkrunar fyrir Mosfellsbæ, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Reykjavíkurborg sinnir þjónustu heimahjúkrunar í Reykjavík og á Seltjarnarnesi, ásamt næturþjónustu fyrir allt höfuðborgarsvæðið.

Fjárveitingar til heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæði 2009–2022
Ár Fjárhæð í m.kr. Landsframleiðsla Hlutfall
2009 1.370,4 1.626.391 0,08%
2010 1.435,2 1.980.967 0,07%
2011 1.542,5 1.765.009 0,09%
2012 1.663,5 1.845.160 0,09%
2013 1.695,9 1.970.146 0,09%
2014 1.759,6 2.086.360 0,08%
2015 1.857,2 2.310.848 0,08%
2016 2.035,7 2.512.055 0,08%
2017 2.219,8 2.641.959 0,08%
2018 2.215,7 2.844.055 0,08%
2019 2.480,8 3.023.930 0,08%
2020 2.582,1 2.918.755 0,09%
2021 2.894,7 3.244.901 0,09%
2022 3.220,5 3.766.415 0,09%
2023 3.410,0

    Heimahjúkrun er skipulögð hjá sex heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni í samræmi við þörf á þjónustu á hverjum stað fyrir sig. Árið 2014 sameinuðust nokkrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, þannig að ein heilbrigðisstofnun er í hverju umdæmi. Heimahjúkrun heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni er rekin í gegnum heilsugæslusvið stofnana. Fram að árinu 2022 hefur ekki verið unnt að greina að fullu kostnað vegna heimahjúkrunar sérstaklega frá kostnaði við ýmsa heilsugæsluþjónustu, hjá stofnunum á landsbyggðinni, þar sem starfsmenn gegna einnig öðrum störfum innan heilsugæslunnar. Í ráðuneytinu hefur verið unnið að því að koma fjárveitingum vegna heimahjúkrunar inn í fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar. Í tengslum við þá vinnu hefur heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við heilbrigðisstofnanir, unnið að því að greina raunkostnað við heimahjúkrun frá kostnaði við aðra þjónustu heilsugæslu heilbrigðisstofnana. Eftirfarandi yfirlit sýnir greindan raunkostnað við heimahjúkrun eftir sveitarfélögum á árinu 2022.

Heilbrigðisstofnun Sveitarfélag Ár Heildarkostnaður
HVE Akranes 2022 117.321.226
HVE Borgarnes 2022 20.115.011
HVE Búðardalur 2022 2.452.340
HVE Grundarfjörður 2022 2.702.606
HVE Hólmavík 2022 795.173
HVE Hvammstangi 2022 4.828.688
HVE Ólafsvík 2022 3.680.286
HVE Stykkishólmur 2022 5.136.204
HSU Árnessýsla 2022 127.086.987
HSU Hella/Hvolsvöllur 2022 24.842.136
HSU Klaustur 2022 17.157.673
HSU Laugarás 2022 32.842.241
HSU Vestmannaeyjar 2022 87.364.817
HSU Vík 2022 10.448.164
HSU Höfn 2022 31.633.780
HSN Blönduós 2022 22.883.651
HSN Sauðárkrókur 2022 24.229.747
HSN Fjallabyggð 2022 35.671.573
HSN Dalvík 2022 21.537.553
HSN Akureyri 2022 426.176.723
HSN Þingeyjarsýsla (Húsavík) 2022 55.749.862
HSS Keflavík 2022 296.662.018
HSS Grindavík 2022 68.504.729
HVEST Vestfirðir 2022 171.861.689
HSA Djúpivogur 2022 4.878.174
HSA Fjarðabyggð 2022 49.523.485
HSA Neskaupstaður 2022 46.065.567
HSA Seyðisfjörður 2022 10.916.026
HSA Egilsstaðir 2022 63.449.231
HSA Vopnafjörður 2022 7.790.844
Samtals landsbyggðin 1.794.308.204

    Eftirfarandi yfirlit sýnir aukningu fjárveitinga til heimahjúkrunar í m.kr. hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni tímabilið 2014–2023.

Heilbrst. Vesturlands Heilbrst. Vestfjarða Heilbrst. Norðurlands Heilbrst. Austurlands Heilbrst. Suðurlands Heilbrst. Suðurnesja
Ár
2014 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0
2015 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0
2016 10,0 10,0 50,0 10,0 10,0 10,0
2017 0,0 0,0 70,0 0,0 0,0 0,0
2018 0,0 0,0 36,3 16,8 35,0 0,0
2019 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0
2020 0,0 0,0 10,0 0,0 0,0 0,0
2021 50,0 16,0 13,0 52,0 71,0 52,0
2022 0,0 38,0 16,4 0,0 0,0 0,0
2023 0,0 0,0 93,0 0,0 0,0 0,0
Samtals 60,0 64,0 288,7 78,8 116,0 62,0 669,5

    Á fjárlögum 2023 kom 300 m.kr. viðbótarfjárveiting til áframhaldandi eflingar heimahjúkrunar í takt við áherslu ríkisstjórnarinnar um að styðja við sjálfstæða búsetu.
    Jafnframt er spurt hversu miklu fjármagni stendur til að verja til heimahjúkrunar sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu á tímabili fjármálaáætlunar 2024–2028. Ráðherra leggur áherslu á að fjárveitingar til heimahjúkrunar taki mið af þörf fyrir þjónustuna. Heilbrigðisráðherra hefur í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag eldri borgara unnið að heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk undir verkefninu Gott að eldast og var aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk samþykkt á Alþingi í vor. Í þeirri vinnu er verið að nálgast þjónustu við eldra fólk á heildrænan hátt ásamt því að endurskipuleggja og samþætta ýmsa þjónustu, þ.m.t heimahjúkrun.
    Í fjármálaáætlun 2024–2028 er áætluð varanleg viðbótarfjárveiting til heilsugæslusviða upp á rúmlega 4,8 ma.kr. og fer hluti þess fjármagns í að efla heimahjúkrun sem og aðra þjónustu við eldra fólk. Þær tillögur verða útfærðar þegar vinna við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk liggur fyrir.

     2.      Hefur farið fram kostnaðargreining á ábata heimahjúkrunar miðað við kostnað sem annars hlytist af dvöl á sjúkrahúsi og/eða hjúkrunarheimilum?
    Í skýrslu sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út árið 2022 um endurmat útgjalda í þjónustu við aldraða kemur fram að á árinu 2020 hafi kostnaður við heimaþjónustu hlaupið á bilinu 1–3 m.kr. á einstakling á ári samanborið við 13,6–17,4 m.kr. fyrir dvöl á hjúkrunarheimili og 61–71 m.kr. fyrir legu á sjúkrahúsi. Þessar tölur sýna því verulegan ábata við að seinka flutningi aldraðra á hjúkrunarheimili með aukinni heimahjúkrun ásamt annarri þjónustu á lægra þjónustustigi.

     3.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér að efla heimahjúkrun á tímabilinu 2024–2028?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram skýr sýn um þá þjónustu sem eldra fólk á að hafa aðgang að út frá því að einstaklingurinn sjálfur eigi að vera hjartað í kerfinu. Í samræmi við þessa áherslu hefur verið lögð áhersla á að þjónusta og skipulag hennar miði að því að minnka stofnanadvöl og styðja fólk til að búa heima eins lengi og unnt er. Mikilvægi þessa kemur líka fram í niðurstöðum í skýrslu McKinsey sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið. Hlutfall aldraðra einstaklinga í aldurssamsetningu þjóðarinnar fer vaxandi á næstu árum.
    Heilbrigðisráðherra hefur í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag eldri borgara unnið að heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk undir verkefninu Gott að eldast og var aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk samþykkt á Alþingi í vor. Aðgerðaáætlunin byggist á fimm stoðum sem eru samþætting, heimili, virkni, þróun og upplýsing. Meginþungi aðgerða liggur í þróunarverkefnum sem ganga út á að finna góðar lausnir sem samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Sömuleiðis verður ráðist í aðgerðir sem hverfast um heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, sveigjanlega þjónustu og stórbættan aðgang að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk. Allar aðgerðir miða að því að tryggja virkara og heilsuhraustara eldra fólki þjónustu sem styður við sjálfstæða búsetu.