Ferill 20. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 20  —  20. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (fjárhæðir fylgi launavísitölu).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    62. gr. laganna orðast svo:
    Fjárhæðir almannatrygginga, frítekjumörk, svo og greiðslur skv. 42. gr. og fjárhæðir skv. 28. gr., skulu breytast árlega í samræmi við launavísitölu, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi ( 65. mál) og er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt, en uppfært með tilliti til breytinga sem orðið hafa á lögum um almannatryggingar frá síðustu framlagningu. Tvær umsagnir bárust um málið á 153. löggjafarþingi, frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Öryrkjabandalag Íslands fjallaði í umsögn sinni um þær alvarlegu afleiðingar sem hafa þegar raungerst vegna þess að kjör lífeyrisþega almannatrygginga hafa ekki fylgt almennri launaþróun. Landssamtökin Þroskahjálp lýstu yfir stuðningi við frumvarpið.
    Samkvæmt 62. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, skulu greiðslur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur skv. 42. gr. laganna og fjárhæð tekjutryggingar skv. 28. gr. breytast árlega í samræmi við fjárlög og skal ákvörðun þeirra taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Sú regla sem nú má finna í 62. gr., áður 69. gr., var upphaflega leidd í lög árið 1997 með því markmiði að tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar myndu njóti hækkunar á ráðstöfunartekjum í sama hlutfalli og almenningur. Þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sagði í þingræðu við 1. umræðu frumvarps þess er innleiddi 62. gr. í lög um almannatryggingar: „Viðmiðunin á að vera við laun en engu að síður er settur annar lás sem á að gæta þess ef svo vildi til, sem við skulum vona að verði ekki á næstu árum, að launin hækki minna en verðlag eins og hefur nú komið fyrir.“ Í áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið var einnig fjallað um sömu frumvarpsgrein: „Yfirlýsingar forsætisráðherra í umræðum er þó tæpast hægt að túlka öðruvísi en þannig að orðalag 9. gr. frumvarpsins beri að skilja svo að bætur almannatrygginga og greiðslur skv. 59. gr. og fjárhæðir skv. 17. gr. skuli beinlínis fylgja launaþróun (launavísitölu).“ Í reynd hefur framkvæmdin þó verið önnur og virðist meginreglan vera sú að vísitölu neysluverðs er fylgt við ákvörðun bóta þó að hún hækki mun minna en launavísitölur. Því hefur átt sér stað kjaragliðnun, milli örorku- og ellilífeyris almannatrygginga og launaþróunar. Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands við frumvarp þetta, sem barst á 153. löggjafarþingi, er fjallað um kjaragliðnun almannatrygginga og bent á að í desember 2022 hafi vantað tæpar 71 þúsund krónur á mánuði upp á hámarksgreiðslur örorkulífeyris ef miðað er við almenna launaþróun frá árinu 2007. Þar sem Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið skv. 41. gr. stjórnarskrárinnar og núverandi löggjöf felur Alþingi að ákvarða hækkanir bóta hafa dómstólar talið það falla utan hlutverks síns að dæma um hvort rétt hafi verið staðið að hækkun bóta skv. 62. gr. laga um almannatryggingar. 1
    Þörf er á að leiðrétta ákvæði 62. gr. þannig að það tryggi með viðhlítandi hætti að kjör lífeyrisþega almannatrygginga fylgi launaþróun. Frumvarp þetta leggur til að hækkun fjárhæða almannatrygginga, sem og frítekjumarka, skuli framvegis fylgja launaþróun eins og hún kemur fram í launavísitölu Hagstofu Íslands. Tenging bótafjárhæða við vísitölur þekkist í öðrum lögum, t.d. breytast fjárhæðir skaðabóta mánaðarlega í samræmi við lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Verður að telja það fyrirkomulag sanngjarnt þar sem bætur greiddar á grundvelli laganna eiga almennt að koma í stað atvinnutekna sem öryrki getur ekki aflað sér eða ellilífeyrisþegi nýtur ekki lengur. Þá nýtur ríkissjóður aukinna tekna þegar laun hækka þar sem stofn tekjuskatts hækkar. Því er ákveðið samræmi á milli aukinna útgjalda ríkissjóðs og aukinna tekna. Áfram er lagt til að greiðslur hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þannig er tryggt að greiðslur lækki ekki skyndilega ef launaþróun er neikvæð.
1     Sjá dóm hæstaréttar í máli nr. 233/2016.