Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 95  —  95. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn.


Flm.: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bjarni Jónsson, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra skipun starfshóps sem skoði hvort skilgreina eigi rétt foreldra eða forsjáraðila á vinnumarkaði til að annast veikt eða slasað barn með tilliti til fjölda barna. Mikilvægt sé að kanna útfærslur á slíku fyrirkomulagi með tilliti til launamissis foreldris, leyfis þess frá störfum eða vinnutaps og réttinda á vinnumarkaði. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka íslenskra sveitarfélaga, umboðsmanns barna, Öryrkjabandalags Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Hópurinn skili skýrslu til ráðherra eigi síðar en 1. júní 2024.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 151. löggjafarþingi (191. mál), 152. löggjafarþingi (373. mál) og á 153. löggjafarþingi (96. mál). Tillagan er nú endurflutt án efnislegra breytinga.
    Á 151. löggjafarþingi bárust sjö umsagnir um málið og voru viðtökur almennt jákvæðar. Þá var bent á nokkur atriði sem þegar hafði verið fjallað um í greinargerð, m.a. mismunun og réttindi barna vegna stöðu þeirra eða foreldra, með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, enda mikið framfaraskref að börn njóti umönnunar foreldra sinna óháð aðstæðum fjölskyldunnar. Sömuleiðis var bent á að ekki væru allir foreldrar aðilar að stéttarfélagi og þeir nytu því ekki allir áunninna réttinda varðandi veikindadaga barna sinna. Þá bar hæst í umsögnum að taka ríkara tillit til fjölskyldustærðar að því er viðkemur rétti barns til umönnunar.
    Markmið tillögunnar er að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að koma á fót starfshópi til að kanna hvort skilgreina eigi á vinnumarkaði rétt foreldra eða þeirra sem fara með forsjá barns til að annast veikt eða slasað barn með tilliti til fjölda barna. Samhliða tillögu þessari er flutt frumvarp þar sem lagt er til að kveðið verði sérstaklega á um það í barnalögum, nr. 76/2003, að í forsjárskyldu felist að veikt eða slasað barn eigi rétt á umönnun foreldra sinna. Fram kemur í greinargerð með nefndu frumvarpi að sú leið sé farin þar sem réttindi og skyldur á vinnumarkaði eru aðallega skilgreind í kjarasamningum og því sé rétt að aðilar semji um þau sín á milli. Þar sem um er að ræða tvenns konar réttindi, annars vegar rétt veiks eða slasaðs barns til umönnunar foreldris eða forsjáraðila og hins vegar rétt starfsmanns til að annast veikt eða slasað barn, þykir rétt að fara þessa leið. Þá er og áréttað mikilvægi þess að samræmi sé á milli þessara réttinda.
    Samkvæmt þingsályktunartillögu þessari er félags- og vinnumarkaðsráðherra falið að skipa starfshóp sem skoði hvort skilgreina eigi rétt foreldra eða forsjáraðila á vinnumarkaði til umönnunar veiks eða slasaðs barns með tilliti til fjölda barna. Í hópnum eigi sæti fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, umboðsmanns barna, fjármála- og efnahagsráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Öryrkjabandalags Íslands. Starfshópurinn kanni hvort réttur veiks eða slasaðs barns til umönnunar foreldra skuli miðast við hvert barn um sig í stað þess að rétturinn miðist við það að foreldri eigi rétt á tilteknum dagafjölda á tólf mánaða tímabili til umönnunar veikra barna.
    Aðilar vinnumarkaðarins og opinberir aðilar hafa þegar skilgreint í kjarasamningum réttindi foreldra hvað þetta varðar og þannig gengið á undan með góðu fordæmi. Útfærslan á réttindum foreldra eða forsjáraðila verður þannig áfram í höndum aðila vinnumarkaðarins. Í kjarasamningum eða með reglum væri rétt að útfæra hvernig koma bæri til móts við sjónarmið um að réttur foreldra, eða þeirra sem fara með forsjá barns, miðist við hvert barn um sig og tryggi þannig betur rétt veiks eða slasaðs barns til umönnunar.
    Í greinargerð með áðurnefndu frumvarpi eru rakin þau sjónarmið sem búa að baki því og þessari tillögu til þingsályktunar. Er þar lögð áhersla á umræðu um rétt og réttindi barna sem aukist hefur að styrk undanfarin ár, ekki síst með undirritun og síðar lögfestingu á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Réttur barns til samvista við foreldra og til umönnunar þeirra teljist til mikilvægra réttinda sáttmálans og sé jafnvel einn af hornsteinum hans. Þá segir að á íslenskum vinnumarkaði innihaldi kjarasamningar ákvæði um rétt starfsmanna til að annast veik börn sín og að iðulega sé kveðið á um tiltekinn dagafjölda sem kunni að fara eftir kjarasamningi og lengd ráðningarsambands. Aftur á móti sé ekki tekið tillit til fjölda barna starfsmanns við ákvörðun á fjölda þessara daga og því kunni að skapast misræmi milli til að mynda einbirnis tveggja foreldra á vinnumarkaði og þriggja barna einstæðs foreldris.
    Með framlagningu umræddra þingmála er sú stefna mörkuð að rétturinn feli ekki aðeins í sér rétt foreldra á launuðu leyfi úr vinnu til að annast veikt barn heldur einnig rétt barnsins til umönnunar þeirra. Því sé eðlilegt að stefna að því að rétturinn miðist við hvert barn um sig í stað þess að miða við að foreldri eigi rétt á tilteknum fjölda daga á tólf mánaða tímabili til að annast veik börn. Réttindi barnsins megi þannig ekki eingöngu vera háð fjölda systkina sem það á.
    Að öðru leyti er vísað í greinargerð með áðurnefndu frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003.