Ferill 46. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 46  —  46. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi.


Flm.: Líneik Anna Sævarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Hanna Katrín Friðriksson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að skýra reglur um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi og önnur þau atriði sem landeigendur þurfa að taka tillit til þegar þeir selja kolefniseiningar eða nýta þær til kolefnisjöfnunar í eigin rekstri.
    Matvælaráðherra skili Alþingi greinargerð um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi eigi síðar en 1. febrúar 2024.
    

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi (801. mál) og er nú endurflutt nánast óbreytt. Markmið með tillögu þessari er að vinna gegn loftslagsbreytingum með því að skýra þá umgjörð sem bændur og umráðamenn lands þurfa að virða við kolefnisbindingu í landi. Ein af mikilvægum forsendum þess er að ljóst sé hvernig standa skal að skráningu og bókhaldi kolefnisbindingar þannig að þeir sem þess óska geti annaðhvort selt kolefniseiningar á frjálsum markaði eða fengið þær viðurkenndar við kolefnisjöfnun eigin rekstrar í bókhaldi sínu.
    Til að vinna gegn loftslagsbreytingum af völdum gróðurhúsalofttegunda og til að uppfylla markmið Íslands í loftslagsmálum þarf að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda úr landi og nota land til að binda kolefni þar sem það á við. Margir bændur og aðrir umráðamenn lands eru tilbúnir til að nota hluta af því landi sem þeir hafa yfir að ráða til að binda kolefni og oft er raunar hægt að samþætta kolefnisbindingu og önnur landnýtingarmarkmið, svo sem ræktun skóga til viðarframleiðslu, skjóls og beitar.
    Kolefnisbinding í landi er langtímafjárfesting sem bæði bindur landnýtingu og fjármagn til fjölda ára. Því er mikilvægt að leikreglur séu skýrar. Leiðsögn stjórnvalda í þessum málum er á margan hátt óskýr, t.d. að því er varðar samspil kolefniseininga sem seldar eru á frjálsum markaði og loftslagsbókhalds Íslands, mat á kolefniseiningum til kolefnisjöfnunar eigin rekstrar og mat á kolefniseiningum þar sem markmið ræktunar eru fleiri en binding kolefnis.
    Í því ljósi leggja flutningsmenn til að matvælaráðherra verði falið að skýra reglur um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi og önnur þau atriði sem landeigendur þurfa að taka tillit til þegar þeir selja kolefniseiningar eða nýta þær til kolefnisjöfnunar í eigin rekstri. Ein kolefniseining samsvarar einu tonni af koltvísýringi, sem getur verið bundið í gróðri eða falist í því að komið er í veg fyrir staðbundna losun koltvísýrings úr landi eða gróðri.
    Í kolefnisbúskap virðist einkum horft til þriggja leiða:
                  a.      Vottaðar einingar verði seldar á frjálsum markaði.
                  b.      Viðurkenndar verði leiðir fyrir landeigendur til að kolefnisjafna eigin rekstur með kolefnisbindingu fyrir tilstilli einhvers konar græns bókhalds. Það getur átt við um landbúnað sem annan rekstur viðkomandi umráðamanns lands.
                  c.      Boðið verði upp á einfaldari leiðir en vottaðar einingar til kolefnisjöfnunar án vottunar, en ýmislegt bendir til að þessi verkefni þróist í vottuð verkefni.
    Umráðamenn lands horfa til þess að nýta eigið land til kolefnisjöfnunar rekstrar í bókhaldi sínu en margir bændur hafa raunar lengi unnið markvisst að kolefnisjöfnun búrekstrar. Undanfarin ár hafa ýmis fyrirtæki fjárfest í landi til þess að búa til tækifæri til kolefnisjöfnunar á móti öðrum rekstri á ólíkum sviðum, svo sem vélaverktöku, sjávarútvegi eða verslun. Ekki virðist ljóst hvernig rekstraraðilar geta gert grein fyrir kolefnisjöfnun eigin rekstrar á landi sem þeir hafa til umráða. Þá er óljóst hvaða kröfur eru gerðar til vottunar slíkrar bindingar.
    Forsendur fyrir viðskiptum með kolefnisbindingu á valkvæðum og frjálsum markaði eru m.a. þessar:
                  a.      Vottunarkerfi sé til staðar.
                  b.      Kolefniseiningar séu skráðar í viðurkenndan gagnagrunn.
                  c.      Viðurkennd vottunarstofa votti seldar einingar og mæli og staðfesti bindingu í samræmi við áætlanir.
                  d.      Kolefnisbindingin eigi sér stað með nýjum verkefnum, svo sem skógrækt, sem ekki hefði verið ráðist í nema með það m.a. að markmiði að binda kolefni.
    Öll ræktun rofins lands dregur úr losun kolefnis í andrúmsloftið og bindur auk þess kolefni í gróðri. Slík ræktun getur á sama tíma skapað viðarauðlind, endurheimt vistkerfi, bætt aðstöðu til útivistar, byggt upp beitiland og skapað skjól fyrir búfé. Ekki ætti að þurfa að velja á milli ólíkra leiða til að binda kolefni eða draga úr losun þess heldur ætti að velja leiðir sem henta aðstæðum og landnýtingu á hverju svæði.
    Kolefnisbinding í landi er langtímafjárfesting sem bæði bindur landnýtingu og fjármagn um langa hríð. Því er óraunhæft að ætla að þeir sem stunda búrekstur geti ráðist í nauðsynlega fjárfestingu til að hefja skógrækt eða endurheimt vistkerfa. Samt sem áður er mikilvægt að þeir sem vilja búa í dreifbýli fái tækifæri til að nýta það land sem þeir hafa til umráða til kolefnisbindingar frekar en að heilar sveitir verði keyptar upp og jarðir eingöngu nýttar til kolefnisbindingar án búsetu. Af því leiðir að mikilvægt er að móta regluverk sem styður við samþættingu fjölbreyttrar landnýtingar, þ.m.t. fjölbreytt kolefnisbindingarverkefni, en setja ætti verkefni í forgang þar sem hægt er að ná mörgum markmiðum samtímis. Í ljósi þessa er mikilvægt að athuga vel mögulegar leiðir til að fjármagna kolefnisbindingu í landi sem bæði uppfylla kröfur sem gerðar eru til vottaðra kolefniseininga og skapa þeim sem búa í dreifbýli tækifæri.
    Samhliða því að leikreglur um kolefnisbókhald verði skýrðar gæti þurft að endurskoða samstarf ríkisins við bændur og fjölga leiðum til samstarfs, t.d. þannig að þeir sem vilja geti ræktað skóga með minni ríkisstuðningi en jafnframt selt kolefniseiningar. Forsenda þessa væri greining á því hvort viðskipti með kolefniseiningar gætu staðið undir fjármögnun skógræktar hjá bændum og landeigendum til framtíðar.
    Í ársbyrjun 2021 tóku gildi breytingar á lögum um tekjuskatt sem ættu að freista lögaðila. Samkvæmt þeim má nota allt að 0,85% árstekna til kolefnisjöfnunar án tekjuskattsgreiðslu fyrir yfirstandandi ár þegar framlögin eru greidd. Þetta á við um aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar lögaðilans og um fjárframlög til skógræktar, uppgræðslu og endurheimtar votlendis.
    
Dæmi um verkefni sem stuðla að kolefnisbindingu.
    Ekki er rekin vottunarstofa hér á landi en Skógræktin hefur hrundið af stað verkefninu Skógarkolefni til að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Skógarkolefni er nokkurs konar gæðastaðall fyrir viðurkennt ferli vottunar fyrir sölu vottaðra kolefniseininga í skógrækt eða eins konar gátlisti yfir það sem þarf að vera til staðar svo að skógur sé vottunarhæfur. Í upphafi eru kolefniseiningar skilgreindar sem einingar í bið og þegar skógurinn vex eru þær staðfestar og breytast þá í fullgildar einingar. Skógræktin hefur þýtt breskt vottunarkerfi (e. UK Woodland Carbon Code) en ekkert útilokar notkun annarra viðurkenndra vottunarkerfa. Fleiri kerfi hafa verið prófuð hér á landi.
    Byggð hefur verið upp viðurkennd loftslagsskrá hér á landi. Loftslagsskrá (e. International Carbon Registry) er rafrænn skráningargrunnur fyrir loftslagsverkefni. Þeir sem vilja skrá loftslagsverkefni í Loftslagsskrá og gefa út kolefniseiningar þurfa að uppfylla ítarlegar kröfur í samræmi við alþjóðlegar meginreglur um loftslagsverkefni.
    Nú hafa fyrstu vottuðu kolefniseiningarnar sem byggðar eru á nýskógrækt á Íslandi verið gefnar út hjá fyrirtækinu Yggdrasil Carbon (YGG) og þess er vænst að þær byrji að skila kolefnisjöfnun árið 2027.
    Þá miðlar fyrirtækið Súrefni vottuðum kolefniseiningum þar sem bindingin getur átt sér stað annars staðar en á Íslandi.
    Kolefnisbrúin er fyrirtæki í eigu Landssamtaka skógareigenda og Bændasamtaka Íslands sem vinnur að því að leiða saman landeigendur og fyrirtæki sem vilja kolefnisjafna rekstur sinn með skógrækt.
    Þá eru rekin nokkur verkefni á Íslandi sem bjóða upp á kolefnisjöfnun án þess að vottaðar kolefniseiningar liggi þar að baki. Þetta eru verkefni á borð við Kolvið, Landsskóga, Votlendissjóð og fleiri. Hugsanlega munu þessi verkefni færa sig í sölu vottaðra kolefniseininga, bjóða áfram upp á kolefnisjöfnun þar sem minni kröfur eru gerðar til staðfestingar á kolefnisbindingu eða blanda þessu tvennu saman.
    Kolviður er óhagnaðardrifinn loftslagssjóður sem stofnaður var af Landvernd og Skógræktarfélagi Íslands og hefur plantað skógi á um 800 hekturum. Kolviður vinnur að innleiðingu vottunar sem felst í því að vottaðar eru kolefniseiningar sem voru seldar áður en skógræktin hófst. Vottunin á sér stað eftir á og snýst um að staðfesta það sem kaupendur óskuðu eftir í upphafi.
    Votlendissjóður er í vottunarferli svo að hann geti selt vottaðar kolefniseiningar. Sjóðurinn hefur endurheimt 345 hektara frá stofnun árið 2018.
    Mikilvægt er að nýta allar færar leiðir til að vinna gegn loftslagsbreytingum og því telja flutningsmenn mikilvægt að skýra þá umgjörð sem bændur og umráðamenn lands þurfa að virða við skráningu kolefnisbindingar í landi. Flutningsmenn telja að þannig megi tvinna saman jákvæð markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála, fjölga atvinnutækifærum og styrkja dreifbýlissamfélög.