Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 15  —  15. mál.
Ráðherra.




Fyrirspurn


til menningar- og viðskiptaráðherra um eftirlit með heimagistingu.

Frá Jóhanni Páli Jóhannssyni.


     1.      Hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sinnt virku frumkvæðiseftirliti með heimagistingu frá árinu 2016 þar til nú, eins og embættið kallaði eftir að komið yrði á fót í umsögn sinni um frumvarp það er varð að lögum nr. 67/2016, svo sem með því að kanna vefsíður þar sem höfð er milliganga um skammtímaleigu til erlendra ferðamanna og með því að bera saman framboð á vefsíðum og útgefin rekstrarleyfi og skráða starfsemi?
     2.      Hversu margir starfsmenn í hversu mörgum stöðugildum hafa sinnt þessu eftirliti og öðrum verkefnum er varða heimagistingu frá árinu 2016 þar til nú?
     3.      Hversu oft hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu afskráð heimagistingu vegna þess að aðili varð uppvís að því að leigja út húsnæði sitt lengur en 90 daga á ári eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt? Svar óskast sundurliðað eftir árum frá árinu 2016 þar til nú.
     4.      Hversu oft hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sent skráningaraðila tilkynningu um að afskráning sé fyrirhuguð, sbr. 2. mgr. 15. gr. a laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007? Svar óskast sundurliðað eftir árum frá 2016 þar til nú.
     5.      Hversu oft hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu synjað aðila um skráningu á grundvelli 3. mgr. 15. gr. a laga nr. 85/2007? Svar óskast sundurliðað eftir árum frá árinu 2016 þar til nú.
     6.      Hversu marga aðila og hversu oft hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sektað fyrir að reka heimagistingu án skráningar, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 85/2007? Svar óskast sundurliðað eftir árum frá árinu 2016 þar til nú.
     7.      Hversu marga aðila og hversu oft hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sektað fyrir að stunda útleigu lengur en 90 daga á almanaksári eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988? Svar óskast sundurliðað eftir árum frá árinu 2016 þar til nú.
     8.      Hversu marga aðila og hversu oft hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sektað fyrir að nota ekki númer rekstrarleyfis eða skráningar í markaðssetningu skv. 4. mgr. 11. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007 eða fyrir að skila ekki nýtingaryfirliti til sýslumanns skv. 2. mgr. 13. gr. sömu laga? Svar óskast sundurliðað eftir árum frá árinu 2016 þar til nú.


Skriflegt svar óskast.