Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 5  —  5. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.


Flm.: Halldóra Mogensen, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Elva Dögg Sigurðardóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Indriði Ingi Stefánsson.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að leggja til bann við fiskeldi í opnum sjókvíum við yfirstandandi endurskoðun laga um fiskeldi. Samhliða því skuli ríkisstjórnin efla nýsköpun og fjölbreytt og umhverfisvæn atvinnutækifæri í byggðarlögum sem byggja afkomu sína á fiskeldi í opnum sjókvíum.

Greinargerð.

    Lagt er til að matvælaráðherra verði falið að leyfa náttúrunni að njóta vafans við yfirstandandi endurskoðun laga um fiskeldi. Nú þegar hefur orðið mikill og óafturkræfur skaði á náttúru Íslands og með öllu óvíst hver langtímaáhrif á vistkerfi landsins verða. Því er nauðsynlegt að taka í handbremsuna og leyfa náttúrunni að njóta ásættanlegrar verndar og vafans sem henni ber.
    Hinn 6. febrúar 2023 birtist svört skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu og eftirlit með sjókvíaeldi á Íslandi. Af skýrslunni mátti ráða að rennt hefði verið blint í sjóinn við fordæmalausa stækkun sjókvíaeldisgeirans undanfarin ár. Stjórnsýsla og eftirlit reyndist veikburða og brotakennt og ekki í stakk búið til að takast á við aukin umsvif greinarinnar. Samstarf milli eftirlitsstofnana og leyfisveitenda var nánast ekkert þegar kom að fiskeldi. Laxveiðimenn höfðu um langt skeið varað við alvarlegum afleiðingum þess ef strokatburðir úr sjókvíum yrðu tíðir. Þá hefur komið á daginn að sleppifiskar, frjóir eldislaxar, hafa fundist víðs fjarri fjörðum þar sem þeir eiga uppruna sinn, til að mynda í Blönduá. Skaðinn er skeður.
    Hinn 4. október 2023 birti matvælaráðherra stefnu um uppbyggingu og umgjörð lagareldis til ársins 2040. Fyrstu aðgerðaáætlanir stefnunnar ná fram til ársins 2028. Stefnan er metnaðarfull og felur í sér margar og ítarlegar breytingar á núverandi regluverki, eftirliti og aðbúnaði. Hins vegar er núverandi staða svo alvarleg að flutningsmenn tillögu þessarar telja nauðsynlegt að stöðva fiskeldi í opnum sjókvíum sem fyrst. Miðað við þá tækni og búnað sem til er nú liggur fyrir að ekki er hægt að stunda fiskeldi í opnum sjókvíum án þess að taka verulega áhættu þegar kemur að vistkerfi, umhverfi og dýravelferð. Þá eru ótalin önnur áhrif sjókvíaeldis, svo sem á siglingaleiðir, helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja og öryggi sjófarenda.

Reynsla af opnu sjókvíaeldi í Noregi, Skotlandi og Kanada.
    Undanfarin tuttugu ár hefur villtur laxastofn í Noregi dregist saman um helming. Talið er að rekja megi það til laxeldis í opnum sjókvíum. Þá hafa rannsóknir sýnt að erfðablöndun sé að finna í 71% norskra áa. Er því um að ræða verulega víðtæk, neikvæð og alvarleg áhrif. Laxalús hefur herjað á norskan eldislax. Fiskeldisiðnaðurinn hefur brugðið á það ráð að hella lúsaeitri í hafið, eitur er sett í fóður og fisknum er dælt upp í brunnbáta þar sem hann er baðaður upp úr eitri og 30°C heitu vatni. Fiskurinn þolir þessa meðhöndlun illa og eru afföll oft gríðarleg. Þessi meðferð vekur aukinheldur spurningar um hvort hún stenst lög um dýravelferð.
    Stofnar villts lax og silungs hafa víða hrunið í Skotlandi og má það einkum rekja til faraldurs laxalúsar. Sjógönguseiði úr ám þola lús illa og ekki þarf nema mjög fáar lýs til að seiði drepist. Þá hafa sjóbirtingsstofnar og stofnar sjóbleikju farið einstaklega illa út úr nábýli við fiskeldi en þeir hafa nánast þurrkast út. Ljóst er að íslenskra stofna þessara tegunda bíða sömu örlög ef ekkert verður að gert. Þá eru ótalin áhrif hruns stofnanna á ferðaþjónustu sem tengist stangveiði í Skotlandi, sem var umtalsverð á vesturströnd landsins. Þau störf og verðmæti hafa glatast þar sem geirinn hrundi samhliða hruni laxastofnsins.
    Hinn kanadíski stofn Atlantshafslax hefur skroppið saman um 50% undanfarin 40 ár. Er það af mannavöldum. Hvarvetna þar sem villtur laxastofn er í návígi við fiskeldi meta menn sem svo að honum sé ógnað eða að hann sé í hættu. Þá líður villtur laxastofn einnig fyrir lúsarsmit og sjúkdóma sem berast úr eldislaxi.
    Staðan er grafalvarleg hvert sem litið er og ljóst að ekki hefur tekist að stunda eldi í sjókvíum í sátt við umhverfið og með dýravelferð að leiðarljósi. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld fljóti ekki sofandi að feigðarósi heldur læri af reynslu annarra ríkja og geri ekki sömu mistök með óafturkræfum afleiðingum.

Umhverfisáhrif.
    Íslenska laxastofninum og vistkerfinu í heild stafar hætta af fiskeldi í opnum sjókvíum. Erfðablandaður lax hefur fundist víða, t.d. í Blönduá, Laxá í Aðaldal, Hofsá í Vopnafirði og víðs vegar um Vestfirði og Norðvesturland. Upprunagreining Matvælastofnunar hefur leitt í ljós að eldislaxinn er frá Arctic Sea Farm í Patreksfirði en þar sluppu dýr út um göt á netapokum sjókvía. Hafrannsóknastofnun tók sýni úr erfðaefni laxfiska í 89 ám hringinn í kringum landið á árunum 2014–2019 þegar eldið nam 6.900 tonnum. Sýnin bentu til þess að blöndun hefði orðið þá þegar. Vert er að nefna að erfðablöndun kemur yfirleitt ekki fram fyrr en að tveimur árum liðnum. Rannsóknir á erfðablöndun hafa miðast við umfangsminna laxeldi, en það er sex sinnum umfangsmeira nú á dögum. Hámarksburðarþol fiskeldis á landinu öllu er 150.000 tonn, eða u.þ.b. 70 milljónir eldislaxa. Íslenski laxastofninn er miklu minni, eða tæplega 50.000 fiskar. Ljóst er að honum mun stafa hætta af hinum mikla fjölda eldislaxa þegar burðarþol er fullnýtt.
    Þegar eldislax sleppur er nánast ógerningur að ná honum áður en hann gengur í ár og blandast villtum stofni. Norskir kafarar hafa undanfarnar vikur elt uppi eldislax víða um land eftir að allt að 3.500 dýr sluppu úr kvíum Arctic Sea Farm í Patreksfirði. Sem dæmi um útbreiðslu eldislax má nefna Hrútafjarðará. Þar veiddu norskir kafarar 31 lax, og er það um fimmtungur af fjölda villtra laxa sem veiddust í ánni í sumar. Ljóst er að ekki verður unnt að kemba allar ár eða ná öllum dýrum sem sluppu. Veiðitölur benda til þess að hlutfall strokulax í íslenskum laxveiðiám sé langt yfir því 4% marki sem Hafrannsóknastofnun miðar ásættanlega áhættu við. Vert er að nefna að flestar ár og vatnasvæði á Vestfjörðum eru ekki háð áhættumati og því alls óvíst hver staðan er þar.
    Kyrrahafslax er víða útdauður eða í útrýmingarhættu. Umtalsverð minnkun eða útrýming einnar tegundar hefur gríðarleg keðjuverkunaráhrif á allt vistkerfið en talið er að útrýming Kyrrahafslax hafi haft áhrif á annað hundrað dýrategunda. Ekki er hægt að spá nákvæmlega fyrir um það hvaða áhrif útrýming íslensks Atlantshafslax hefði á íslenskt dýralíf og viðkvæmt vistkerfi landsins. Þó er ljóst að áhrifin yrðu alvarleg, víðtæk og óafturkræf. Það yrðu sannkallaðar umhverfishamfarir ef íslenski stofninn dæi út af mannavöldum.
    Þó að erfðablöndun við villtan lax á Íslandi og áhrif hennar á vistkerfið í heild sé alvarlegasta afleiðing fiskeldis á umhverfið eru einnig fleiri þættir sem hafa neikvæð áhrif. Úrgangur fiskeldis er t.d. losaður beint í hafið þar sem starfsemi fer fram. Slíkt er ekki leyfilegt þegar kemur að öðrum landbúnaði eða fiskeldi á landi. Eins berst eitur gegn lús eða öðrum sníkjudýrum óhindrað út í hafið með affalli. Þá hafa áhyggjur verið viðraðar vegna fóðurröra úr plasti. Fóðrið sverfur rörin að innan og ber með sér örplast út í hafið og í meltingarfæri eldislax, og þar með mögulega í fæðu fólks.

Dýravelferð.
    Laxalús veldur eldislaxi miklum skaða og étur hann lifandi, í orðsins fyllstu merkingu. Ekki er hægt að koma alfarið í veg fyrir lús í sjókvíum. Sú meðferð sem beitt er við aflúsun er ekki leyfð á neinum öðrum dýrum á Íslandi. Sjúkdómurinn blóðþorri greindist í fyrsta skipti á Austfjörðum árið 2021 og hefur vírusinn sem veldur sjúkdómi þessum því borist til Íslands. Slíkir vírusar og laxalús berast með affalli út í hafið og í aðrar tegundir, villta laxastofninn, sjóbirting og sjóbleikju. Til að sporna við lús þarf lax að undirgangast þá harkalegu meðhöndlun sem lýst var að framan. Mikil notkun lyfja í fiskeldi getur einnig leitt til ónæmis sníkjudýranna. Óvíst er hvaða áhrif mikil lyfjanotkun hefur á gæði þeirrar afurðar sem eldið skilar á matardiskinn. Að lokum má nefna að í raun eru allir eldislaxar hjartasjúklingar. Þeir vaxa mun hraðar en eðlilegt er í náttúrunni með þeim afleiðingum að hjarta þeirra er töluvert stærra en í villtum laxi. Getur það leitt til ýmissa kvilla og jafnvel til þess að hjartað springi.

Byggðaþróun.
    Í umræðunni hefur því verið haldið á lofti að sjókvíaeldi sé nauðsynlegt fyrir byggðaþróun og atvinnuöryggi þeirra svæða þar sem eldið er stundað. Vissulega hefur íbúum fjölgað á þessum svæðum í kjölfar fjölbreyttara atvinnuframboðs. En þegar rýnt er í tölur sést að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað töluvert en íslenskum ríkisborgurum fækkað. Körlum hefur fjölgað en konum og börnum fækkað. Þessar tölur gefa til kynna að um sé að ræða erlenda karlkyns ríkisborgara sem sækja sér tímabundna atvinnu á svæðin og að mörg af þessum störfum styðji ekki raunverulega samfélagsuppbyggingu.
    Hvort sem störfin sem um ræðir hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun og samfélagsuppbyggingu eður ei er mikilvægt að horfast í augu við það að ef sjókvíaeldi verður bannað mun það hafa áhrif á atvinnuöryggi á þeim svæðum þar sem eldi hefur verið stundað. Því er nauðsynlegt að ráðherra tryggi að atvinnuöryggi sé skapað með öðrum hætti á viðkomandi svæðum og að lögð verði sérstök áhersla á að efla græna atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og aðrar lausnir til frambúðar.

Horft fram á við.
    Nauðsynlegt er að leyfa náttúrunni að njóta vafans. Sá skaði sem nú þegar er orðinn er óafturkræfur. Hins vegar gæti hann enn orðið mun verri. Áhrif á íslenskt vistkerfi eru óþekkt að öðru leyti en því sem vitnað hefur verið um í öðrum löndum, og eru áhrif þar einungis neikvæð. Afgerandi afstaða gegn sjókvíaeldi hefur mælst í könnunum meðal almennings. Það er vilji flutningsmanna að stjórnvöld taki tillit til afstöðu almennings og hafi náttúruvernd og dýravelferð að leiðarljósi í stefnumótun við atvinnuuppbyggingu til framtíðar.