Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 68  —  68. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (tilhögun strandveiða).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
     a.      Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.
     b.      1. tölul. 6. mgr. fellur brott.
     c.      Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimild þessi gildir þrátt fyrir að búið sé að veiða upp í það aflamark sem ráðstafað er til strandveiða innan fiskveiðiársins skv. 1. mgr. 6. gr. a.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Mál þetta var áður flutt á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi (105. mál) en náði ekki fram að ganga. Tvær umsagnir bárust um frumvarpið á 150. löggjafarþingi. Strandveiðifélagið Krókur lýsti yfir stuðningi við frumvarpið og kallaði eftir frekari breytingum á strandveiðikerfinu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lýstu hins vegar yfir áhyggjum af efni frumvarpsins og töldu að kerfið óbreytt dygði til að tryggja skilvirkar strandveiðar. Á 152. löggjafarþingi barst umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda. Í umsögninni lagði sambandið áherslu á að lögfesta þyrfti rétt til veiða í 48 daga.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði brott ákvæði um strandveiðar í lögum um stjórn fiskveiða sem setur þau skilyrði að óheimilt sé að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga og að ráðherra geti með reglugerð bannað strandveiðar á almennum frídögum. Einnig er lagt til að strandveiðar verði áfram heimilar þrátt fyrir að búið sé að veiða upp í það aflamark sem ráðstafað er til þeirra innan fiskveiðiársins. Þannig verður strandveiðimönnum tryggður réttur til veiða í 48 daga á hverju veiðitímabili.
    Heildarviðmið afla til strandveiða sumarið 2018 voru 10.200 tonn af óslægðum botnfiski. Alls voru 548 bátar á strandveiðum og varð heildaraflinn 9.396 tonn. Því voru 804 tonn af kvótabundnum tegundum óveidd af þeim heimildum sem voru ætlaðar til strandveiða það sumar. Heildarþorskaflinn á tímabilinu var 9.075 tonn. Miðað við aflasamsetningu og meðalverð strandveiðiafla sumarið 2018 má ætla að verðmæti óveidds þorsks hafi numið um 200 millj. kr.
    Það sama á við um strandveiðiárið 2019. Á því ári var strandveiðiflotanum, sem þá var 623 bátar, heimilt að veiða 11.100 tonn af óslægðum botnfiski í kvótabundnum tegundum. Alls veiddust 9.700 tonn. Því voru um 1.350 tonn óveidd í lok strandveiðiársins 2019.
    Á strandveiðiárinu 2020 veiddu 668 bátar samtals 11.840 tonn, þar af 10.738 tonn af þorski. Veiðarnar voru stöðvaðar þann 19. ágúst eða tveimur vikum fyrir áætluð lok tímabilsins. Strandveiðiárið 2021 veiddust 12.170 tonn, þar af 11.159 tonn af þorski, og voru veiðar stöðvaðar 18. ágúst það ár, einnig tveimur vikum fyrir áætluð lok tímabilsins. Árið 2022 veiddust 12.557 tonn yfir strandveiðitímabilið, þar af 10.981 tonn af þorski. Veiðar voru stöðvaðar 21. júlí eða réttum sex vikum fyrir lok tímabilsins. Árið 2023 veiddust 11.352 tonn yfir strandveiðitímabilið, þar af 9.952 tonn af þorski. Veiðar voru stöðvaðar 12. júlí eða réttum sjö vikum fyrir lok tímabilsins.
    Það er umhugsunarefni að árin 2018 og 2019 hafi ekki tekist að nýta aflaheimildir sem úthlutað er til strandveiða. Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga en náttúrulegar sveiflur vega þar þyngst. Þar ber þá helst að nefna fiskgengd og gæftaleysi. Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða eru líka lagðar verulegar takmarkanir á veiðigetu strandveiðiflotans. Þar má nefna að einungis má veiða ákveðna daga í viku hverri í maí, júní, júlí og ágúst. Veiðidagar á hvern bát eru að hámarki 12 í hverjum mánuði. Aðeins má nota handfærarúllur og ekki fleiri en fjórar í hverjum bát. Tímatakmarkanir eru á hverri veiðiferð og hámarksafli í veiðiferð er 650 kg þorskígildi af kvótabundnum tegundum.
    Eins og fyrr er greint stunduðu 548 bátar strandveiðar sumarið 2018 og 623 sumarið 2019. Veruleg þjóðhagsleg fjárbinding er í þessum flota. Vart getur talist þjóðhagslega hagkvæmt að á hverju sumri brenni inni veiðiheimildir fyrir hundruð milljóna króna reiknað í aflaverðmæti. Ekki einungis hinar brothættu sjávarbyggðir verða af ómetanlegum tekjum heldur þjóðarbúið í heild sinni.
    Flutningsmenn telja að með því að fella út ákvæði sem bannar veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga og heimilar ráðherra að banna strandveiðar á almennum frídögum með reglugerð þá gefist strandveiðisjómönnum sjálfsagt frelsi til að velja sína 48 veiðidaga sjálfir. Um leið öðlast þeir meira öryggi við sjósókn sína þar sem síður er lagt upp í veiðiför í vonskuveðri sem getur kostað mannslíf.
    Lög um stjórn fiskveiða takmarka hvenær strandveiðimenn geta sótt sjóinn og opna jafnframt á það að strandveiðar verði stöðvaðar um mitt sumar. Frumvarp þetta leggur til að lögum verði breytt til að auka sveigjanleika í báðar áttir þannig að allir strandveiðimenn fái að stunda veiðar í 48 daga á hverju sumri.
    Árin 2020 og 2021 var veiðum lokið um miðjan ágúst en árin 2022 og 2023 lauk þeim um miðjan júlí. Strandveiðimenn hafa kallað eftir því að réttur til veiða í 48 daga á hverju strandveiðitímabili verði lögfestur. Slík tilhögun stuðlar að auknu afkomuöryggi sjómannanna og kemur í veg fyrir hinar svokölluðu ólympísku veiðar. Allir myndu þá fá að sækja sjó í 48 daga á tilskildu tímabili án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að veiðar verði stöðvaðar. Vegna þess er lagt til að í 6. gr. a laganna verði kveðið á um að skip með strandveiðileyfi megi stunda strandveiðar í allt að 48 veiðidaga á hverju strandveiðitímabili þrátt fyrir að búið sé að veiða upp í það aflamark sem ráðstafað er til strandveiða.
    Strandveiðar eru óumdeilt ómetanleg lyftistöng fyrir sjávarbyggðirnar allt í kringum landið, sjávarbyggðir sem margar hverjar eiga í vök að verjast og hafa verið skildar eftir í sárum eftir að núgildandi framsalsheimildir og kvótakerfi hafa gert það að verkum að allar aflaheimildir til stærri útgerðar hafa verið seldar/hrifsaðar þaðan á brott.