Ferill 14. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 14  —  14. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um að fordæma hryðjuverkaárásir Hamas í Ísrael og árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum í Palestínu.


Flm.: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Daði Már Kristófersson, Guðbrandur Einarsson, Sigmar Guðmundsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.


    Alþingi ályktar að fordæma hryðjuverkaárásir Hamas á almenna borgara í Ísrael sem hófust 7. október 2023 og árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum og á borgaralega innviði á Gasaströndinni í kjölfarið. Réttur Ísraels til að verja sig er ótvíræður en ekki takmarkalaus. Alþingi kallar eftir tafarlausu mannúðarhléi svo að unnt sé að tryggja flutningsleiðir fyrir neyðarvistir og aðra mannúðaraðstoð til Gasa. Alþingi krefst einnig tafarlausrar og skilyrðislausrar lausnar á gíslum sem eru í haldi Hamas. Þá ályktar Alþingi að Ísland beiti sér fyrir því að alþjóðalög og mannréttindi séu virt og þrýsti á að lausn verði fundin á þeim átökum sem nú geisa svo að almennir borgarar í ríkjunum geti búið við frið frá ofbeldi og átökum.

Greinargerð.

    Staðan fyrir botni Miðjarðarhafs er hræðilegri en orð fá lýst. Milljónir almennra borgara í Ísrael og Palestínu búa í fullkomnu óöryggi um líf sitt og lífsviðurværi vegna yfirstandandi stríðsátaka. Þúsundir almennra borgara hafa þegar látið lífið beggja vegna landamæranna, lokað hefur verið fyrir flutning lífsnauðsynlegrar mannúðaraðstoðar til Gasa, matur, skjól og læknisaðstoð er þar af skornum skammti og skrúfað hefur verið fyrir vatn og rafmagn víða á svæðinu.
    Með tillögu þessari er lagt til að Alþingi fordæmi hryðjuverkaárásir Hamas á almenna borgara í Ísrael sem hófust 7. október 2023 og sömuleiðis þær árásir Ísraelshers sem almennir borgarar og borgaralegir innviðir á Gasaströnd hafa orðið fyrir í kjölfarið. Réttur Ísraels til að verja sig er ótvíræður en ekki takmarkalaus. Tryggja þarf mannúðarhlé þegar í stað til að hægt sé að vernda óbreytta borgara, innviði, heilbrigðisstarfsfólk og mannúðarstarfsfólk og koma á öruggri afhendingu nauðsynlegra vista og mannúðaraðstoðar á Gasa. Aðeins þannig er hægt að koma í veg fyrir frekari dauðsföll og þjáningu almennra borgara á svæðinu og stöðva stigmögnun stríðsátakanna.
    Í neyðarumræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 27. október 2023 lagði Jórdanía fram ályktun fyrir hönd arabaríkja og Samtaka íslamskra ríkja um nauðsyn þess að tryggja mannúðaraðstoð fyrir óbreytta borgara á Gasaströnd. Ályktunin snerti ekki á hryðjuverkum eða gíslatöku Hamasliða. Í von um að koma á breiðri sátt um málið lagði Kanada fram breytingartillögu um svohljóðandi viðbót við ályktunina, sem meðal annars öll ríki Evrópusambandsins studdu: „[allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna] hafni fortakslaust og fordæmi hryðjuverkaárásir Hamas í Ísrael sem hófust 7. október 2023 sem og gíslatöku, krefjist öryggis, velferðar og mannúðlegrar meðferðar gíslanna í samræmi við alþjóðalög og kalli eftir tafarlausri og skilyrðislausri lausn þeirra.“ Breytingartillagan fékk ekki 2/ 3 hluta atkvæða og hlaut því ekki brautargengi og því voru greidd atkvæði um ályktunina óbreytta. Hún var samþykkt með atkvæðum 120 ríkja gegn atkvæðum 14 ríkja. Ísland var á meðal 45 ríkja sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar harma að breytingartillaga Kanada hafi verið felld. Engu að síður telja flutningsmenn að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með endanlegri ályktun Sameinuðu þjóðanna, enda eru á þessum tímapunkti ríkir hagsmunir fólgnir í því að koma á mannúðarhléi á Gasa og tryggja nauðsynlega og tafarlausa mannúðaraðstoð við almenna borgara.
    Í samræmi við breytingartillögu Kanada er samkvæmt þingsályktunartillögu þessari einnig krafist tafarlausrar og skilyrðislausrar lausnar þeirra rúmlega 200 gísla sem eru í haldi Hamas. Gíslataka almennra borgara er gróft brot á mannréttindum og í Genfarsáttmálanum er hún meðal þeirra brota sem teljast ekki nokkurn tíma eða undir nokkrum kringumstæðum réttlætanleg.
    Flutningsmenn tillögu þessarar telja mjög mikilvægt að Ísland standi óhagganlega með almennum borgurum í Ísrael og Palestínu. Í því ljósi eru árásir og morð á almennum borgurum fordæmd og mikilvægi framfylgdar alþjóðalaga og mannréttinda undirstrikað. Ísland á að beita sér á alþjóðasviði fyrir því að lausn verði fundin á yfirstandandi átökum í Ísrael og Palestínu sem byggist á og virði tvö sjálfstæð ríki Ísraels og Palestínu.