Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 50  —  50. mál.
Frumvarp til laga


um brottfall laga um heiðurslaun listamanna, nr. 66/2012.

Flm.: Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Lög um heiðurslaun listamanna, nr. 66/2012, falla úr gildi.

2. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skulu ákvæði laga um heiðurslaun listamanna, nr. 66/2012, halda gildi sínu gagnvart listamönnum sem hlotið hafa heiðurslaun fyrir gildistöku laga þessara.
    Nú hefur listamaður hlotið heiðurslaun samkvæmt lögum um heiðurslaun listamanna, nr. 66/2012, og heldur hann þá þeim réttindum ævilangt.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi (817. mál) en kom ekki til umræðu.
    Lög nr. 66/2012 fólu í sér að árlega voru 25 listamönnum veitt heiðurslaun í fjárlögum og námu þau sömu upphæð og starfslaun listamanna á hverjum tíma. Eftir sjötugt námu þau hins vegar 80% af starfslaunum til samræmis við eftirlaunarétt annarra stétta.
    Með frumvarpinu er lagt til að lög um heiðurslaun listamanna, nr. 66/2012, verði felld brott. Þó verði tekið tillit til réttinda þeirra sem hafa nú þegar hlotið heiðurslaun á grundvelli laganna. Því er talið rétt að þeim sem nú þegar hafa á einhverjum tímapunkti hlotið heiðurslaun samkvæmt ákvæðum laganna verði greidd heiðurslaun til æviloka og mun Alþingi ekki hrófla við þeim hópi listamanna. Þó getur enginn listamaður sem ekki hefur áður hlotið heiðurslaun haft réttmætar væntingar um að hljóta heiðurslaun samkvæmt lögum um heiðurslaun listamanna, enda er það undir Alþingi komið hverju sinni hverjir hljóta heiðurslaun.
    Heiðurslaun listamanna eru í eðli sínu frábrugðin starfslaunum listamanna samkvæmt lögum um listamannalaun, nr. 57/2009. Í lögum um listamannalaun kemur skýrt fram í 1. gr. að tilgangur þeirra sé að „efla listsköpun í landinu“, en slíkan tilgang eða markmið er ekki að finna í lögum um heiðurslaun listamanna. Í raun virðast lögin ekki hafa neinn eiginlegan tilgang annan en að veita afmörkuðum hópi listamanna föst mánaðarlaun fyrir vel unnin störf á sviði lista, enda er ekki gerð krafa um nokkurs konar vinnuframlag frá þeim sem þiggja heiðurslaun eftir að launin eru veitt. Markmið laganna er því ekki að efla þá sem hljóta heiðurslaunin í listsköpun sinni, enda eru heiðurslaunaþegar yfirleitt komnir á eftirlaunaaldur og oft hættir allri listsköpun. Þess utan geta listamenn ávallt sótt um starfslaun listamanna á grundvelli laga þar um, óháð aldri, og geta því þeir listamenn sem komnir eru á eftirlaunaaldur og enn að störfum aflað sér tekna með þeim hætti.
    Heiðurslaun listamanna virðast því ekki bera neinn samfélagslegan ávinning, enda er það ekki markmið laganna. Eðlilegt verður að telja að samfélagslegur ávinningur sé forsenda fyrir fjárútlátum hins opinbera til íþrótta, lista og menningar almennt. Í tilviki heiðurslaunanna er tilgangur þeirra einungis að heiðra afmarkaðan hóp listamanna sem talinn er hafa skarað fram úr á starfsævi sinni. Færa má rök fyrir því að það sé vel til fundið að heiðra slíka listamenn með einhverjum hætti, en þá væri réttara að gera það með öðrum hætti en föstum launum á kostnað ríkissjóðs. Lengi vel var litið á heiðurslaun listamanna sem eins konar ellilífeyri sem átti að tryggja eldri listamönnum fjárhagslegt öryggi á efri árum. Slík sjónarmið eiga þó ekki við í dag þar sem almannatryggingakerfið tryggir listamönnum jafnt sem öðrum ellilífeyri.
    Þegar ákvörðun er tekin um að veita tilteknum listamanni heiðurslaun liggur nánast ekkert hlutlægt mat þar að baki og svo gott sem eingöngu unnt að ákveða hverjir séu þess verðugir að hljóta heiðurslaun á grundvelli huglægs mats. Í ljósi þess að list getur oft verið pólitísk, til að mynda ádeilur á einstaka stjórnmálamenn eða flokka, má líta svo á að óheppilegt sé að hinir sömu stjórnmálamenn og eru skotspónn ýmissa listamanna ákveði hverjir skuli hljóta heiðurslaun, enda getur það hæglega haft í för með sér að ákvörðunin verði ekki tekin út frá listrænni arfleifð manna heldur pólitískum skoðunum þeirra.
    Jafnframt er ferlið í kringum úthlutun heiðurslauna ógagnsætt og oft vandséð hvaða rök liggja að baki vali á listamönnum á heiðurslaunalistann. Slík framkvæmd er til þess fallin að varpa skugga á heiðurslaunafyrirkomulagið og vekur upp efasemdir um fagleg vinnubrögð við úthlutun heiðurslauna.