Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 37  —  37. mál.

Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um málstefnu íslensks táknmáls 2024–2027 og aðgerðaáætlun.


Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



    Alþingi ályktar að íslenskt táknmál sé hefðbundið minnihlutamál og fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Stjórnvöld stuðli að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðji að öðru leyti við menningu og menntun táknmálsfólks og táknmálsbarna.

I. Meginstoðir málstefnu íslensks táknmáls.

    Málstefna íslensks táknmáls taki til eftirtalinna fimm meginstoða:
    A. Máltöku táknmálsbarna.
    B. Rannsókna og varðveislu.
    C. Jákvæðs viðhorfs.
    D. Fjölgunar umdæma íslensks táknmáls.
    E. Lagaumhverfis.
    F. Máltækni.

II. Málstefna íslensks táknmáls.

    A.    Íslenskt táknmál í máltöku táknmálsbarna verði lykillinn að framtíð þeirra. Lögð verði áhersla á:
                    1.      aðgengi foreldra að upplýsingum um íslenskt táknmál,
                    2.      tækifæri táknmálsbarna til náms með öðrum börnum sem tala táknmál,
                    3.      kennslu íslensks táknmáls,
                    4.      aðgengi táknmálsbarna að mál- og menningarsamfélagi tungumálsins,
                    5.      aðgengi að námi á og í íslensku táknmáli,
                    6.      að menntastefna stjórnvalda hverju sinni stuðli að jafnri stöðu íslensks táknmáls og íslensku.

    B.    Íslenskt táknmál verði rannsakað sem liður í að varðveita málið. Lögð verði áhersla á:
                    1.      rannsóknir á íslensku táknmáli og menningarsamfélagi þess og að miðla niðurstöðum rannsókna,
                    2.      að íslenskt táknmál verði markvisst tekið upp á stafrænu formi, efnið varðveitt og gert aðgengilegt almenningi og fræðasamfélagi með umritunum.

    C.    Jákvætt viðhorf verði kjarni málstefnu íslensks táknmáls og grundvöllur jafnra tækifæra. Lögð verði áhersla á:
                    1.      viðhorf til íslensks táknmáls sem tungumáls til jafns við íslensku,
                    2.      viðhorf til íslensks táknmáls í máltöku táknmálsbarna,
                    3.      viðhorf stjórnvalda og almennings til íslensks táknmáls sem endurspeglist í samfélaginu.
            
    D.    Jafnri þátttöku táknmálstalandi fólks í íslensku þjóðlífi verði náð með fjölgun umdæma íslensks táknmáls. Lögð verði áhersla á:
                    1.      að draga úr útrýmingarhættu íslensks táknmáls,
                    2.      að stuðla að auknu aðgengi að ríku málumhverfi íslensks táknmáls,
                    3.      að nota íslenskt táknmál til jafns við íslensku.

    E.    Lagaumhverfi tryggi stöðu íslensks táknmáls. Lögð verði áhersla á að við stefnumörkun stjórnvalda verði tryggt að staða íslensks táknmáls og íslensku sé jöfn.

    F.    Tækni verði nýtt og þróuð til að varðveita og efla íslenskt táknmál og sporna gegn útrýmingu þess. Lögð verði áhersla á söfnun þekkingar í máltækni táknmála og söfnun og skráningu málfanga á íslensku táknmáli.

III. Aðgerðaáætlun málstefnu íslensks táknmáls 2024–2027.

    Aðgerðaáætlunin miðist við þær aðgerðir sem ætlunin er að komi til framkvæmda á gildistíma málstefnu íslensks táknmáls. Að þeim árum liðnum verði málstefnan og aðgerðaáætlunin endurskoðuð.
    Aðgerðir sem falli undir meginstoð A: Máltöku táknmálsbarna:
     1.      Reynist barn vera með skerta heyrn verði snemmtækri íhlutun beitt til að tryggja viðkomandi barni og fjölskyldu þess öll úrræði sem koma barninu að gagni. Sé ástæða til verði foreldrum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna bent á þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     2.      Stuðlað verði að markvissri samþættingu þjónustu í þágu farsældar táknmálsbarna.
             Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti í samstarfi við sveitarfélög og aðra rekstraraðila skóla.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Markvisst eftirlit með námi og kennslu táknmálsbarna í leik-, grunn- og framhaldsskólum fari fram.
             Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti og sveitarfélög og aðrir rekstraraðilar skóla.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     4.      Við reglubundna endurskoðun á aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla verði gerðar viðeigandi breytingar til að styrkja stöðu íslensks táknmáls.
             Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     5.      Kannaður verði möguleiki á námi í kennslufræði táknmáls við Háskóla Íslands með samstarfi Hugvísindasviðs, Menntavísindasviðs og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Ábyrgð: Háskóli Íslands með samstarfi Hugvísindasviðs, Menntavísindasviðs og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Samkvæmt ákvörðun Háskóla Íslands í samræmi við ramma.
     6.      Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra veiti foreldrum táknmálstalandi barna upplýsingar og gjaldfrjálsa ráðgjöf um máltöku. Foreldrum og nánustu ættingjum táknmálstalandi barna verði veitt gjaldfrjálst táknmálsnám.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     7.      Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra veiti leik- og grunnskólum þar sem táknmálstalandi börn stunda nám gjaldfrjálsa ráðgjöf.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     8.      Málsamfélagið, með Félag heyrnarlausra í forsvari, taki á móti öllum táknmálsbörnum með ríku málumhverfi með málfyrirmyndum, menningarviðburðum og markvissri aðlögun að táknmálssamfélaginu þar sem litið verði á alla fjölskylduna sem hluta af málsamfélaginu. Hið sama gildi um fólk sem kemur inn í málsamfélagið á seinni stigum ævinnar.
             Ábyrgð: Félag heyrnarlausra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     9.      Færnimat í íslensku táknmáli á grundvelli evrópskra staðla verði aðgengilegt og tryggt að umsjón þess sé hjá viðurkenndum aðila.
             Ábyrgð: Ábyrgðaraðili metinn á seinni stigum.
             Tímaáætlun: Liggur ekki fyrir.
     10.      Táknmálstalandi nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum njóti náms og kennslu við hæfi. Kennurum og öðru starfsfólki skóla og skólaþjónustu verði tryggð viðeigandi starfsþróun, stuðningur og hafi möguleika á sérhæfingu.
             Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti, sveitarfélög og aðrir rekstraraðilar skóla.
             Tímaáætlun: Á við um allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     11.      Málnefnd um íslenskt táknmál, í samstarfi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta og Félag heyrnarlausra, útbúi fræðsluefni um íslenskt táknmál, svo sem bæklinga, vefsvæði eða annað.
             Ábyrgð: Málnefnd um íslenskt táknmál, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta og Félag heyrnarlausra
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     12.      Fjölbreytt efni, svo sem bækur og skemmtiefni í sjónvarpi, verði aðgengilegt táknmálstalandi börnum á öllum aldri í samvinnu við þá sem framleiða slíkt efni og þá sem að táknmálssamfélaginu standa. Menningar- og viðskiptaráðherra tryggi að þeir sjóðir sem heyra undir málefnasvið menningar- og viðskiptaráðherra og styrkja útgáfu slíkra verkefna séu aðgengilegir þeim sem hyggja á útgáfu táknmálsefnis.
             Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti meti starfsemi menningarsjóða, sbr. aðgerð í Menningarsókn – aðgerðaáætlun til 2030 .
             Tímaáætlun: 2024.
     13.      Almenningur hafi aðgengi að táknmálsnámi hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Námskeið fyrir almenning fari eftir eftirspurn.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

    Aðgerðir sem falli undir meginstoð B: Rannsóknir og varðveislu:
     1.      Unnið verði að verkefnaáætlun fyrir málheild um íslenskt táknmál.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra í samráði við Rannsóknastofu í táknmálsfræðum.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     2.      Rannsóknastofa í táknmálsfræðum leitist við að sinna rannsóknum á íslensku táknmáli og miðli niðurstöðum þeirra. Háskóla- og fræðasamfélagið tryggi mótun og þróun íðorða íslensks táknmáls. Íðorð í íslensku táknmáli verði varðveitt og öllum aðgengileg.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra í samstarfi við Háskóla Íslands og Rannsóknastofu í táknmálsfræðum.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Aðgengi að upptökum af frásögnum á íslensku táknmáli, máldæmum, orðabók og fleiru sem m.a. er á vefsíðunni www.SignWiki.is verði tryggt og uppfært reglulega.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

    Aðgerðir sem falli undir meginstoð C: Jákvætt viðhorf:
     1.      Stjórnvöld vinni að því að ávörp, stefnur, upplýsinga- og kynningarefni og opinberir viðburðir séu á íslensku táknmáli. Málnefnd um íslenskt táknmál verði stjórnvöldum til ráðuneytis um hvernig best sé að því staðið hverju sinni.
             Ábyrgð: Ábyrgð liggi hjá hverri stofnun/opinberum aðila fyrir sig.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     2.      Foreldrar táknmálsbarna fái faglega ráðgjöf og fræðslu um íslenskt táknmál, máltöku og menningarsamfélag táknmálstalandi fólks á vegum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem verði einnig miðlað til starfsfólks leik-, grunn- og framhaldsskóla, frístundaheimila og íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafélaga.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Upplýsingar um réttindi tengd íslensku táknmáli verði aðgengilegar á vef Stjórnarráðsins, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, Félags heyrnarlausra og í kynningarefni Málnefndar um íslenskt táknmál.
             Ábyrgð: Stjórnarráðið, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Félag heyrnarlausra og Málnefnd um íslenskt táknmál.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     4.      Félag heyrnarlausra, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Málnefnd um íslenskt táknmál, táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum standi fyrir reglulegum viðburðum um íslenskt táknmál.
             Ábyrgð: Félag heyrnarlausra, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Málnefnd um íslenskt táknmál, fulltrúar í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     5.      Fræðsla um íslenskt táknmál og sögu og menningu þess verði hluti af námsefni grunnskólabarna.
             Ábyrgð: Menntamálastofnun og grunnskólar.
             Tímaáætlun: Á við um allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     6.      Málnefnd um íslenskt táknmál stuðli að jákvæðu viðhorfi til íslensks táknmáls til stuðnings stefnuaðgerðum stjórnvalda.
             Ábyrgð: Málnefnd um íslenskt táknmál.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     7.      Dagur íslenska táknmálsins, 11. febrúar, verði haldinn hátíðlegur ár hvert og stefnt að því að dagurinn verði fánadagur líkt og dagur íslenskrar tungu.
             Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

    Aðgerðir sem falli undir meginstoð D: Fjölgun umdæma íslensks táknmáls:
     1.      Unnið verði að þýðingum úr íslensku yfir á íslenskt táknmál og öfugt á sem flestum sviðum íslensks þjóðlífs til að fjölga umdæmum íslensks táknmáls.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     2.      Endurmenntun táknmálstúlka verði tryggð og sérhæfing innan fagstéttarinnar í samvinnu við hagsmunafélög og stofnanir sem koma að námi og störfum þeirra.
             Ábyrgð: Ábyrgðaraðili metinn á seinni stigum.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Táknmálstalandi fólk hafi möguleika á að birta eigin sögur eða annað listrænt efni í samvinnu við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Félag heyrnarlausra, Leikskólann Sólborg, Hlíðaskóla og eftir atvikum aðra opinbera aðila og einkaaðila.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     4.      Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu stuðli að auknu aðgengi efnis og fræðslu á íslensku táknmáli.
             Ábyrgð: RÚV.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

    Aðgerðir sem falli undir meginstoð E: Lagaumhverfi:
     1.      Unnið verði að endurskoðun laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
             Tímaáætlun: Hefjist árið 2024.
     2.      Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls verði metin í samræmi við málstefnu og hlutverk Málnefndar um íslenskt táknmál skilgreint frekar.
             Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
             Tímaáætlun: Hefjist árið 2023.

    Aðgerðir sem falli undir meginstoð F: Máltækni:
     1.      Unnið verði að því að þróa umhverfi til fjarnáms og fjarkennslu íslensks táknmáls, m.a. með máltæknilausnum og námsefni sem hentar til tölvustuddrar tungumálakennslu, þar á meðal kennsluvefsíður eða smáforrit fyrir táknmálsnám grunnskólabarna.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Menntamálastofnun o.fl.
             Tímaáætlun: Hefjist árið 2024.
     2.      Áframhaldandi söfnun málfanga, svo sem í formi táknalista og myndbandsupptaka af máli ólíkra kynslóða, sem hægt verður að nota sem efnivið í máltækniverkefni, t.d. við gerð málheildar íslensks táknmáls.
             Ábyrgð: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.
     3.      Táknmálstalandi fólk verði menntað og þjálfað í tækni sem notuð er til að byggja upp málheild íslensks táknmáls.
             Ábyrgð: Námsgreinin táknmálsfræði- og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands í samstarfi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
             Tímaáætlun: Allt tímabil aðgerðaáætlunarinnar.

Greinargerð.

1. Almennt.
    Hugtakið táknmálsfólk er notað sem yfirheiti yfir þá sem líta á íslenskt táknmál sem sitt móðurmál/fyrsta mál eða þá sem eru tví- eða fjöltyngdir og líta á íslenskt táknmál sem eitt af sínum málum. Hugtakið vísar bæði til fullorðinna og barna, þ.e. táknmálsbarna. Vísað er til 3. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, þar sem segir að íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Stjórnvöld skuli hlúa að því og styðja. Hver sem hafi þörf fyrir táknmál skuli eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða samþætting sjón- og heyrnarskerðingar hefur greinst. Sama rétt eigi nánustu aðstandendur.
    Hinn 21. janúar 2020 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp til þess að vinna að málstefnu um íslenskt táknmál. Málstefnan skyldi unnin samkvæmt þingsályktun nr. 36/149 um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi 2019. Starfshópinn skipuðu fulltrúar Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra með víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum. Táknmálssamfélagið var boðað til umræðufundar þar sem drögin voru rýnd og tekið var tillit til athugasemda er komu fram á fundinum.
    Áherslur í málstefnum minnihlutamála geta verið ólíkar áherslum í málstefnum meirihlutamála og byggst á öðrum forsendum. Málstefna íslensks táknmáls byggist á skilgreiningum Ara Páls Kristinssonar, sbr. Málheimar – Sitthvað um málstefnu og málnotkun, og Bernards Spolskys, sbr. The Cambridge Handbook of Language Policy, og miðar að því að skilgreina markmið og aðgerðir sem varða viðhorf og hegðun til jafns við stöðu og form málsins. Málstefnu íslensks táknmáls er ætlað að vera leiðarljós við mótun málhegðunar, málviðhorfs og málstýringar í samfélaginu. Að auki er málstefnu íslensks táknmáls ætlað að vera til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld, sveitarfélög og stofnanir.
    Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og eina tungumálið sem á sér lagalega stöðu utan íslenskrar tungu eins og sjá má í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í frumvarpi forsætisráðherra um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (forseti Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds, umhverfisvernd, auðlindir náttúru Íslands og íslensk tunga), sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi 2020–2021 (466. mál, þskj. 787) en náði ekki fram að ganga, er einnig ákvæði um íslenskt táknmál og um skyldur ríkisvaldsins til að styðja það og vernda. Í þingsályktun nr. 16/151 um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 (278. mál, þskj. 1111) er lögð áhersla á framþróun íslensks máls og íslensks táknmáls. Eins og önnur táknmál (og önnur minnihlutamál) hefur íslenskt táknmál átt undir högg að sækja með ýmsum afleiðingum fyrir málið og málsamfélagið. Vegna þessa er brýnt að aðgerðaáætlun sem fylgir málstefnu íslensks táknmáls komi til framkvæmda á gildistíma málstefnunnar. Aðgerðirnar eru fyrstu en jafnframt brýnustu skrefin til að markmið málstefnu íslensks táknmáls náist og að lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls sé framfylgt.

2. Samráð.
    Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun var til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda 27. maí 2022 til 16. júní 2022 (mál nr. S-90/2022). Tillaga og aðgerðaáætlun voru táknmálstúlkaðar, auk þess sem fréttatilkynning um samráðið var táknmálstúlkuð og birt á vef Stjórnarráðsins og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Alls bárust 11 umsagnir í samráðsgátt og hefur verið tekið tillit til þeirra eftir því sem við á.
    Haft var samráð við mennta- og barnamálaráðuneyti vegna tillögu um aðgerðir er varða samræmingu þjónustu í þágu farsældar barna er varðar lagalegan rétt og stöðu táknmálsbarna, um menntun táknmálstalandi barna, endurskoðun aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla og starfsþróun kennara leik-, grunn- og framhaldsskóla í táknmáli.
    Að auki var haft samráð við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti vegna tillögu um aðgerðir er varða rannsóknir og íðorðasmíð á íslensku táknmáli, endurmenntun táknmálstúlka, viðeigandi hæfni fagfólks í máltöku- og námsumhverfi táknmálstalandi barna og færnimat í íslensku táknmáli og nám í táknmálskennslufræðum.
    Að lokum var haft samráð við heilbrigðisráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti vegna aðgerða sem tengjast málefnum sem heyra undir þau ráðuneyti.

Um einstaka þætti málstefnunnar.

Um A. Máltöku táknmálsbarna.

    Vandað máluppeldi og málkunnátta er grunnurinn að öllu námi barna og samskiptum þeirra við umheiminn. Máltaka fer fram með samskiptum barna við foreldra sína, systkin og nánustu ættingja á fyrstu mánuðum ævinnar en færist síðan einnig yfir á samskipti við starfsmenn leik- og grunnskóla og samnemendur barnanna á hverju skólastigi. Öll börn eiga að fá ríkt málumhverfi strax frá fæðingu, tækifæri til að læra tungumál og dýpka skilning sinn á því þannig að þau geti þroskast og dafnað. Til þess að þetta gerist þurfa málfyrirmyndir barnanna að vera góðar, fjölbreyttar og margar. Táknmálstúlkar teljast ekki málfyrirmyndir þar sem þeir uppfylla ekki þarfir táknmálsbarna fyrir bein samskipti á máltökualdri.
    Ríkt málumhverfi þýðir að aðgengi er að vönduðu, skýru og skiljanlegu máli í fjölbreyttum aðstæðum, ólíkum málsniðum, fjölbreyttri orðræðu og samskiptum við ólíkar málfyrirmyndir á öllum tímum. Huga þarf vel að gæðum málgagna hjá tvítyngdu barni, með tilliti til málfyrirmynda, málumhverfis og jákvæðs viðhorfs í garð málsins, svo að tungumál geti talist vera fyrsta mál eða annað tveggja mála viðkomandi. Þá er menning ásamt menningarlegum gildum málsamfélags órjúfanlegur hluti máltöku. Það er lagaleg skylda ríkis og sveitarfélaga að styðja við menningu táknmálssamfélagsins á Íslandi, sbr. 5. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011.
    Með því að leggja áherslu á máltöku táknmálsbarna er sjónum beint að mikilvægi íslensks táknmáls fyrir framtíð þeirra. Grundvöll að máltöku íslensks táknmáls er hægt að tryggja með aðgengi foreldra að upplýsingum um tungumálið, máltöku, máluppeldi og málanám. Upplýsingar um íslenskt táknmál eru einnig mikilvægar fyrir einstaklinga sem missa heyrn síðar á lífsleiðinni. Táknmálsbörn eiga rétt á því að fá kennslu á og í íslensku táknmáli á máltökuskeiði og öllum stigum skólagöngu, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í ljósi þess á hve viðkvæmu stigi leikskólabörn eru í máltöku þarf að tryggja að kennsla og umönnun fari fram á íslensku táknmáli fyrir þau sem hafa það að móðurmáli.
    Kennsla þessara barna, a.m.k. í leikskóla og á fyrstu stigum grunnskóla, á ekki að fara fram í gegnum túlk heldur málfyrirmyndir í beinum samskiptum. Til þess að börnin geti mótað sjálfsmynd og félagsfærni þarf að tryggja þeim tækifæri til náms með öðrum börnum sem tala táknmál. Þá þarf að tryggja að börnin hafi aðgengi að mál- og menningarsamfélagi íslensks táknmáls, að jafningjum sem tala sama mál og fullorðnum málfyrirmyndum (táknmálsumhverfi) auk fjölbreytts efnis á íslensku táknmáli, svo sem bókum og sjónvarpsefni, til að þau geti öðlast færni í málinu á öllum máltöku- og skólastigum. Menntastefnur ríkis og sveitarfélaga og námskrár skulu taka mið af lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.
    Mikilvægt er að auka aðgengi að námi í íslensku táknmáli. Brýnt er fyrir máltöku táknmálsbarna að fjölskyldu þeirra sé eins fljótt og auðið er tryggt aðgengi að námi í íslensku táknmáli. Í táknmálsnámi aðstandenda þarf að taka mið af þroska og menntun barnsins sem talar táknmál svo að aðstandendur geti stutt við máltöku þess og átt í áreynslulausum samskiptum við það á hverju aldursskeiði. Þá skiptir einnig sköpum fyrir máltöku umræddra barna að táknmálsfólk hafi tækifæri til menntunar á sviði íslensks táknmáls til þess að fjölga megi fólki í mál- og menntunarumhverfi barnanna á öllum námsstigum. Fagfólki í menntunarumhverfi táknmálsbarna ber að hafa afburðafærni í íslensku táknmáli. Hafi börn af einhverjum ástæðum orðið af máltöku á íslensku táknmáli er afar brýnt að táknmálskennsla sé þeim aðgengileg síðar.

Um B. Rannsóknir og varðveislu.

    Rannsóknir á tungumálum, sögu þeirra og menningu eru grundvöllur þekkingar og kennslu. Forsenda rannsókna er að fram fari öflug söfnun, varðveisla og skráning gagna. Leggja þarf áherslu á söfnun gagna vegna rannsókna á minnihlutamálum því að aðgengi að þeim er eðli málsins samkvæmt minna. Birtingarmynd rannsókna getur verið í formi orðabóka, málheilda, fyrirlestra, kennsluefnis og fræðirita.
    Fjármögnun og mönnun rannsókna minnihlutamála hefur áhrif á stöðu tungumáls í samfélagi og viðhorfi til þess. Söfnun gagna fyrir rannsóknir á tungumálum sem ekki hafa ritmál, þ.m.t. táknmáli, skiptir máli fyrir varðveislu tungumálanna. Menningarleg verðmæti þjóða felast m.a. í tungumálum þeirra hvort sem um meiri- eða minnihlutamál er að ræða. Menningarverðmæti íslensks táknmáls fyrir íslenskt samfélag eru ótvíræð.
    Áhersla á rannsóknir og varðveislu íslensks táknmáls gagnast innlendum og erlendum fræðasamfélögum, þá helst á sviði málvísinda, félagsvísinda og menntavísinda. Til þess að íslenskt táknmál og íslenska geti staðið til jafns skiptir sköpum að fjármagna rannsóknir á íslensku táknmáli, sögu þess og menningu. Um leið er hægt að safna upplýsingum um málsögu, málfræði og málbreytingar ásamt því að öðlast betri þekkingu á máltöku, kennslu málsins, túlkun, þýðingum úr íslensku táknmáli yfir á annað mál og öfugt og þekkingu á málsamfélaginu. Birting rannsóknarniðurstaðna og miðlun niðurstaðna til þeirra fagsviða sem starfa á vettvangi íslensks táknmáls sem og annarra tungumála getur skipt sköpum hvað varðar viðhorf til íslensks táknmáls, kennslu barna sem tala málið og stöðu þess í alþjóðlegu samhengi. Leitast verður eftir því að sjóðir á sviði menningar og lista taki mið af jafnri stöðu íslensks táknmáls og íslensku lögum samkvæmt. Huga verður að því að styrkja rannsóknir á íslensku táknmáli.
    Þar sem íslenskt táknmál er sjónrænt mál er varðveisla þess stafræn. Markviss söfnun gagna á stafrænu formi er nauðsynleg til að varðveita ólík málstig og birtingarmyndir tungumálsins. Mikilvægt er að þróa gagnagrunn svo að varðveita megi tungumálið um ókomin ár, vinna gegn útrýmingu þess og tryggja aðgengi að námsefni, umrituðum rannsóknargögnum og menningarverðmætum þjóðarinnar.

Um C. Jákvætt viðhorf.

    Málhugmyndafræði endurspeglar yrtar og óyrtar ályktanir um eðli tungumáls, gildi þess, notkun og viðhorfin sem hegðun fólks og orðræða ræðst af. Málhugmyndafræði birtist í málhegðun og félagslegum samskiptum. Hún hefur áhrif á málbreytingar, hvort mál deyja út, hvernig málfræði er lýst og hvernig fólk er flokkað eftir málinu sem það notar og hefur þannig áhrif á sjálfsmynd fólks.
    Út frá málvísindalegu sjónarhorni eru öll tungumál jöfn en viðhorf til þeirra geta verið ólík, sem oftar en ekki hefur áhrif á stöðu þeirra beint eða óbeint. Með viðhorfi til tungumáls er því átt við skoðanir fólks og hugmyndir þess um ákveðið tungumál, tilbrigði, mállýskur, málanám, málhafa, málminnihluta o.s.frv.
    Viðhorf til tungumáls hefur meira vægi fyrir minnihlutamál en meirihlutamál. Þar sem eitt mál er ríkjandi í samfélagi skiptir máli að minnihlutamálum sé gert hátt undir höfði til að tryggja jafnræði málnotenda og virðingu fyrir málunum. Viðhorf til tungumáls hefur áhrif á stöðu þess í þjóðfélaginu og því er viðhorfastýring mikilvæg til að stuðla að jákvæðu viðhorfi almennt. Jákvætt viðhorf stjórnvalda hefur til að mynda áhrif á sýnileika málsins, m.a. í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Sýnileiki málsins hefur að sama skapi jákvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra sem tala málið og þar með viðhorf þeirra sem og annarra til tungumálsins. Aftur á móti getur neikvætt viðhorf til tungumáls komið í veg fyrir að börn á máltökualdri verði fær í tilteknu máli þrátt fyrir nægt aðgengi að málinu. Neikvætt viðhorf getur þar af leiðandi haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífvænleika tungumáls.
    Jákvætt viðhorf til íslensks táknmáls er grundvöllur þess að táknmálstalandi fólk hafi tækifæri á við aðra og skiptir sköpum fyrir aðgengi aðstandenda og fagfólks að upplýsingum um tungumálið.

Um D. Fjölgun umdæma íslensks táknmáls.

    Með umdæmi er átt við notkunarsvið tungumálsins. Ef mál tapar notkunarsviðum takmarkast notkun þess oft við allra nánasta umhverfi málnotandans, eins og í samskiptum við ættingja og vini. Til að tungumál geti dafnað og þróast og málhafar þess njóti jafnræðis þarf að tryggja að hægt sé að nota tungumálið á öllum sviðum samfélagsins. Skapa þarf tækifæri til þess að viðeigandi orðaforði verði til fyrir öll umdæmi samfélagsins og að orðræðuhefð mótist og þróist á þeim öllum. Því fleiri sem umdæmi tungumáls eru þeim mun betur er hægt að tryggja málumhverfi barna á máltökuskeiði.
    Með því að leggja áherslu á að sjálfsagt sé að nota íslenskt táknmál á öllum sviðum íslensks samfélags til jafns við íslensku eykst þátttaka fólks sem talar íslenskt táknmál í íslensku þjóðlífi. Til að draga úr útrýmingarhættu íslensks táknmáls þarf að fjölga í hópi þeirra sem tala íslenskt táknmál og stækka þannig málsamfélag þess en einnig þarf að stuðla að markvissri varðveislu og miðlun tungumálsins og menningararfs milli kynslóða. Enn fremur þarf að tryggja aðgengi allra, sérstaklega barna á máltökuskeiði, að ríku málumhverfi. Það er m.a. gert með því að hafa sögur og annað menningarefni sem á sér uppruna í menningarsamfélagi íslensks táknmáls, námsefni, lestrarbækur, barnaefni í sjónvarpi og hvaðeina sem viðkemur börnum og þeirra áhugasviði aðgengilegt á vönduðu, skýru og skiljanlegu íslensku táknmáli.

Um E. Lagaumhverfi.

    Staða minnihlutamála er misjöfn eftir löndum; minnihlutamál í einu landi getur verið meirihlutamál í öðru. Táknmál eru þó alltaf minnihlutamál og sjaldgæft er að þeim sé tryggð lagaleg staða til jafns við meirihlutamál. Það er mikilvægt að þjóðir og stjórnvöld hvarvetna taki afstöðu með þjóðtungum og hefðbundnum minnihlutamálum í hverju landi til þess að málin lifi og þróist og að löggjöf styðji við réttindi þeirra sem þau tala.
    Á Íslandi hefur staða íslensks táknmáls verið tryggð með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Nauðsynlegt er að ríki og sveitarfélög framfylgi þeirri lagasetningu sem er frá árinu 2011.
    Tryggja þarf að ákvörðunarvald vegna þjónustu við táknmálstalandi fólk sé ekki á sömu herðum og þess sem greiðir fyrir þjónustuna. Mikilvægt er að tryggja að táknmálstalandi einstaklingur fái alltaf táknmálstúlkun við úrlausn mála sinna sem hinu opinbera er skylt að sinna samkvæmt lögum og viðkomandi stofnun skylt að greiða.

Um F. Máltækni.

    Þróun í máltækni til varðveislu og eflingar tungumálum er mjög hröð. Það á við um gerð námsefnis, leiðir til fjarnáms og fjarkennslu og varðveislu gagna til rannsókna og kennslu. Með þróun fjarnáms og námsefnis sem hentar til tölvustuddrar tungumálakennslu er hægt að tryggja aðgengi allra að námi í íslensku táknmáli óháð búsetu og vinnutíma. Slík þróun í táknmálskennslu í stafrænum heimi veitir tækifæri til að fjölga þeim sem tala íslenskt táknmál og bæta þannig málumhverfi táknmálsbarna og viðhorf til tungumálsins.
    Aukið aðgengi að málföngum, svo sem táknalistum eða upptökum á ólíkri málnotkun, skapar aukna möguleika á uppbyggingu máltæknilausna fyrir íslenskt táknmál. Nauðsynlegt er að auka þekkingu á slíkum lausnum hér á landi til að miðla málinu og til varðveislu og rannsókna og sporna þannig gegn útrýmingu málsins.
    Uppbygging málheildar íslensks táknmáls er grundvöllur að frekari rannsóknum en einnig er hægt (og æskilegt) að nota efni úr málheild sem kennslugögn og námsefni. Þekkingarsköpun og þjálfun í notkun máltæknilausna og uppbyggingu málheildar, svo sem með kennslu umritunar íslensks táknmáls, eru mikilvæg skref við undirbúning slíkra máltækniverkefna.